16.03.1971
Sameinað þing: 34. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 776 í D-deild Alþingistíðinda. (4595)

357. mál, stofnlán fiskiskipa

Fyrirspyrjandi (Lúðvík Jósefsson):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. forsrh. fyrir svörin, en á svörum hans er ljóst, að það hefur verið tekin ákvörðun um það að lækka þessi stofnlán úr 90 í 85%, því að 10% viðbótarlánin frá atvinnumálanefnd ríkisins giltu fyrir alla nýsmíði, og heildarstofnlánin námu því 90%. En með því að lækka viðbótarlánin úr 10% í 5% er augljóst, að það er ekki um möguleika á hærri lánum að ræða en sem nemur 85%.

Það liggur líka ljóst fyrir af svari hæstv. ráðh., að ætlunin er, að þessi breyting á stofnlánum verði miðuð við 20. jan. á þessu ári, en það þýðir, að allir þeir, sem höfðu gert byggingarsamning fyrir þann tíma og höfðu sótt um lán, eiga þá að halda áfram möguleikum til 90% láns, en hinir, sem hafa samið eftir 20. jan. og lagt inn umsóknir sínar eftir þann tíma, verða þá með lægri stofnlánin. Nú hlýtur þetta að koma mjög misjafnlega niður, því að í nokkrum tilfellum voru menn búnir að sækja um stofnlán fyrir 20. jan., þó að ekki verði byrjað að smíða viðkomandi skip fyrr en ári þar á eftir. En hinir, sem mundu í rauninni fá skip sín fullsmíðuð á undan þessum aðilum, yrðu þá með lægri lánin. Ég vil aðeins segja það í sambandi við þessa breytingu, að ég tel hana ekki hafa verið tímabæra. Ég álít, að lánin hefðu áfram átt að vera 90% og það muni koma sér mjög illa fyrir marga, að þessi breyting skuli verða gerð.