23.03.1971
Sameinað þing: 36. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 806 í D-deild Alþingistíðinda. (4635)

361. mál, læknadeild háskólans

Þórarinn Þórarinsson:

Herra forseti. Ég þakka hæstv. menntmrh. fyrir svar hans. Ég get vel skilið það, að hann gat ekki gefið öllu ítarlegra svar að þessu sinni. Í raun og veru fannst mér hann nú gefa sama svarið og hæstv. heilbrmrh. var búinn að gefa hér áður og fólst í þeim orðum hans, að vandinn í þessu máli væri að finna vandann. Mér sýndist það, að hæstv. menntmrh. væri heldur ekki búinn að finna vandann fullkomlega fremur en hæstv. heilbrmrh. En frá leikmannssjónarmiði og samkv. þeim upplýsingum, sem hæstv. ráðh. hafa hér flutt og sérstaklega hæstv. heilbrmrh., þá finnst mér, að vandinn liggi nokkurn veginn í augum uppi og það ætti að vera tiltölulega auðvelt að fást við hann. Það er upplýst, að það er miklu meira en nóg húsnæði við Hjúkrunarkvennaskólann. Það er upplýst, að það er nóg fjárveiting til Hjúkrunarkvennaskólans til þess, að hann sé fullnýttur. Það er upplýst, að það er nóg af hæfum kennurum til þess að kenna við skólann. Og þegar menn eru nú búnir að fá allar þessar upplýsingar, þá held ég, að það hljóti að vera tiltölulega auðvelt að leysa þetta mál. Að lokum vildi ég svo leggja áherzlu á, að það er mjög mikilvægt, að þetta mál sé leyst sem fyrst, en ekki dregið, vegna þess að þetta er ein meginorsökin í hinum mikla hjúkrunarkvennaskorti, sem ekki aðeins veldur því, að ýmsar spítaladeildir hér í Reykjavík eru vannýttar, heldur líka því, sem er ekki síður alvarlegt, að það er mjög erfitt að reka marga spítala úti um land, vegna þess að þar vantar hjúkrunarfólk, jafnvel enn tilfinnanlegar en lækna.