18.12.1970
Neðri deild: 36. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 657 í B-deild Alþingistíðinda. (464)

161. mál, tollskrá o.fl.

Þórarinn Þórarinsson:

Herra forseti. Eins og hv. þm. er kunnugt, er þetta frv. flutt af ríkisstj. eða af fjmrh., og er tilefnið það, að í ljós hefur komið, að sú tollskrá, sem sett var á s. l. ári á síðasta þingi, fullnægir ekki að öllu leyti þeim skyldum, sem við tókum á okkur samkv. EFTA-samningi, þannig að nauðsynlegt hefur reynzt að lækka tolla á nokkrum vörum umfram það, sem þá var gert ráð fyrir. Þær breytingar, sem voru í frv. fjmrh., munu aðallega hafa fjallað um þessar leiðréttingar á tollskránni í samræmi við EFTA-samninginn, ef svo mætti segja.

Við meðferð málsins í Nd. hafa hins vegar verið gerðar nokkrar eða allmargar breytingar til viðbótar, og yfirleitt má telja, að þær séu til bóta og stefni sérstaklega að því að lækka tolla á umsömdum tækjum, sem iðnaðurinn notar til rannsókna. Mér finnst rétt að láta það koma fram, að það var hv. form. iðnn. í Ed., Sveinn Guðmundsson, sem átti mestan þátt í því, að þessar breytingar voru gerðar, sem eru yfirleitt allar til verulegra bóta, frá því sem áður var. Eins og þm. vafalaust muna, þá var það aðalbreytingin, sem gerð var á tollskránni í fyrra, að lækkaður var tollur á iðnaðarvörum frá EFTA-löndunum um 30%, en jafnframt var tollur á hráefnum til iðnaðar lækkaður um 50% og tollur af vélum til iðnaðar lækkaður úr 15% í 7%. Enn fremur var gerð sú lækkun á tollum á vélum til landbúnaðarvara, að tollur á þeim var lækkaður í 7%.

Við meðferð málsins þá var það till. okkar framsóknarmanna, að tollar á vélum til atvinnuveganna, þ. e. til iðnaðar, sjávarútvegs og landbúnaðar, yrðu alveg felldir niður. Einnig yrðu felldir niður tollar af hráefni til iðnaðarins, sem enn eru mjög verulegir, en þar sem erfitt var að koma þeim breytingum við á seinasta þingi, vegna þess að það þarf mikinn undirbúning, þá lögðum við til, að það bráðabirgðaákvæði yrði látið fylgja tollskránni í fyrra, að tollskrárnefnd ríkisins tæki málið til endurskoðunar með það fyrir augum, að felldir yrðu niður tollar á hráefnum til iðnaðar og breytingar á tollskránni samkv. því yrðu lagðar fyrir næsta þing. Þessar till. fengust ekki samþykktar þá, en okkur hefur eigi að síður þótt rétt að endurnýja þessar till. í því formi, að það ákvæði yrði látið fylgja þessum lögum, að tollskrárnefnd tæki tollskrána til nýrrar athugunar eða endurskoðunar í samráði við samtök sjávarútvegs, landbúnaðar og iðnaðar með það fyrir augum að endurskoða öll atriði tollskrárinnar, sem snerta vélar og efni til þessara atvinnuvega og í þeim tilgangi, að tollar á þessum vörum verði alveg felldir niður og till. um þetta efni verði svo lagðar fyrir næsta þing. Ég get að mestu leyti vísað til þeirra röksemda, sem við höfðum fyrir þessum till. okkar í fyrra, en þessar röksemdir eru m. a. þær, að það væri óhjákvæmilegt innan tiltölulega fárra ára að fella alla þessa tolla niður vegna EFTA-samningsins, því að að sjálfsögðu er það óeðlilegt, eftir að búið er að fella niður alla verndartolla, að áfram séu tollar á vélum til iðnaðarins eða hráefnum til iðnaðarins.

Við lítum svo á, að fyrst þessi tollabreyting er fram undan á næstu árum, verði óhjákvæmilegt, að sjálfsagt sé að gera hana strax og skapa iðnaðinum þannig betri aðstöðu til að búa sig tækjum og búa sig á annan hátt undir það að mæta þeirri auknu samkeppni, sem af því hlýzt, ef verndartollarnir falla alveg niður. Þess vegna sé betra að láta þessa tollalækkun koma til framkvæmda nokkrum árum fyrr en seinna, þar sem hún er, hvort eð er, alveg óhjákvæmileg innan ekki mjög langs tíma. Það má líka minna á það, að af hálfu forráðamanna iðnaðarins hefur það hvað eftir annað komið fram, að hann telur það eðlilega afleiðingu af EFTA-aðild, að tollar af vélum til hans og hráefni til hans verði felldir niður nú þegar. Þar sem það er hins vegar allvandasamt mál og allflókið að gera breytingar á tollskránni, þannig að þessi stefna sé fullkomlega tekin til greina, og tíminn er naumur nú til afgreiðslu á tollskránni, þá höfum við ekki talið okkur fært að leggja fram beinar till. um það, heldur lagt til, að sú leið verði valin, að sett verði í lögin eða þetta frv. ákvæði til bráðabirgða á þann veg, sem ég áðan lýsti, þannig að málið verði undirbúið af tollskrárnefnd ríkisins fyrir næsta þing og að þá tekið til afgreiðslu.

Ég sé ekki ástæðu til þess að gera nánari grein fyrir þessari till. að þessu sinni. Enda held ég, að efni hennar sé svo ljóst, að þess sé ekki þörf, en ég vænti þess, að hv. stjórnarsinnar telji eðlilegt og sjálfsagt að samþykkja þessa till. Því miður gafst ekki tækifæri til þess að leggja hana fyrir iðnn. vegna þess, hve mikill hraði var á störfum hennar, en ég vænti eigi að síður, að hún hljóti stuðning annarra iðnaðarnefndarmanna en okkar tveggja, sem stöndum að till.