23.03.1971
Sameinað þing: 36. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 789 í D-deild Alþingistíðinda. (4614)

239. mál, hreinsitæki í Áburðarverksmiðjunni

Steingrímur Hermannsson:

Herra forseti. Það er ánægjulegt, að mengunarráðstefnan ætlar að verða frjó til fsp. og umr. Það sýnir, að hún hefur verið þarft þing og vakið athygli á þessum mikilvægu málum.

Ég er dálítið kunnugur Áburðarverksmiðjunni. Því langar mig til þess að koma með nokkrar viðbótarupplýsingar.

Það er rétt, sem hv. fyrirspyrjandi sagði, að það eru köfnunarefnissýrlingar eða oxíð, sem einkum eru í þessu sambandi hættuleg. Þau ganga gjarnan í samband við vatn og mynda sýru, sem getur valdið tjóni á vefjum skepna og manna.

Í Bandaríkjunum er verið að setja strangar reglur um slíka mengun. Er mér tjáð, að þar muni annaðhvort vera búið að ákveða eða verða ákveðið, að ekki verði leyfðir nema 500 hlutar í millj., sem samsvarar 0.05% af þessum efnum í afgangsefnum við slíka framleiðslu.

Við eðlilegan rekstur sýruverksmiðjunnar í Áburðarverksmiðjunni eru efni þessi um það bil 0.1% eða um það bil tvöfalt meiri en mun verða leyft í Bandaríkjunum. Hins vegar er það alveg rétt, sem hæstv. ráðh. sagði áðan, að vitanlega er þessi hundraðstala ekki ein næg til skýringar, því magnið fer vitanlega eftir stærð verksmiðjanna, og umrædd verksmiðja er mjög lítil.

En svo er það annað mál, að þessi sýruverksmiðja hjá Áburðarverksmiðjunni er rekin í dag með mjög miklu yfirálagi, því hún fullnægir ekki framleiðsluþörf verksmiðjunnar. Þá aukast úrgangsefnin mjög mikið, eins og sjá má af því, að þá verður liturinn töluvert dekkri. Ég hygg, að oftast séu úrgangsefnin þannig 0.2–0,3% eða fjórum til sex sinnum meiri en leyfilegt er eða á að leyfa í Bandaríkjunum. Þá er mjög líklegt, að komið sé að hættumörkum. Því er ljóst, að gera verður einhverjar ráðstafanir.

Mér er einnig kunnugt um það, að þetta er nú í athugun, en málið er hins vegar nýtt og töluvert flókið og ekki eins einfalt að leysa og e. t. v. mátti ráða af orðum hv. fyrirspyrjanda.

Það er rétt, að það er verið að stækka verksmiðjuna, en sýruverksmiðjan verður ekki stækkuð og henni verður ekki breytt, og þá mun sannast, að það er oft erfiðara að lagfæra en að koma í veg fyrir í upphafi. Þegar þessi verksmiðja var byggð, var hún eins fullkomin að þessu leyti og tíðkaðist, en í dag munu engar verksmiðjur vera byggðar án þess að hafa langtum betri hreinsunartæki. Hreinsunin getur farið fram á marga vegu, en einna algengast mun þó vera, að þessi köfnunarefnissýrlingur er brotinn upp í frumefni sín, köfnunarefni og súrefni, en þannig eru þau að sjálfsögðu skaðlaus. Þetta er gert með því að hita útblásturinn upp í 100–200 gráður og leiða síðan yfir ákveðinn hvata. Í verksmiðju þessari er útblásturinn kaldur, og töluverðan hita þarf til að hita upp allt það magn, sem þarna kemur út, því að hita verður að sjálfsögðu miklu meira en aðeins köfnunarefnissýrlinginn. Í nýjum verksmiðjum mun það gert með því að nota afgangshita, sem er mikill í slíkum verksmiðjum, og veldur þannig tiltölulega litlum aukakostnaði. Þetta er því vandamál, sem mér er kunnugt um, að verksmiðjustjóri og sérfræðingar verksmiðjunnar eru að kynna sér og munu áreiðanlega koma með tillögur um. En svo er það annað mál, að þessa sýruverksmiðju þarf að stækka í framhaldi af annarri stækkun Áburðarverksmiðjunnar, og mér er raunar ekki grunlaust um, að það geti orðið ódýrara að leggja þessa verksmiðju beinlínis til hliðar, ef ég má taka svo til orða, og byggja algjörlega nýja með fullkomnari tækjum og betri nýtingu, ekki aðeins að þessu leyti, heldur að ýmsu öðru.

En ég vil taka undir það, sem einnig kom fram á fyrrnefndri og oftnefndri mengunarráðstefnu, að enginn á að hafa heimild til þess að menga. Það er mín persónulega skoðun, að við Íslendingar eigum að setja hin ströngustu ákvæði í okkar heilbrigðislög um hreinsunartæki, bæði í verksmiðjur eins og Áburðarverksmiðjuna og álbræðslu eða olíuhreinsunarstöð eða það annað, sem hér kann að rísa. Ég hygg, að við munum aldrei sjá eftir því. Þessar kröfur verða stöðugt strangari, og það er ekki ólíklegt, að umhverfi okkar sé það verðmætasta, sem við eigum.