23.03.1971
Sameinað þing: 36. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 797 í D-deild Alþingistíðinda. (4629)

361. mál, læknadeild háskólans

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Hér hefur hv. t. þm. Austf. hreyft mjög mikilvægu máli. Hér er um að ræða mál, sem ég hef orðið var við á undanförnum árum og raunar ekki aðeins ég, heldur forvígismenn Háskólans og forvígismenn heilbrigðismála, að mjög alvarlegur þekkingarskortur ríkir um, ekki aðeins hjá öllum almenningi, heldur einnig hjá hv. alþm. Ríkjandi eru um þetta skoðanir, sem eiga ekki við minnstu rök að styðjast, og mönnum eru ekki ljósar mikilvægar staðreyndir í málinu. Og þetta kom greinilega fram í framsöguræðu hv. þm. fyrir fsp., þegar hann sagði m. a., að læknaskorturinn í dreifbýlinu, sem sannarlega er stóralvarlegt vandamál, ætti rót sína að rekja til þess, að það vantaði lækna, að hópurinn sem brautskráðist úr læknadeildinni væri of lítill, að það væri um að ræða óeðlilega þröskuldi á vegi læknanema í Háskólanum og þar fram eftir götunum. Þessar skoðanir, sem heyrast engan veginn í fyrsta skipti úr munni hv. þm., eru mjög algengar, og þess vegna er ástæða til þess að sinna þessari fsp. sérstaklega vandlega, og þess vegna hef ég gert ráðstafanir til þess, að ég geti í svari við þessari fsp. gefið hinu háa Alþingi ítarlega skýrslu um þetta mjög svo mikla og brýna vandamál. Það veldur því, að mál mitt verður eilítið lengra en ég venjulega kýs nú að hafa svör við fsp., en ég vona, að hæstv. forseti virði mér það til vorkunnar, vegna þess að ég tel, að hér sé um að ræða brýnt vandamál, og er feginn því, að athygli skuli hafa verið vakin á því, og tel alþm. og þjóðina alla eiga rétt á því að vita sannleikann um þetta mikla vandamál.

Í reglugerð Háskóla Íslands eru nú svofelld ákvæði um inntöku stúdenta til náms í læknadeild:

„Aðgang að fyrsta árs námi í læknadeild hafa þeir, sem lokið hafa stúdentsprófi við íslenzkan menntaskóla eða öðru tilsvarandi prófi. Sé fjöldi stúdenta, sem stenzt fyrsta árs próf, meiri en svo, að veita megi þeim öllum viðunandi framhaldskennslu við aðstæður á hverjum tíma, getur deildin takmarkað fjölda þeirra, sem halda áfram námi. Jafnan skal þó a. m. k. 24 stúdentum veittur kostur á að halda áfram námi. Skal ákvörðunin hverju sinni tilkynnt fyrir upphaf hvers misseris, er prófið er haldið. Réttur stúdenta til framhaldsnáms skal miðaður við árangur fyrsta árs prófs eftir nánari ákvörðun deildarinnar. Þeir stúdentar, sem standast fyrsta árs próf, en eiga ekki kost á að halda áfram námi svo og þeir, sem standast ekki próf, mega endurtaka prófin næsta ár og keppa þá við nýstúdenta á jafnréttisgrundvelli.“

Hér lýkur tilvitnun í reglugerð um læknadeild Háskólans. Framangreind ákvæði voru sett í júní 1970. Svo sem þau bera með sér, er aðgangur að námi í læknadeild Háskólans ekki takmarkaður, heldur hafa rétt til inngöngu allir þeir, sem lokið hafa stúdentsprófi við íslenzkan menntaskóla eða öðru tilsvarandi prófi. Læknadeild er hins vegar heimilt að takmarka fjölda þeirra, sem veittur er kostur á að halda áfram námi í deildinni að loknu fyrsta árs prófi, við 24. Þessari heimild hefði í fyrsta sinn mátt beita á vori komanda, en læknadeild hefur fyrir nokkru ákveðið, að henni skuli ekki beitt að þessu sinni, og munu því allir stúdentar í læknadeild, sem standast fyrsta árs próf í vor, eiga kost á að halda áfram námi í deildinni. Áður en núgildandi reglugerðarákvæði komu til, var um stutt skeið heimild í reglugerðinni til þess að læknadeild gæti sett lágmarkseinkunnir á stúdentsprófi sem skilyrði inntöku. En til þess kom aldrei, að þeirri heimild yrði beitt.

Í námi í læknadeild eru nú í vetur 278 stúdentar. Þar af innrituðust í deildina s. l. haust 73 stúdentar. Fjöldi kandídata, sem brautskráðst hafa úr læknadeild Háskóla Íslands undanfarin ár, er sem hér segir: 1960 14, 1961 24, 1962 26, 1963 18, 1964 19, 1965 16, 1966 12, 1967 16, 1968 19, 1969 21, 1970 16. Í janúar 1971 brautskráðust 8 kandídatar, og er gert ráð fyrir, að 18 ljúki prófi í vor, þannig að líklegt er, að tala brautskráðra kandídata á þessu ári verði samtals 26.

Samkv. upplýsingum, sem aflað hefur verið frá Danmörku, Noregi, Svíþjóð og Finnlandi er fjöldi þeirra, sem lokið hafa læknisprófi frá háskólum í þessum löndum frá 1965, sem hér segir:

Danmörk: 1964–1965 246, 1965–1966 270, 1966–1967 298, 1967–1968 320, 1968–1969 320, 1969–1970 485.

Noregur: 1965 132, 1966 133, 1967 141, 1968 140, 1969 174, 1970 180. Þess skal getið, að allmargir norskir stúdentar fara utan til læknanáms og ljúka þar prófi, en til þess að öðlast lækningaleyfi í Noregi verða þeir að þreyta sérstakt viðbótarpróf. Þeir, sem slíku prófi hafa lokið, eru ekki taldir með í tölunum hér að framan, heldur þeir, sem háskólarnir í Noregi hafa brautskráð.

Svíþjóð: 1964–1965 339, 1965–1966 314, 1966–1967 390, 1967–1968 435, 1968–1969 634 og 1969–1970 412.

Finnland: 1965 216, 1966 266, 1967 198, 1968 251, 1969 319 og 1970 400. Auk þess hafa nokkrir finnskir stúdentar lokið læknisprófi erlendis.

Ef reiknaður er meðalfjöldi þeirra, sem lokið hafa læknisprófi frá háskólum í þessum fjórum löndum á ári hverju þau ár, sem framangreindar tölur taka til, verður hann sem hér segir: Danmörk 323 á ári, Noregur 150, Svíþjóð 421 og Finnland 275. Meðalfjöldi brautskráðra læknakandídata á ári frá Háskóla Íslands sömu ár er 16.7, tæplega 17. Er það hlutfallslega talsvert hærri tala en í hinum löndunum fjórum, ef miðað er við fólksfjölda. Séu íbúatölur landanna 1969 lagðar til grundvallar, mundi brautskráningartala hér frá Háskóla Íslands, talan 16.7 svara til 400.8 í Danmörku, en talan er 323. Íslenzka talan svarar til 317.3 í Noregi, en hún er 150. Íslenzka talan mundi svara til 651.3 í Svíþjóð, en hún er 420.7, og íslenzka talan mundi svara til tölunnar 387 í Finnlandi, en hún er 275.

Af þessum tölum er augljóst, að Háskóli Íslands brautskráir hlutfallslega miklu fleiri læknakandídata á ári miðað við fólksfjölda en háskólarnir í hinum fjórum Norðurlöndunum.

Í áætlunum læknadeildar í sambandi við undirbúning reglugerðarákvæða um nýja námsskipan í deildinni, sem tók gildi haustið 1970, var læknaþörf á Íslandi metin þannig, að áætlað var, að brautskrá þyrfti 20–25 lækna á ári hverju. En eins og áður var getið, munu væntanlega brautskrást 26 læknakandídatar á þessu ári. Menntmrn. leitaði umsagnar heilbr.- og félmrn. um þessa áætlun. Það rn. fól dr. Kjartani Jóhannssyni að gera athugun á tæknaþörf hérlendis á árabilinu 1974–1988.

Dr. Kjartan reisti álitsgerð sína á spá um mannfjölda 1978 og 1988 og miðaði við þrjá mismunandi kosti um fjölda íbúa á hvern lækni, a) einn lækni á 500 íbúa, b) einn lækni á 600 íbúa og c) einn lækni á 700 íbúa. Samkv. mannfjöldaspánni þyrfti fjöldi tækna árið 1978 að vera 460, ef miðað væri við einn lækni á hverja 500 íbúa, 390, ef miðað væri við einn lækni á hverja 600 íbúa, en 330, ef miðað væri við einn lækni á 700 íbúa. Árið 1988 væru hliðstæðar tölur 530, 440 og 380. Til samanburðar er bent á, að árið 1969 töldust hér á landi 729 íbúar á hvern lækni, sem hér var búsettur og hafði lækningaleyfi. Séu kandídatar taldir til lækna, svo sem tíðkast mun víða erlendis, fæst hlutfallið einn læknir á hverja 577 íbúa. Í Svíþjóð er hlutfallið 910 íbúar á lækni og í Sviss 710 íbúar á lækni. Í skýrslu dr. Kjartans Jóhannssonar er tekið fram, að samkv. reynslu undanfarinna ára séu um 25% læknislærðra manna við nám og störf erlendis. Sé gert ráð fyrir, að þetta hlutfall haldist óbreytt, mundi fjöldi læknislærðra manna árið 1978 þurfa að vera 610 miðað við einn lækni á 500 íbúa, 520 miðað við einn lækni á 600 íbúa og 440 miðað við einn lækni á 700 íbúa. Hliðstæðar tölur fyrir árið 1988 væru 710, 590 og 510.

Niðurstöður dr. Kjartans eru þessar. Nú les ég orðrétt:

„Ef einn læknir er á hverja 700 íbúa, mundi um 50 læknum ofaukið árið 1978, og útskrifa þyrfti einungis 10 á ári áratuginn þar á eftir. Þetta hlutfall íbúa á lækni er þó mun hærra en nú er hér á landi, og er sú þróun ólíkleg, enda öfug við þróun undanfarinna ára. Sé litið á hina kostina, er niðurstaða læknisfræðinnar þessi: Árin 1974–1978 þarf að útskrifa samtals 30–120 lækna, eftir því hvort læknum á íbúa fjölgar, ef hlutfallið helzt nokkurn veginn óbreytt frá því, sem nú er. Í mesta lagi þarf að útskrifa 24 lækna á ári þessi ár, og er þá gert ráð fyrir, að einn læknir sé á hverja 500 íbúa. Er það um 13% aukning læknafjölda á íbúa frá því, sem nú er. Áratuginn 1979–1988 þarf samkv. þessu að útskrifa 18–30 lækna á ári, eftir því hvernig læknafjölda á íbúa verður háttað. Það er gert ráð fyrir, að fjórðungur lækna sé erlendis á hverjum tíma, og einn læknir á hverja 500 íbúa er mun meiri þéttleiki en hjá nágrannaþjóðum okkar. Verður að telja, að hér sé um algjört hámark á útskrifunarþörf að ræða. Væri t. d. gert ráð fyrir, að 20% en ekki 25% læknislærðra á hverjum tíma væru erlendis og einn læknir væri á hverja 300 íbúa, mundi þurfa að útskrifa 85 lækna á árunum 1974–1978, eða 17 á ári, og 25 á ári áratuginn 1979 til 1988. Áætlun læknadeildar um 20–25 útskrifaða lækna á ári er því innan þeirra marka, sem vænta má, að eðlileg þróun geti borið í skauti sér. Efra mark hennar mun þó frekar í hærra lagi en hitt.“

Hér lýkur tilvitnun í álitsgerð dr. Kjartans Jóhannssonar. Heilbr.- og trmrn. hefur í bréfi til menntmrn. tjáð sig samþykkt niðurstöðum dr. Kjartans.

Af því, sem hér hefur verið sagt, verða tvö meginatriði ljós. Í fyrsta lagi, að fjöldi þeirra, sem fengið hafa aðgang að námi í læknadeild Háskóla Íslands, hefur ekki verið takmarkaður, og í öðru lagi, að tala brautskráðra lækna frá Háskóla Íslands undanfarin ár er í góðu samræmi við eðlilega læknaþörf og hlutfallslega sízt lægri, heldur þvert á móti mun hærri en með grannþjóðum okkar á Norðurlöndum. Hið alvarlega vandamál, sem læknaskortur dreifbýlisins er, á því ekki rót sína að rekja til læknafæðar, enda hafa aðrar nágrannaþjóðir sömu sögu að segja af læknaskorti í dreifbýli. En um læknaskortinn í dreifbýlinu og orsakir hans skal ég ekki ræða hér, því að um það efni fjallar fsp. ekki, heldur eingöngu um það, hver sé tala brautskráðra lækna.

Ég hef mínar skoðanir á því, hver sé skýringin á læknaskortinum í dreifbýlinu, og geri mér fullkomlega ljósa nauðsyn á því að ráða bót á honum með sem rækilegustum og sem myndarlegustum hætti, en þessi skýrsla ætti að taka af öll tvímæli um það, að engin trygging er fyrir því, að fjöldi brautskráðra lækna mundi leysa þann vanda, sem skorturinn í dreifbýlinu er, enda sýna þessar tölur ótvírætt, að það er ekki hægt að rekja læknaskortinn í dreifbýlinu til þess, að Háskóli Íslands hafi ekki staðið í sínu stykki og ekki brautskráð nógu marga lækna. Það eru aðrar ráðstafanir, sem þarf að grípa til í þessum efnum, og það leiði ég hjá mér í þessum fsp.-tíma.

Á hinn bóginn skal tekið fram, að húsnæðisþrengsli valda nú sem stendur nokkrum erfiðleikum á framkvæmd læknakennslunnar, en með bættri skipulagningu á sambandi læknadeildar við Landsspítalann og önnur sjúkrahús í Reykjavík má gera sér vonir um betri nýtingu á þeirri aðstöðu, sem fyrir hendi er. Jafnframt er unnið kappsamlega að undirbúningi fyrirhugaðra byggingarframkvæmda, og er nú lokið frumhönnun framtíðarhúsnæðis læknadeildar. Hefur hún verið framkvæmd af húsameistara ríkisins og brezkum sérfræðingi. Frumniðurstöður hins síðarnefnda eru nú að berast til landsins, en endanlegar niðurstöður munu liggja fyrir um mitt sumar. Byggingar þær, sem áformaðar eru, er ætlunin að reisa sunnan Hringbrautar á hinni nýfengnu lóð Landsspítalans. Í áætluninni er á þessu stigi gert ráð fyrir, að í hverjum árgangi verði 30–40 stúdentar, þegar fram kemur í námið. Í framkvæmdaáætlun Háskólans fyrir árið 1971, yfirstandandi ár, sem háskólaráð hefur fyrir nokkru samþ. fyrir sitt leyti, er gert ráð fyrir, að 2 millj. kr. skuli varið á þessu ári til að greiða kostnaðarhluta Háskólans í undirbúningi þessara framkvæmda. En gert er ráð fyrir byggingu hins nýja læknadeildarhúss í framkvæmdaáætlun Háskólans fyrir næstu ár.