30.03.1971
Sameinað þing: 38. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 822 í D-deild Alþingistíðinda. (4658)

363. mál, Fræðslumyndasafn ríkisins

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Eins og kom fram í ræðu hv. fyrirspyrjanda, á hann í fsp. við 13 kvikmyndir, sem eru í Fræðslumyndasafni ríkisins og Atlantshafsbandalagið lét gera á sínum tíma um jafnmörg aðildarríki þess.

Þessar myndir bárust Kvikmyndasafni ríkisins, sem þá var, sem hér segir: Sex myndir 14. sept. 1956, um Holland, Lúxembúrg, Frakkland, Belgíu, Danmörku og Ítalíu. Fjórar myndir 1. ágúst 1957, um Grikkland, Noreg, Bretland og Kanada. Ein mynd 15. nóv. 1957, um Ísland, og tvær 21. jan. 1958, um Portúgal og Tyrkland. Myndir þessar eru með íslenzku tali og hafa því verið nokkur fengur fyrir safnið á sínum tíma. Þær fjalla almennt um viðkomandi lönd, en sýna flestar stuttar svipmyndir af landvörnum og nefna þátttöku viðkomandi lands í Atlantshafsbandalaginu.

Í kvikmyndaskrá, sem Fræðslumyndasafnið, sem nú er, gaf út 1965 og notuð hefur verið síðan, er þess getið um allar þessar myndir, hver sé uppruni þeirra. Kennarar og skólastjórar ráða sjálfir, hvaða myndir þeir sýna, og safnið hefur ávallt lagt áherzlu á, að þeir skoði myndir, áður en þeir sýna þær nemendum. Umræddar kvikmyndir voru nokkuð notaðar í fyrstu, en jafnskjótt og safnið hefur getað aftað sér nýrra litmynda um þessi lönd, hefur notkun gömlu myndanna minnkað verulega.