23.03.1971
Sameinað þing: 36. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 805 í D-deild Alþingistíðinda. (4633)

361. mál, læknadeild háskólans

Þórarinn Þórarinsson:

Herra forseti. Ég ætla ekki að ræða sérstaklega um þá fsp., sem hér liggur fyrir, en vænti þess, að forseti gefi mér leyfi til að beina fsp. til hæstv. menntmrh. um efni, sem er þessu máli skylt. Það er kannske ofmælt hjá mér að segja, að ég beri þessa fsp. fram að áeggjan heilbrmrh., en ég geri það a. m. k. með fullri vitund hans og vilja að geta hennar hér í sambandi við þetta mál.

Fyrr í vetur hefur nokkrum sinnum verið rætt um það, að mikill skortur væri á hjúkrunarfólki og hjúkrunarkonum á spítulunum og þess vegna væri svo komið t. d. hér við Landsspítalann, að það væri ekki hægt að fullnýta margar deildir þar, og þó væri hjúkrunarkvennaskorturinn enn þá tilfinnanlegri úti um land. Í þessum umr., sem hér hafa farið fram, hefur hæstv. heilbrmrh. upplýst, að það væri nóg pláss, nóg húsrými við Hjúkrunarkvennaskólann, fjárveitingin til hans væri nægileg og það væri ekki heldur skortur á hæfum kennurum til að kenna þar. En samt er ástandið þannig við skólann, að hann útskrifar ekki, eða það er ekki líklegt, að hann útskrifi á næstunni nema um 60 nemendur, en hefur þó pláss fyrir 90 nemendur. Og það er að allra dómi meginorsökin til hjúkrunarkvennaskortsins, að Hjúkrunarkvennaskólinn er ekki fullnýttur. Nú mun þetta vera þannig, en kannske hafa ekki allir þm. gert sér það ljóst, að Hjúkrunarkvennaskólinn heyrir ekki undir heilbrmrh., heldur undir menntmrh. Og í framhaldi af því vildi ég beina þeirri fsp. til hæstv. menntmrh., hvaða ráðstafanir hann hafi undirbúið og ætti að framkvæma til þess að tryggja það, að Hjúkrunarkvennaskólinn verði fullnýttur.