30.03.1971
Sameinað þing: 38. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 824 í D-deild Alþingistíðinda. (4662)

363. mál, Fræðslumyndasafn ríkisins

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð. Ég tel það ekki skyldu menntmrh. né starfsmanna menntmrn. að skoða það, hvaða myndir berast Fræðslumyndasafni ríkisins eða hvaða myndir það býður skólastjórum til sýnis. Menntmrn. tekur ekki að sér og hefur aldrei átt að taka að sér neina þess konar ritskoðun eða kvikmyndaskoðun hjá Fræðslumyndasafninu. Það ætlast hins vegar að sjálfsögðu til þess, að þarna sé gætt sjálfsagðs hlutleysis, og af ræðu forstöðumanns safnsins, sem er safninu kunnugur, hefur það komið greinilega fram, að að hans skoðun er hér ekki um neitt að ræða, sem kalla mætti hneykslanlegan áróður. Ég er þm. að sjálfsögðu sammála um, að ef um slíkt væri að ræða, þá ætti það ekki að eiga sér stað.

Ég lít sem sagt þannig á, að hér sé ekki um neitt slíkt að ræða. Þær myndir, sem safnið býður upp á, innihalda ekki neitt, sem kalla mætti hneykslanlegan áróður. Ég vek enn athygli á því, sem ég sagði í upphafi, að skólastjórum er það í sjálfsvald sett, hvaða myndir þeir panta og hvaða myndir þeir sýna, og að Fræðslumyndasafnið leggur á það áherzlu, að þeir skoði jafnan sjálfir áður þær myndir, sem þeir sýna. Ábyrgðin í þessu efni er því hjá hlutaðeigandi skólastjórum og hlutaðeigandi kennurum, en ekki á herðum Fræðslumyndasafnsins né menntmrn.