23.03.1971
Sameinað þing: 36. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 795 í D-deild Alþingistíðinda. (4623)

360. mál, friðlýsing Eldborgar

Fyrirspyrjandi (Eysteinn Jónsson):

Hæstv. ráðh. lét að því liggja, að ég hefði ætlazt til of mikils af honum, að hann svaraði skörulega um friðlýsinguna. Ég yrði að skilja það, að hann hefði orðið að tala við fjmrh. o. s. frv. Þetta er mér ákaflega vel ljóst. Ráðh. bar auðvitað skylda til þess að ræða málið við fjmrh. og ríkisstj. Það er það, sem hann átti að gera. Ef ríkisstj. hefði verið sömu skoðunar og hann, að það væri of mikil áhætta fyrir landið að friða þennan gjallhól, þá hefðu þeir að sjálfsögðu átt að leita til Alþ., þegar um svo merkilegt náttúrufyrirbrigði væri að ræða, og fá heimildir til þess að leggja í þetta.

Annars tek ég undir það, sem kom hér fram hjá 5. þm. Reykv., Birgi Kjaran, formanni Náttúruverndarráðs, að það hvarflar ekki að nokkrum kunnugum manni, að hér geti verið um stórfelldar fjármálakröfur að ræða.

Ég tel, að tilgangi mínum með fsp. sé náð, því að ég ætlaði að leiða athygli manna á hv. Alþ. að því, hvílíkt ofboðslegt ástand ríkir í þessum friðunarmálum. Það var tilgangur minn með því að draga fram þetta dæmi. Þetta er ekkert einsdæmi. Það mætti ræða hér hliðstætt um ýmis önnur mál, eins og raunar kom hér fram áðan.

Maður er orðinn leiður á því, að menn skuli endurtaka það hver upp í annan, að þeir hafi þennan óskaplega áhuga á náttúruverndarmálum og öllu slíku, þegar allt stendur svo gjörsamlega blýfast í toppinn, eins og hér hefur greinilega komið fram.