16.03.1971
Sameinað þing: 34. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 786 í D-deild Alþingistíðinda. (4607)

359. mál, starfsmannaráðningar á Keflavíkurflugvelli

Fyrirspyrjandi (Karl Guðjónsson):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðh. fyrir svörin. Þau voru skýr og greinileg, og ég hef í sjálfu sér ekki mjög miklu við svör hans að bæta eða út á þau að setja. Þó vil ég vekja athygli á því, að telja má, að málin hafi gengið sinn eðlilega gang eða nokkurn veginn eðlilegan gang varðandi bæði lögregluþjóna og fríhafnarstarfsmenn. En ég er ekki alveg sannfærður um það, að gangurinn hafi verið nákvæmlega eins eðlilegur með tollgæzlumennina. Mér er sem sagt kunnugt um það, að eftir að bæði ég og ýmsir fleiri menn höfðu lengi flutt brtt. við fjárlög, sem miðuðu að því að draga úr kostnaði á Keflavíkurflugvelli, og þær till. jafnan verið felldar, þá tók ríkisstj. sig eitt sinn til og fækkaði um einhverja menn í tollgæzlunni. Nú mun segja svo í hinum sömu lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, að sé starf starfsmanna lagt niður, þá eigi hann um ákveðinn árafjölda rétt á því að fá starfið að nýju, sé það tekið upp, eða jafngilda stöðu í þjónustu ríkisins. Ég hef nokkurn grun um, að á þessu hafi orðið viss misbrestur. En ég fagna því, að þessi mál hafa nú tekið miklu frjálslegri blæ á sig en þau höfðu um eitt skeið, og það virðist vera nokkuð samdóma álit, sem ríkisstj. sem heild og þá væntanlega hæstv. utanrrh. einnig hefur, að ekki sé ástæða til þess að láta þessa undanþáguheimild til handa utanrrn., að þurfa ekki að auglýsa stöður í sinni þjónustu, ná yfir hin hversdagslegustu störf, jafnvel þótt þau tengist utanrrn. á einhvern hátt. Það sannar nýtt frv., sem lagt hefur verið fram hér á Alþ., um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Þar er gert ráð fyrir því, að auglýstar verði allar stöður, einnig í utanríkisþjónustunni, a. m. k. innan þeirrar stofnunar, nema stöður sendiherranna eða ambassadoranna. Tel ég þá, að fyrirheit um lausn á þessu máli, sem hér hefur verið til umr., að svo miklu leyti sem hún er ekki þegar fengin, felist í því frv. til l., sem hæstv. ríkisstj. hefur lagt fram um endurskoðun á eða um nýja skipan mála varðandi réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins.