30.03.1971
Sameinað þing: 38. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 816 í D-deild Alþingistíðinda. (4650)

358. mál, samgöngur við Austurland

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Ég hafði nú hugsað mér að svara þessari fsp. fyrir viku, en hv. fyrirspyrjandi var þá ekki staddur í salnum, svo að ekki var hægt að ljúka því.

Eins og hv. fyrirspyrjandi vék að núna, þá hefur það skeð í þessari viku, að Eimskipafélag Íslands hefur ákveðið að gera Reyðarfjörð að aðalhöfn. Ég kallaði til mín forstjóra Eimskipafélags Íslands og forstjóra Skipadeildar SÍS og ræddi þessi mál við þá. Þeir gáfu ýmsar skýringar á þessum málum, og þykir mér rétt að greina nokkuð frá því.

Samkv. upplýsingum frá Eimskipafélagi Íslands fá móttakendur vöru utan Reykjavíkur sama farmgjald frá útlöndum og varan væri flutt á til Reykjavikur, ef um er að ræða a. m. k. 20–30 tonn í einu og einhver fyrirvari hafður á um flutning vörunnar. Eru þetta upplýsingar, sem mér eru mjög kærkomnar, því að ég hafði ekki búizt við því, að menn ættu kost á þessu, en það sýnir, að skipafélögin gera öllu meira en menn höfðu reiknað með. Árið 1969 var Eimskip með 801 viðkomu í 48 höfnum utan Reykjavíkur og árið 1970 með 804 viðkomur á 49 höfnum utan Reykjavíkur. Eru nú fjórar hafnir, þegar þetta var tekið saman, en nú fimm, eftir að Reyðarfjörður er kominn, á landinu utan. Reykjavíkur, sem Eimskip kemur reglulega til, svo kallaðar aðalhafnir, en það eru Ísafjörður, Akureyri, Húsavík, Vestmannaeyjar og Reyðarfjörður.

Samkv. upplýsingum frá Sambandi ísl. samvinnufélaga fara um 90% af flutningum þess með skipum beint á ákvörðunarhöfn. Er þá gert ráð fyrir, að lágmarksflutningur sé 50 tonn. Á árinu 1969 hafði SÍS 130 viðkomur á svæðinu frá Vopnafirði til Hornafjarðar fyrir utan olíuflutninga.

Hinn 22. þ. m. barst rn. svo hljóðandi bréf frá Sambandi sveitarfélaga í Austurlandskjördæmi, dags. 19. þ. m.:

„Eins og yður er ljóst, búa íbúar strjálbýlisins við mjög misjafnan hlut að því er flutningskostnað á vörum snertir, síðan framhaldsflutningur á vörum með Ríkisskip var almennt felldur niður nema til þeirra hafna, sem skipafélögin viðurkenna sem aðalinnflutningshafnir. Einkum er hlutur Austfirðinga óviðunandi í þessum efnum, þar sem skipafélögin viðurkenna enga höfn þar sem aðalinnflutningshöfn, en einnig með sérstöku tilliti til þess, að þeir eru auk annars verulega háðir flutningum með flugvélum, sem eru söluskattsskyldir. Það eru því vinsamleg tilmæli stjórnar Sambands sveitarfélaga í Austurlandskjördæmi til yðar, að þér beitið atfylgi yðar til að fá þeirri mismunun milli þjóðfélagsþegna, sem hér um ræðir, að einhverju leyti af létt.“ — Ég vil taka það fram, að þegar bréfritarinn talar um, að flutningar með flugvélum séu söluskattsskyldir, þá er þar ekki rétt með farið. — „Afrit af samhljóða bréfi til skipafélaganna, þar sem nánar er fjallað um þessi mál, fylgir hér með.“

Þetta segir nú eiginlega allt, sem bréfritarinn vildi segja, en það er Bergur Sigurbjörnsson, sem skrifar undir fyrir hönd Sambands sveitarfélaga í Austurlandskjördæmi. Forstjóri Eimskip sagðist nú fyrr hafa viljað viðurkenna aðalhöfn á Austurlandi en þetta, ef Austfirðingar hefðu komið sér saman um það, hvaða höfn það ætti að vera. Það hefur oft verið rætt um Seyðisfjörð, það hefur verið rætt jafnvel um Norðfjörð og Reyðarfjörð, en nú hefur sveitarstjórnasambandið komið sér saman um, að Reyðarfjörður væri bezta höfnin, og það sýnist nú flestum með tilliti til samgangna við Egilsstaði, sem nú eru að verða tiltölulega stór staður á Austurlandi. Eftir þetta viðtal mitt við forstjóra Eimskip skrifaði hann mér svo hljóðandi bréf, sem ég vildi lesa, með leyfi hæstv. forseta, en bréfið er örstutt:

„Með tilvísun til fundar fyrir hádegi í dag og bréfs móttekins eftir hádegi frá Sambandi sveitarfélaga í Austurlandskjördæmi staðfestist hér með, að Reyðarfirði verði bætt við svo kallaðar aðathafnir, og munu gilda sömu reglur um flutninga til Reyðarfjarðar eins og til annarra aðalhafna, t. d. Ísafjarðar og Akureyrar.“

Þá segir forstjóri Eimskipafélagsins og forstjóri Skipadeildar SÍS, að það verði að teljast óheppilegt að hafa sérstaka umskipunarhöfn á Austfjörðum, aðallega vegna þess, að milli hafna þar eru miklu færri ferðir en frá Reykjavík til einstakra hafna á Austfjörðum. Mundi þjónusta við einstakar Austfjarðahafnir því verða minni með því móti að öllu öðru óbreyttu.

Þá telja þeir forstjórarnir, að það sé engan veginn hægt að segja, að skip Eimskipafélagsins og SÍS hafi ekki haft töluverðar viðkomur á Austfjarðahöfnum undanfarin ár. Skulu nefnd eftirfarandi dæmi um viðkomur þeirra árið 1969: Vopnafjörður 29 viðkomur, Seyðisfjörður 52, Norðfjörður 38, Eskifjörður 23, Reyðarfjörður 56, Fáskrúðsfjörður 46, Stöðvarfjörður 21, Hornafjörður 47. Og auk þessa eru viðkomur vegna olíuflutninga og strandferðaskipanna, þannig að reikna má með því að það sé til jafnaðar 1½ ferð á viku á þessar hafnir og á sumar tvær í viku, en það er vitanlega matsatriði, hvort það þykir nægilegt, hvort hægt er að kalla það góða þjónustu, þótt tvær ferðir séu á viku. Ég ætla ekkert að fullyrða um það. En það munu flestir geta verið sammála um, að æskilegt sé, að það séu þéttari viðkomur á þessar hafnir. En þess má geta, að það má reikna með bættri þjónustu hjá Skipaútgerð ríkisins, eftir að skipakosturinn hefur verið aukinn. Nýja Esja á að koma í gagnið um næstu mánaðamót með nýrri og betri áætlun fyrir íbúana á ströndinni.

Svar við þessum fsp. er þá það í stuttu máli, að Austurland mun njóta sama réttar og aðrir landshlutar, og það hefur nú fengið viðurkennda aðalhöfn, sem er Reyðarfjörður. Og panti íbúar á Austurlandi 20–30 tonn í einu frá útlöndum, þá geta þeir fengið þessar vörur fluttar á sama verði og þær væru fluttar til Reykjavíkur. Í öðru lagi verður að svara því til, sem forstjórar skipafélaganna sögðu, að það muni ekki vera hagstætt að hafa sérstaka umskipunarhöfn á Austfjörðum vegna fjarlægðar á milli hafna í fjórðungnum og tiltölulega strjálla ferða þar á milli. Þörfin fyrir umskipunarhöfn verður því minni sem skipaferðirnar verða þéttari og fleiri, en það mun verða með bættri þjónustu hjá Skipaútgerð ríkisins.