23.03.1971
Sameinað þing: 36. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 787 í D-deild Alþingistíðinda. (4612)

239. mál, hreinsitæki í Áburðarverksmiðjunni

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Fsp. hljóðar svo:

„Er ráðgert að koma upp hreinsitækjum í Áburðarverksmiðjunni til þess að takmarka mengun?“

Það hefði verið eðlilegra að segja: til þess að útiloka mengun, ef það er á annað borð hægt. En stjórn Áburðarverksmiðjunnar hefur áhuga fyrir því að útiloka mengun við verksmiðjuna, að svo miklu leyti sem það er mögulegt. Og þess má geta, að stjórn Áburðarverksmiðjunnar hefur oft á liðnum árum rætt um mengunarmöguleika þá, sem felast kynnu í útblæstri köfnunarefnisoxíða frá verksmiðjunni. Á árinu 1970 gerði stjórn Áburðarverksmiðjunnar samþykkt um, að fram færi rannsókn á mengun frá verksmiðjunni og tiltækum ráðum til að takmarka eða koma í veg fyrir hana.

Hv. fyrirspyrjandi kallaði það áðan kæruleysi, að verksmiðjan skuli hafa starfað í nærri 20 ár og það skuli ekki hafa verið athugað fyrr en nú á seinustu árum, að um mengunarhættu gæti verið að ræða. Þetta flokkast nú ekki undir kæruleysi. Stjórn Áburðarverksmiðjunnar og aðrir hafa ekki gert sér grein fyrir því, að þarna væri um mengun að ræða, fyrr en nú í seinni tíð, að mengunarmálin eru komin á dagskrá og menn farnir að gera sér nánari grein fyrir þessu en áður. Stjórn verksmiðjunnar hefur í höndum grg. frá verksmiðjustjóra verksmiðjunnar um loftmengun frá Áburðarverksmiðjunni, og í þessari grg. segir svo m. a.:

„Þegar ræða skal og athuga loftmengun frá Áburðarverksmiðjunni, þarf fyrst að gera sér grein fyrir, um hve mikla mengun frá verksmiðjunni er að ræða. Þegar er vitað, að sum efni, sem frá verksmiðjunni koma, eru skaðlaus, svo sem köfnunarefni og súrefni, og eru það raunar þau efni, sem í mestu magni er sleppt út í andrúmsloftið frá verksmiðjunni. Um önnur efni er vitað, að þau geta verið hættuleg og/eða skaðleg, séu þau til staðar í ákveðnu magni, og er þar fyrst og fremst um samband köfnunarefnis og súrefnis að ræða, svonefnt köfnunarefnisoxíð.

Nú er ekki vitað, á hvern hátt þessi efni dreifast um nágrenni verksmiðjunnar, þó að vitað sé um magn þeirra og útblásturshraða. Hins vegar munu eiturefnanefnd ríkisins og Rannsóknastofnun iðnaðarins nú í þann veginn að hefja rannsóknir á dreifingu köfnunarefnisoxíða frá Áburðarverksmiðjunni. Munu þær rannsóknir eiga að leiða í ljós samhengi á milli magns köfnunarefnisoxíða í andrúmsloftinu og fjarlægðar frá útblástursstað við ýmis veðurskilyrði. Ættu niðurstöður þeirrar rannsóknar að geta orðið gagnlegar við ákvörðun um þær aðgerðir, sem nauðsynlegar eru álitnar, þegar kemur til ákvörðunar um, að hve miklu leyti þurfi að draga úr útblæstri köfnunarefnisoxíða frá verksmiðjunni eða hvort eyða þurfi þeim algerlega.

Til þess að draga úr eða eyða algerlega köfnunarefnisoxíðum frá sýruverksmiðjum er um ýmsar leiðir að ræða. Ísog og/eða þvottur með ýmiss konar upplausnum er tiltækur til að minnka þessi efni í útblástursreyk. Þurfi að eyða oxíðunum algerlega, er það gert með því að breyta þeim, t.d. vatnsefni, ammoníaki eða jarðgasi, í köfnunarefni og vatnsgufu.

Hvaða leið væri hagkvæmust hérlendis, ef á þarf að halda, er ekki hægt að fullyrða neitt um á þessari stundu. Ákvörðun um slíkt er háð mörgum þáttum, sem enn eru óþekktir, enda sérfræðileg og skipulögð rannsókn málsins mjög skammt á veg komin enn sem komið er, en unnið er að henni nú með þeim hraða, sem mögulegt er.

Í framhaldi af ofanrituðu skal bent á, að stækkun sú, sem nú stendur yfir á Áburðarverksmiðjunni, mun ekki valda neinni aukningu á útblæstri köfnunarefnisoxíða frá verksmiðjunni umfram það, sem nú er. Þá hefur stjórn Áburðarverksmiðjunnar þegar farið þess á leit við Rannsóknastofnun iðnaðarins, að rannsökuð verði vandlega dreifing köfnunarefnisoxíða frá verksmiðjunni og magn þeirra á ýmsum stöðum. Er þess að vænta, að sú rannsókn geti hafizt mjög fljótt. Þegar niðurstöður liggja fyrir, mun stjórnin að sjálfsögðu gera þær ráðstafanir, 'sem nauðsynlegar eru til þess, að verksmiðjan valdi ekki skaða á umhverfi sínu, og þá með því að setja upp hreinsitæki til þess að útiloka eitraðan útblástur frá verksmiðjunni.“

Ég hef rætt um þetta við framkvæmdastjóra verksmiðjunnar, og hefur hann tjáð mér, að ákveðið væri að gera allar tiltækar ráðstafanir til þess að þetta mætti gerast svo fljótt sem unnt er, en af eðlilegum ástæðum verður rannsókn að fara fram á því, hvaða aðferð er tiltækust, en þess er vænzt, að það taki ekki marga mánuði að finna réttu leiðina í þessu efni.