16.03.1971
Sameinað þing: 34. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 782 í D-deild Alþingistíðinda. (4602)

357. mál, stofnlán fiskiskipa

Forsrh. (Jóhann Hafstein):

Herra forseti. Mér kemur ekkert á óvart viðhorf hv. þm. í þessum fsp.-tíma. Það er komið að því, að við þurfum að ákveða kjördag, sennilega 13. júní, eins og látið er í veðri vaka, og því skyldu ekki allir vera með því að lána mönnum, ef menn óska eftir því?

Það er lítilfjörlegt atriði, segir hv. 4. þm. Austf., að útvega peninga í þetta, það er ekkert atriði, það er bara að hafa það öruggt, að menn geti fengið lán, en hitt er aukaatriði að afla fjárins. Stundum hefur það nú bæði fyrir hann og aðra reynzt nokkur þröskuldur í vegi til framkvæmda, hvar á að taka féð.

Varðandi það, sem hv. 1. þm. Norðurl. v. sagði og vísaði til frv. síns í Ed. um að hafa 85% lán úr Fiskveiðasjóði, þá vil ég aðeins taka það fram, að það hefur alltaf verið ákveðin stefna fiskveiðasjóðsstjórnarinnar, að hún vildi ekki og teldi ekki rétt og ráðlegt að hafa fyrsta veðréttar lánin hærri en 75%, menn geta verið ósammála því, en það er rétt, að hún standi fyrir sínu máli og menn viti, hvaðan sú skoðun er komin. Og hún hefur verið þeirrar skoðunar, að það væri ekkert óeðlilegt að hafa fleiri tegundir lána í sambandi við smíði fiskiskipa og minni lánin, sem ekki væru með 1. veðrétti, væru þá kannske með öðrum kjörum og til annars tíma. Svona hefur þetta alltaf verið. Það er auðvitað fjöldi skipa, sem voru byggð hér innanlands, — það voru nú mest tréskip í þá tíð, því að stálskipabyggingarnar eru svo ungur atvinnuvegur hjá okkur, — sem höfðu 90% lán og yfir 90% meðan fiskveiðasjóðslánin voru bara 75%, og engin ákvörðun var tekin um þessi viðbótarlán hjá Atvinnujöfnunarsjóði eða ríkisstj. Auðvitað kæmi það til athugunar og kemur sjálfsagt til álita, að menn, sem af einhverjum sérstökum ástæðum eiga í bili erfitt með að ganga frá sínum bátakaupum, geti útvegað sér einhver önnur lán annars staðar núna eins og endranær. Þess vegna er þetta í sjálfu sér ekki óeðlilegt, en hins vegar tók ég sérstaklega fram, að ríkisstj. hefur ekki ákveðið að fella þessi lán niður í áföngum, heldur hefur hún tekið ákvörðun um að útvega áfram 5% viðbótarlán, án þess að nokkur ákvörðun hafi verið tekin um það á Alþ. Það er í sjálfu sér ekki óeðlilegt, að teknar séu mismunandi ákvarðanir á mismunandi tímum um lán, einmitt viðbótarlán.

Ég vil sérstaklega taka það fram varðandi það, sem hv. 1. þm. Norðurl. v. sagði, að það mundu margir eiga erfitt með skipakaup, sem standa til atvinnubóta, að það getur vel verið rétt, en þorri þessara manna er ekki í skipakaupum af þessum sökum. Það eru fyrirsvarsmenn sveitarfélaganna miklu meira, sem af þeim sökum eru að reyna að afla tækja til þorpanna og útgerðarstaða, þar sem erfiðlega blæs. Þar getur Atvinnujöfnunarsjóður auðvitað komið til aðstoðar, eftir því sem hann hefur bolmagn til, og lánað meira, ef aðstæður eru þannig, eða að slíkum aðilum verði lánað úr öðrum sjóðum, eins og oft hefur verið gert. Atvinnuleysistryggingasjóður hefur lánað töluvert mikið fé til þess að kaupa skip til slíkra staða. Hann gæti auðvitað alveg á sama hátt, ef hann hefur fé til þess, sem líklegt er, að vaxi mjög mikið hjá honum, aðstoðað í slíkum tilfellum, í sérstökum tilfellum. En það er einmitt þessi mikla eftirspurn eftir skipabyggingum núna, af því að útgerðin gengur vel og af því að menn hafa meira fé, sem í útgerðinni eru, enda þótt hv. 4. þm. Austf. teldi það ekki neinu máli skipta í sambandi við skipakaupin, að það blési vel fyrir útgerðinni, bæði veiddist vel og markaðsverðið væri í hæsta máta. Ég skal nú ekki eyða meiri tíma í þetta og sé ekki ástæðu til að taka upp neinar frekari deilur um það.

Mér var það ljóst, að auðvitað mundu þm, segja, að það væri slæmt að gera þetta. Því er m. a. haldið fram, að það sé mjög slæmt að hafa mismunandi lán, mismunandi stofnlán út á báta. Auðvitað urðu lánin mismunandi, þegar viðbótarlánin voru veitt. Þá voru margir búnir að fá lán og byggja sína báta rétt áður, og þeir, sem byggðu rétt á eftir þeim, fengu meiri lán. Þetta misræmi er alltaf fyrir hendi, en það er á báða bóga. Það var þá þannig, að þeim, sem byggðu á eftir, var ívilnað fram yfir hina, ef menn vilja kalla það svo. Nú eru það þeir, sem síðar byggja, sem hafa ekki alveg sömu aðstöðu og hinir, en vegna þessara aðstæðna er líka öðruvísi í þessari atvinnugrein og þjóðfélaginu yfir höfuð til lánsútvegunar en áður.

Ég sagði áðan, að ég vonaðist til þess, að þetta skapaði ekki nein verulega tilfinnanleg vandræði, og ég minnti á það í fyrri ræðu minni, og ég vil gjarnan ljúka máli mínu með því, að það eru einmitt útgerðarmenn sjálfir, sem hafa mjög eindregið látið mig heyra það og létu mig óspart heyra það á sínum tíma, að hér væri gengið allt of langt með 90% lán út á bátana. Eins og ég sagði áðan, er mönnum vissulega ekki allur greiði gerður með því að skapa þeim aðstöðu til þess að hafa svo og svo mikið lánsfé í þeim fyrirtækjum, sem þeir vilja ráðast í. Það er augljóst mál.