30.03.1971
Sameinað þing: 38. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 827 í D-deild Alþingistíðinda. (4670)

364. mál, náttúrugripasafn

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Náttúrugripasafnið í Reykjavík var stofnað árið 1889. Fyrstu ár safnsins var það í leiguhúsnæði á hinum og þessum stöðum í bænum, en haustið 1908 fékk það inni í hinu nýbyggða safnahúsi við Hverfisgötu og var þar óslitið til haustsins 1960. Þá fékk það til umráða nýtt og rúmgott húsnæði að Laugavegi 105. Húsnæðið, sem safnið hefur haft til umráða, er 600 m2 og auk þess 290 m2 leiguhúsnæði í sama húsi fyrir geymslu eða samtals 890 m2. Stærð sýningarsalar, en hann er hluti af 600 m2, sem ég nefndi áðan, er 100 m2, og er það rétt, að sýningarhúsnæðið þyrfti að vera stærra.

Árið 1965 voru sett ný lög um Náttúrufræðistofnun Íslands, þar sem skýrari ákvæði voru sett um hlutverk stofnunarinnar. Nú er hafin kennsla í náttúrufræðum við Háskólann. Í því sambandi hefur verið rætt um það, hvernig haga eigi tengslum Náttúrufræðistofnunarinnar og Háskólans. Það er skoðun mín, og hana hef ég tjáð bæði Háskólanum og Náttúrufræðistofnun, að tengja ætti Náttúrufræðistofnun Háskólanum til þess að efla rannsóknir og styrkja aðstöðu við kennslu, en koma í veg fyrir tvíverknað. Starfandi er nefnd með einum fulltrúa frá Náttúrufræðistofnun og tveim frá Háskóla Íslands til þess að semja álitsgerð og gera tillögur um hugsanlega samvinnu þessara aðila um sameiginlegt húsnæði, og er þar bæði höfð í huga þörf náttúrufræðikennslunnar við Háskólann, rannsóknaraðstaða við Náttúrufræðistofnunina og aðstaða til sýningar á náttúrugripum Náttúrufræðistofnunarinnar.

Engin ákvörðun hefur verið tekin um nýbyggingu fyrir Náttúrufræðistofnunina, enda er slíkt tæplega tímabært, á meðan ákvörðun hefur ekki verið tekin í sambandi við þau tengst Náttúrufræðistofnunar og Háskóla, sem nú eru til umr.