23.03.1971
Sameinað þing: 36. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 808 í D-deild Alþingistíðinda. (4640)

362. mál, störf íslenskra starfsmanna í Kaupmannahöfn

Dómsmrh. (Auður Auðuns):

Herra forseti. Það er spurt um, hvernig háttað sé samstarfi sendiráðs Íslands og íslenzka prestsins í Kaupmannahöfn, og enn fremur er spurt um kostnað af starfsemi hans. Eins og hv. þm. er að sjálfsögðu í fersku minni, er í lögum um skipan prestakalla og prófastsdæma og kristnisjóð, sem samþ. voru á s. l. ári, heimilað að ráða prestvígðan mann til kirkjulegra starfa með Íslendingum í Kaupmannahöfn og annars staðar á Norðurlöndum, eftir því sem við verður komið, eins og segir í 9. gr. þessara laga. Þessari starfsemi hafði, eins og hv. fyrirspyrjandi reyndar vék að í sinni ræðu, verið haldið uppi áður um sex ára bil og lengst af á grundvelli fjárveitinga á fjárlögum, en einnig um skeið á grundvelli almennrar fjársöfnunar, þegar fjárveitingin hafði fallið niður. Eins og fram hefur komið í umr. um starfið í þessu sambandi, hefur auk þess kirkjulega starfs, sem presturinn hefur með höndum, höfuðþáttur starfsins verið heimsóknir til og aðstoð við íslenzka sjúklinga við komu þeirra, dvöl og brottför af sjúkrahúsum í Kaupmannahöfn, og sá þáttur starfsins hefur óefað tekið mestan tíma af öllum störfum prestsins. Frá s. l. hausti fólu forsetar Alþingis með samþykki kirkjumálaráðherra prestinum umsjá húss Jóns Sigurðssonar, og presturinn hefur þar aðsetur og jafnframt starfsaðstöðu vegna hins almenna starfs síns. Presturinn hefur sjálfsagt óhjákvæmilega vegna starfa sinna töluverð tengsl við sendiráð Íslands, þar sem vandamál margra Íslendinga, sem dvöl eiga í Danmörku, geta orðið úrlausnarefni beggja þessara aðila.

Um kostnað af prestsembættinu skal ég gefa þessar upplýsingar: Laun prestsins hafa verið 4220 d. kr. á mánuði, en s. l. ár, árið 1970, nam kostnaður prestsstarfsins í Kaupmannahöfn, laun og útlagður embættiskostnaður, 676 265 ísl. kr.

Þetta eru þær upplýsingar, sem ég hef um starfið að gefa, og ég vonast til þess, að hv. fyrirspyrjandi telji þær fullnægjandi af minni hálfu.