23.03.1971
Sameinað þing: 36. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 791 í D-deild Alþingistíðinda. (4618)

360. mál, friðlýsing Eldborgar

Fyrirspyrjandi (Eysteinn Jónsson):

Herra forseti. Ég held, að það skýri þessa fsp. bezt, að ég lesi hérna efnisútdrátt úr bréfi, sem ég ritaði Náttúruverndarráði fyrir tæplega þremur árum eða 23. apríl 1968. Það er svo hljóðandi, með leyfi hæstv. forseta:

„Vestur af Bláfjöllum, nálega syðst og austur af Stóra-Kóngsfelli er eldborg mjög fágæt að fegurð, og m. a. eru þar afar skarpar gjallbríkur í börmunum, óskemmdar, eins og annað þarna, því að enn þá er þetta alveg úr alfaraleið, þó að ruðningur sé að vísu fyrir jeppa á vegum Ferðafélagsins suður með Bláfjöllum.

Nú vonum við, að brátt verði rudd þarna betri leið, vegna þess m. a., að syðst í Bláfjöllunum virðist okkur bezta skíðaland í grennd við Reykjavík. Yrði þá farið enn nær Eldborginni en nú, og er það mikill kostur, því að margir mundu þá vilja skoða hana.

Út af þessu vil ég benda á, hvort ekki væri nauðsynlegt að gera strax ráðstafanir til að friða þessa eldborg, svo að ekki fari um hana eins og eldborgina norðan við Höskuldarvelli, sem ekki tókst að bjarga, en var tekin í ofaníburð og byggingarefni.“

Til skýringar má geta þess, að eldborg er eldstöð, sem er með heila barma, þar sem hraunstraumurinn hefur farið út um vegginn. Hér er um svo fágæta hluti að ræða, að Náttúruverndarráð hefur sagt og stuðzt þar við sína sérfræðinga, að það sé ekki vitað um fleiri en þrjár slíkar eldborgir á Íslandi, og hvergi annars staðar í heiminum eru slíkar eldstöðvar. Hefur þessi friðun ekki enn verið auglýst, mér til undrunar, satt að segja, og veit ég þó, að Náttúruverndarráð hefur samþykkt, að þessi friðun skyldi gerð. Og nú er spurningin: Hvers vegna er ekki búið að friða þessa eldborg? Ég vil, áður en hæstv. ráðh. svarar þessu, enn á ný rifja það upp, hversu hér er um fágætan hlut að ræða, og líka minna á, í gamni kannske og alvöru þó, að eldborg af þessu tagi verður ekki keypt uppstoppuð frá London, þó að hægt reyndist að hafa þá aðferð við geirfuglinn.