16.03.1971
Sameinað þing: 34. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 776 í D-deild Alþingistíðinda. (4593)

357. mál, stofnlán fiskiskipa

Fyrirspyrjandi (Lúðvík Jósefsson):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að leggja eftirfarandi fsp. fyrir hæstv. forsrh.:

„Hefur ríkisstj. ákveðið að lækka stofnlán út á fiskiskip smíðuð innanlands úr 90% í 85%?

Sé svo, við hvaða tíma verður lækkunin miðuð? Verður lækkunin látin ná til þeirra, sem höfðu gert samninga um skipasmíði innanlands og sótt um stofnlán, áður en ákvörðun var tekin um lækkun?“

Mér hefur skilizt, að þessi ákvörðun hafi verið tekin, en vildi fá það staðfest hér á Alþ., ef svo er. Þá tel ég einnig, að það skipti miklu máli, ef til þessarar lækkunar á að koma, að það liggi ljóst fyrir, með hvaða hætti á að framkvæma hana, því að það er greinilegt, að hún getur haft allmikil áhrif á þær framkvæmdir, sem fyrirhugaðar hafa verið í þessum efnum. Ég sé ekki þörf á því að útskýra fsp. frekar, en vænti þess, að hæstv. forsrh. veiti hér svör við þessum spurningum.