23.03.1971
Sameinað þing: 36. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 815 í D-deild Alþingistíðinda. (4644)

362. mál, störf íslenskra starfsmanna í Kaupmannahöfn

Sjútvrh. (Eggert G. Þorsteinsson):

Herra forseti. Það var aðeins út af tveimur atriðum til að fyrirbyggja misskilning. Í fyrsta lagi spurði hv. fyrirspyrjandi, hver væru mánaðarlaun hins umrædda sendimanns. Hann er ekki á neinum föstum mánaðarlaunum. Það hefur verið metið eftir skýrslum, sem staðfestar eru af öðrum aðilum, hver hans fyrirhöfn er í þessu sambandi hverju sinni, enda maðurinn ekki fastur starfsmaður.

Um samstarfsleysið, sem hv. fyrirspyrjandi lagði mikið upp úr, þá er kannske þarna um að ræða misritun í svari mínu, sem hv. þm. hefur nú haft til umráða um nokkurra daga skeið. Ég lét honum það í té skriflega. Það, sem ég vildi leggja áherzlu á í sambandi við það, var það, að maðurinn væri ekki attaseraður við sendiráðið og þess vegna ekki starfsmaður sendiráðsins. Þetta er það, sem ég á við um sambandsleysið, sem um er rætt og ég vil, að komi skýrt fram.

Í þriðja lagi vil ég svara því, sem þm. hnýtti í endann, að hér væri um eitthvert náðarbrauð að ræða til Alþfl.-manna. Fyrir mér vakir það eitt, að þessi starfsemi haldi áfram, en ekki hver gegnir henni.

Það var vel og drengilega undirstrikað af hæstv. dómsmrh. hér áðan, að á slíku heimili er full þörf og það væri varla hægt að fara fram á það, að sendiráð annaðist rekstur slíkra heimila. Ég hygg, að það samrýmdist ákaflega illa verkefnum sendiráðs erlendis að reka slík heimili. Spurningin er því ekki sú, hver gegnir starfinu, heldur að það sé rækt og þeir, sem þarna eiga um sárt að binda, sjúklingar og aðstandendur, fái þessa aðstöðu, sem þarna er um að ræða, og hefur skilningur á þessu sýnt sig mjög vel í því, hve mörg fyrirtæki hafa þarna af frjálsum og fúsum vilja lagt þessu heimili lið fjárhagslega.