16.03.1971
Sameinað þing: 34. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 777 í D-deild Alþingistíðinda. (4596)

357. mál, stofnlán fiskiskipa

Forsrh. (Jóhann Hafstein):

Herra forseti. Ég miðaði svar mitt við það, að það væri sem allra stytzt og beint svar við spurningunum, en það hefur færzt í vöxt í seinni tíð, bæði hjá fyrirspyrjendum og ráðh., að stytta þennan tíma sem mest. En ég held, að það sé nauðsynlegt, að ég rifji svolítið upp þessi viðbótarlánamál og gefi frekari skýringu á þeim, þar sem nokkurrar gagnrýni gætti á þessari ráðstöfun í ræðu hv. 4. þm. Austf.

Til þessara viðbótarlána var upphaflega stofnað af hálfu ríkisstj. Mig minnir, að það hafi verið í byrjun jan. 1969, sem ríkisstj. tók ákvörðun um það á fundi sínum að afla fjár til 10% viðbótarlána, og þá var það gert í því skyni að stuðla að verkefnasköpun í skipasmíðastöðvunum. En eftir hin erfiðu áfallaár 1967 og 1968 urðu skipasmíðastöðvarnar verulega varar við erfiðleika í útveginum, eins og málmiðnaðurinn yfirleitt, og þær voru mjög verkefnalausar, og menn voru einnig ófúsir að ákvarða þá um skipakaup og þá m. a. vegna fjárskorts. Til þeirra lána, sem veitt voru svo á þessu ári, útvegaði ríkisstj. sérstaklega fé, en eftir að atvinnumálanefnd ríkisins hafði verið sett á laggirnar, þá tók við á s. l. ári 10% viðbótarlán af því fé, sem atvinnumálanefndin hafði til ráðstöfunar. Það fé var þrotið um s. l. áramót og þó kannske nokkru fyrr. Lögin höfðu ekki lengri gildistíma en til áramóta, og þá hafði þeim fjármunum verið ráðstafað og verulega miklum hluta af þeim einmitt til fiskiskipa, bæði kaupa og bygginga hér innanlands. Spurning var þess vegna um það, hvort þar með ætti að láta þessi viðbótarlán niður falla. Það gat verið ástæða til þess af tveimur sökum. Þau voru ekki lengur til þeirrar verkefnasköpunar í skipasmíðaiðnaðinum, sem þau upphaflega voru veitt til, því að allar skipasmíðastöðvarnar hafa veruleg verkefni, sennilega flestar um það bil til tveggja ára. Í öðru lagi voru engir fjármunir fyrir hendi. Það var búið að ráðstafa fé, sem þarna var um að ræða, og fyrir áramótin höfðu bæði Fiskveiðasjóður og Seðlabankinn aðvarað ríkisstj. um það, að hér yrði að taka einhverjar ákvarðanir, ef ekki ætti atgerlega að hætta þessum viðbótarlánum. Og það er á þessu stigi málsins, sem ríkisstj. tekur ákvörðun af sinni hálfu um að útvega fé til þess að halda áfram 5% viðbótarlánum og hefur gert og mun gera ráðstafanir til þess. Fiskveiðasjóður var þess alls ómegnugur að auka lánin hjá sér, bæði vegna þess að það þótti út af fyrir sig hæpið, en einnig hafði hann ekki fjármuni til þess. Það eru nú ekki aðrar atvinnugreinar hér á landi, sem hafa aðgang að meiri stofnlánum en 85%, að ég hygg, með þeim kjörum, sem þau eru veitt.

Ég vil minnast þess líka, að eftir að ríkisstj. hafði átt hlut að máti um að byrja þessi 10% viðbótarlán og Atvinnujöfnunarsjóður bætti við 5% og þeir, sem byggðu fiskiskip innanlands, fengu þannig 90% af stofnkostnaði skipsins, þá varð ég töluvert var við það í röðum útgerðarmanna, að út af fyrir sig væri þetta góðra gjalda vert, en sannast að segja væru 90% stofnlán allt of há stofnlán, því að fiskiskip og bátar, sem hafa beðið um þau, ættu í mjög miklum erfiðleikum við að bera slík stofnlán. Í raun og veru þyrfti að gera kröfu til meira eigin framlags. Þetta varð ég var við í mörgum verstöðvum landsins, meðan málin stóðu svona. En það skýrir dálítið, hvernig þessi mál stóðu, þegar bréf kom frá Seðlabankanum 13. jan. eða formanni Fiskveiðasjóðs, Davíð Ólafssyni. Þeir höfðu, bæði Fiskveiðasjóður og Seðlabankinn, skrifað ríkisstj. um málið fyrir áramót, í desembermánuði, og ég held, að það sé rétt, að ég leyfi hv. þm. að heyra þetta bréf. Það tekur stuttan tíma að lesa það upp, með leyfi hæstv. forseta. Það er svo hljóðandi:

Vísað er til bréfs bankastjórnar Seðlabankans til forsrh., dags. 2. des. s. l., „. . . eins og þar var getið, hafa umsóknir um lán út á nýbyggingar fiskiskipa hrannazt upp síðustu vikurnar, og voru 8. jan. óafgreiddar lánsbeiðnir í Fiskveiðasjóði fyrir 36 báta, og einhverjar bætast við síðan. Byggingarkostnaður þessara báta er áætlaður 438 millj. kr., og yrði 10% lán því nær 44 millj. til viðbótar þeim 38 millj., sem áætlað var, að þyrfti vegna þeirra skipa, sem samþykktar höfðu verið lánveitingar til 2. des. s. l. Er nú alveg óhjákvæmilegt að taka ákvörðun um framhald þessa máls, enda þótt öllum, sem sótt hafa um lán úr Fiskveiðasjóði í seinni tíð, hafi verið tjáð, að með öllu sé óvíst um framhald 10% viðbótarlánanna. Má gera ráð fyrir, að a. m. k. nokkur hluti eigenda hinna 36 fyrrgreindu báta gæti ekki tryggt aukningu í framlagi, sem næmi 10%. Með því að Fiskveiðasjóður afgreiðir ekki lánsbeiðnir, nema fyrir liggi, að umsækjandi geti séð fyrir eigin framlagi, orsakar þessi óvissa algera stöðvun á afgreiðslu lánsloforða til skipabygginga. Eins og kom fram í fyrrgreindu bréfi 2. des. s. l., mæla öll rök með því, að 10% viðbótarlánin verði nú niður felld eða a. m. k. látin hverfa smám saman. Í fyrsta lagi eru erfiðleikar skipasmíðaiðnaðarins, sem voru frumástæðan til þessara lánveitinga, nú yfirunnir, þar sem verkefni eru þegar næg fram á árið 1972 og jafnvel lengur í vissum tilvikum. Afkoma útgerðarinnar hefur verið góð undanfarin ár, og ef litið er fram til ársins, sem er nýbyrjað með 25% hækkun á fiskverði, má óðara gera ráð fyrir verulega batnandi afkomu. Góð afkoma útgerðarinnar leiðir óhjákvæmilega til aukinnar eftirspurnar eftir skipum, og ef allt fer að líkum í ár, má gera ráð fyrir eftirspurnaraukningu, eftirspurnarsprengingu, þegar líða tekur á árið. Þörfin fyrir viðbótarlán er því ekki fyrir hendi nú, eins og var um tíma, og áframhaldandi óbreytt framkvæmd þeirra mundi væntanlega leiða til óeðlilegrar eftirspurnar á þessu ári.“

Um þetta skal ég svo ekki hafa fleiri orð. Það er að sjálfsögðu svo, að þegar miðað hefur verið við ákveðið lánsmark og menn hafa getað gengið að því vísu, þá veldur það vissulega nokkrum erfiðleikum, eins og hv. 4. þm. Austf. sagði, þegar breytt er til, en eins og kemur fram í þessu bréfi, var flestum aðilum fullljóst um óvissuna í þessu efni, þar sem engir fjármunir voru fyrir hendi. Það hefur verið ákveðið að miða við janúarbyrjun, bæði að umsóknir væru komnar fyrir þann tíma og eins þótt samningar væru ekki gerðir fyrr en eftir 20. jan., því að það er stundum svo, að umsóknin liggur fyrir hjá Fiskveiðasjóði, án þess að búið sé að ganga frá samningum um skipasmíðina. Vissulega má segja, að æskilegt hefði verið að geta haldið þessum lánum áfram, eins og ég sagði áðan, en Fiskveiðasjóður er í mikilli fjárþröng í sambandi við afgreiðslu útlána og fjárvöntun hjá Framkvæmdasjóði það mikil, að ákveðið var að brúa bilið með um 100 millj. kr. í erlendu láni til Fiskveiðasjóðs, sem mun verða norskt lán með sæmilega hagstæðum kjörum. Með þessu móti held ég, að a. m. k. þetta mál liggi skýrt fyrir og eftir atvikum megi vel við una.