23.03.1971
Sameinað þing: 36. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 808 í D-deild Alþingistíðinda. (4641)

362. mál, störf íslenskra starfsmanna í Kaupmannahöfn

Sjútvrh. (Eggert G. Þorsteinsson):

Herra forseti. Þeim hluta þessarar fsp., sem heyrir undir mitt rn., vildi ég mega svara á eftirfarandi hátt. Það, sem snýr að heilbr.- og trmrn. í þessari spurningu, er annars vegar, hvernig starfi fulltrúa heilbr.- og trmrn. í Kaupmannahöfn hefur verið varið, hverja samvinnu hann hefur haft við íslenzka sendiráðið og hvaða störf hann vinnur þar. Hins vegar, hvaða kostnað rn. hefur haft af þessu.

Til þess að rekja gang þessa máls stuttlega og rifja upp fyrir þm. og öðrum þeim, er sýnt hafa þessum málum áhuga, hvað gerzt hefur, þá er frá því að segja, að sumarið 1969 lét ég sem þáv. félmrh. fara fram könnun á því að gefnu tilefni, hve mikil þörf væri fyrir opinbera aðstoð við Íslendinga, sem þurfa að leita læknishjálpar eða sjúkrahúsvistar í Kaupmannahöfn, auk þeirrar hjálpar, sem þá var veitt af prestinum þar. Könnuninni var fyrst og fremst beint að því að athuga, hvort æskilegt væri að koma á fót heimili eða annarri aðstoð í Kaupmannahöfn fyrir sjúklinga og aðstandendur þeirra. En eins og kunnugt er, þá þurfa margir sjúklingar enn þá að leita til Kaupmannahafnar og eru þá jafnan aðstandendur í för með þeim að ósk læknanna sjálfra. Slíkar till. um þessi efni hafa oft áður verið hafðar uppi, m. a. af forstjóra elli- og hjúkrunarheimilisins Grundar, og slíkt heimili var áður beinlínis starfrækt af hjónunum Steinunni Ólafsdóttur — (Gripið fram í.) Ég er nú dálítið hás, en ég skal reyna að skerpa röddina. Það var áður beinlínis starfrækt af hjónunum Steinunni Ólafsdóttur og Þórði Jónssyni í Nörre-Frihavnsgade 31 í Kaupmannahöfn. Þessa könnun fól félmrh. Gísla Friðbjarnarsyni, sem þá dvaldist í Kaupmannahöfn annarra erinda. Fyrrgreind athugun leiddi það í ljós, að mikil þörf væri á því fyrir þá aðila, sem hér eiga hlut að máli, sjúklinga og aðstandendur þeirra, að komið yrði upp gistiaðstöðu í einhverju formi fyrir þá, áður en þeir færu á sjúkrahús, og eins eftir að þeir kæmu af sjúkrahúsi, svo og ekki sízt fyrir aðstandendur þeirra, meðan þeir þyrftu að dveljast í Kaupmannahöfn, sem oft er svo vikum og jafnvel mánuðum skiptir. Í ársbyrjun 1970, þegar þáv. prestur þar réðst til annarra starfa um stundarsakir hér heima og óvíst var um framhald prestsstarfa í Kaupmannahöfn, tók heilbr.- og trmrn. þá ákvörðun að ráða Gísla Friðbjarnarson til þess að annast þjónustu á sínum vegum í Kaupmannahöfn, m. a. með það fyrir augum að koma upp gistiaðstöðu fyrir sjúklinga eftir dvöl þeirra á sjúkrahúsum og fyrir aðstandendur þeirra, er þeim fylgja.

Á s. l. ári gerðist það síðan, að prestsstarfið í Kaupmannahöfn var lögfest, en rn. taldi samt eftir eftirgrennslan, að það undirbúningsstarf, sem sendimaður þess hafði þá unnið í Kaupmannahöfn. við að koma upp heimili, ætti ekki að leggjast niður, og varð það að ráði, að hann tæki sjálfur á leigu íbúð að Vesterbrogade 110 í Kaupmannahöfn, sem síðan hefur hlotið nafnið Íslenzka heimilið í Kaupmannahöfn og hann hefur sjálfur rekið. Rn. hefur ekki haft neinn veg eða vanda af leigumálum, þau eru gerð á hans eigin vegum, og hann annast persónulega rekstur heimilisins, og hefur heilbr.- og trmrn. ekki tekið neinn þátt í stofnkostnaði, en hins vegar hefur hann sjálfur fengið greidd mjög lág mánaðarlaun um þennan tíma. Auk þess sem starfsmaður heilbrrn. í Kaupmannahöfn hefur komið á fót og annast rekstur þessa heimilis að Vesterbrogade 110, þá hefur hann einnig séð um fyrirgreiðslu fyrir sjúklinga, því að lengst af þeim tíma, sem hann var í Kaupmannahöfn á s. l. ári, þá var ekki starfandi prestur þar af orsökum, sem mönnum eru kunnar.

Síðan prestur kom aftur til Kaupmannahafnar, hefur ekki verið glögg verkaskipting um þessa aðstoð við sjúklingana, þ. e. að liðsinna þeim við komuna til Kaupmannahafnar og aftur við brottför frá Kaupmannahöfn. Þeir hafa báðir unnið þessi störf, hann og presturinn, eftir því sem þörf hefur verið á og um hefur verið beðið af einstaklingunum sjálfum, ýmist héðan að heiman eða úti í Kaupmannahöfn. En gistiaðstöðuna hefur Gísli annazt einn. Hann hefur einnig heimsótt sjúklinga og annazt ýmiss konar fyrirgreiðslu fyrir þá jöfnum höndum og presturinn.

Hvað viðkemur samstarfi við sendiráð Íslands í Kaupmannahöfn, þá hefur ekki um neitt slíkt samstarf verið að ræða milli sendimanns heilbr.- og trmrn. og sendiráðsins. Hvað snertir samvinnu sendimanns heilbr.- og trmrn. og prestanna, sem verið hafa á þessum tíma, þá hafa þeir að mestu unnið hvor á sínu sviði, eins og ég áðan tók hér fram, en sendimaður heilbr.- og trmrn. hefur jafnan gætt þess, að presturinn fengi vitneskju um alla þá sjúklinga, sem komið hafa á sjúkrahús í Kaupmannahöfn og hann hefur ekki sjálfur getað tekið á móti.

Samkv. skýrslum, sem borizt hafa til rn. um starfsemina í Kaupmannahöfn, þá höfðu á tímabilinu 1. jan. til 30. ágúst 1970 komið 37 sjúklingar til Kaupmannahafnar og með þeim 22 aðstandendur, sem starfsmaður rn. hafði afskipti af og fyrirgreiðslu fyrir, og af þessum 22 dvöldu 16 lengri eða skemmri tíma á gistiheimilinu eða frá einni viku og upp í sex vikur, meðan þeir biðu aðgerðar eða árangurs eftir aðgerðir á vandamönnum sínum.

Hvað rekstri gistiheimilisins viðkemur, þá er honum hagað þannig, að sendimaður rn. tók persónulega á leigu íbúð í sambýlishúsi, fimm herbergja íbúð, og er þar hægt að hýsa 6–8 manns í senn. Þeir, sem dvalizt hafa þar, hafa borgað fyrir dvölina sjálfir, svo að nægt hefur fyrir húsaleigu og öðrum rekstrarkostnaði fyrir íbúðina, og hafa einstaklingar borgað 25 kr., en hjón 40 kr. fyrir nóttina, en aðstöðu hafa þeir haft til að sjá um mat sinn sjálfir, hafi þeir óskað þess. Rn. hefur ekki kostað neinu til þessa húsnæðis, og það, sem til hefur verið kostað, hefur starfsmaðurinn greitt sjálfur eða fengið sem framlög frá ýmsum aðilum, og hafa þessu heimili borizt gjafir í húsmunum, málningu, gólfteppum og öðru, sem nemur að mati rúmlega 200 þús. kr. Þeir aðilar, sem látið hafa af hendi slíkar gjafir, eru Emil Hjartarson, verksmiðjan Dúna, trésmiðjan Víðir, Stálhúsgagnagerð Steinars Jóhannessonar, Slippfélagið í Reykjavík, Sæmundur Sigurðsson málarameistari, Skeifan h/f, bókaútgáfan Þjóðsaga og elli- og hjúkrunarheimilið Grund í Reykjavík.

Þegar prestsembættið í Kaupmannahöfn var lögfest á s. l. ári, var gert ráð fyrir því í heilbr.- og trmrn., að sendimaður þess kæmi heim, og var honum sagt upp starfi frá og með 1. sept. 1970. Þegar hins vegar kom í ljós, að ekki lá beint fyrir, að það væri embættisskylda prestsins að annast sjúklinga í Kaupmannahöfn eða sjá um rekstur þeirrar starfsemi, sem rn. hafði komið á stofn, þá ákvað ráðh., í þessu tilfelli ég, að starfsemi þessari skyldi haldið áfram enn um óákveðinn tíma, enda bárust þá rn. fjölmargar óskir þar að lútandi, bæði frá einstaklingum og öðrum, sem með þessi mál hafa að gera og skrifað hefur verið um í dagblöð hér á landi, eins og hv. fyrirspyrjandi minntist á. Starfsemin hefur því verið rekin áfram og er nú rúmlega ársgömul.

Það er samdóma álit allra þeirra, sem gert hafa vart við sig í rn. með einum eða öðrum hætti, bréflega eða munnlega, að á meðan við þurfum á því að halda að senda sjúklinga til Kaupmannahafnar í þeim mæli, sem nú er, sé þörf fyrir þessa starfsemi. Mjög stór hluti þeirra sjúklinga, sem fara til Kaupmannahafnar, kemur af taugasjúkdómadeild Landsspítalans eða í tengslum við þá lækna, sem þar starfa. Yfirlæknar þeirrar deildar eru Kjartan R. Guðmundsson og Gunnar Guðmundsson dr. med. Þeir sendu heilbr.- og trmrn. bréf dags. 7. jan. 1971 vegna þess að þá hafði kvisazt, að þessi starfsemi mundi leggjast niður um áramótin, og var bréf þeirra svo hljóðandi, með leyfi forseta:

„Við undirritaðir yfirlæknar taugasjúkdómadeildar Landsspítalans förum þess hér með á leit við hæstv. heilbrmrn., að það hlutist til um, að haldið verði áfram að veita þeim sjúklingum, sem senda þarf til ríkisspítalans í Kaupmannahöfn til frekari rannsókna og aðgerða, þá aðstoð, sem veitt hefur verið að undanförnu. Hér er um að ræða margþætta aðstoð, m. a. móttöku sjúklinga á flugvelli, aðstoð við að koma þeim inn á sjúkrahúsið, túlkun við danska hjúkrunarliðið og útvegun húsnæðis fyrir þann aðila, ættingja eða hjúkrunarfólk, sem fylgir sjúklingunum og þarf að dvelja eftir atvikum mismunandi lengi erlendis, meðan á rannsókn eða aðgerð stendur. Útvegun húsnæðis um tíma er þýðingarmikið, bæði fyrir sjúklinginn og þá, sem sendir eru með honum, því oft er það vegna þess, hvernig stendur á flugferðum, að senda þarf sjúkling til Kaupmannahafnar nokkrum dögum áður en hann á að leggjast inn á sjúkrahús. Mikil andleg raun er það fyrir sjúklinga, sem í flestum tilfellum eru alvarlega veikir, að vera settir í svo framandi umhverfi sem raun ber vitni um, því að margir þeirra koma úr fámenni og kunna oft og tíðum lítil sem engin skil á erlendu máli og eiga því erfitt með að tjá sig eða skilja það, sem sagt er við þá. Áðurnefnd hjálp hefur mjög bætt úr þessum erfiðleikum, auk þess sem kunnugt er, að hún hefur komið sér mjög vel fyrir hið danska hjúkrunarlið. Æskilegt væri, að hlutazt yrði til um, að íslenzkar hjúkrunarkonur, sem unnið hafa á taugadeild Landsspítalans, fengju vinnu við heilaskurðardeild ríkisspítalans í Kaupmannahöfn um tíma, t. d. í sex mánuði í sumar, en með því gætu þær orðið sjúklingum til mikillar hjálpar og auðveldað mjög fyrir hinu danska hjúkrunarliði, auk þess sem þær mundu öðlast dýrmæta reynslu, sem kæmi sér aftur vel í starfi þeirra hér heima. Mörg undanfarin ár höfum við notið sérstakrar velvildar og fyrirgreiðslu hjá dönskum læknum og hjúkrunarfólki, og væri því æskilegt, að við sýndum þakklæti okkar á þann hátt, á annan hátt en eingöngu í orði. Við viljum því í þessu tilefni leyfa okkur að benda á meðfylgjandi ljósrit af bréfi, sem sent var til orðunefndar í sambandi við heiðrun á læknum, dönskum læknum.“

Þetta er bréf þeirra yfirlæknanna á taugadeild Landsspítalans, og verður ekki efað, að þeir menn ættu að þekkja gerst til þessara hluta. Í þessu sambandi má einnig minna á það, að Íslendingar fara nú aðallega á tvo staði erlendis til að leita læknishjálpar, til Kaupmannahafnar og til London, og í des. s. l. barst rn. bréf frá félagi Íslendinga í London, þar sem rætt er um vandkvæði þeirra sjúklinga, sem þurfa að sækja til London, og óska þeir eftir því, að rn. taki það mál upp til athugunar.

Eins og málum er háttað í dag, þá hefur rn. ekki treyst sér til að hætta því starfi, sem það lét hefja í janúar 1970, þegar prestlaust var í Kaupmannahöfn um tíma og enginn var þar til að sinna sjúklingum. Enda þótt prestur hafi nú aftur komið til Kaupmannahafnar, þá er sendimaður rn. enn í þessu starfi og mun gegna því áfram um sinn. Rn. mun því við gerð næstu fjárlaga gera ráð fyrir því, að það standi fyrir hjálp eða aðstoð við sjúklinga í samráði við Tryggingastofnun ríkisins bæði í London og Kaupmannahöfn á svipuðum grundvelli og nú er í Kaupmannahöfn. Og kemur þá til kasta Alþ. að ákveða, hvort rn. hefur hér farið að vilja meiri hl. Alþ. í þessum málum. A. m. k. er maður vanari því, að fundið sé að því, sem ekki er gert, en því, sem gert er.

Hvað snertir síðari hluta spurningar Magnúsar Kjartanssonar, hv. þm., hver sé hinn árlegi kostnaður heilbr.- og trmrn. af þessu starfi í Kaupmannahöfn, þá er því til að svara, að árið 1970 voru greiddar frá rn. alls 231 064 kr. Af þessari upphæð endurgreiddi Tryggingastofnunin 60 þús. kr., en Tryggingastofnun ríkisins hefur ekki tekið þátt í kostnaði við þetta starf síðari hluta ársins. Hins vegar hefur stofnunin nýlega gert sérstaka afsláttarsamninga um flutning, afsláttarsamning á fargjöldum vegna flutnings þessa fólks, sjúklinga og aðstandenda þeirra.

Ég vona, að hv. fyrirspyrjandi telji þetta fullnægjandi svar.