30.03.1971
Sameinað þing: 38. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 830 í D-deild Alþingistíðinda. (4677)

289. mál, rafvæðingaráætlun Vestfjarða

Steingrímur Hermannsson:

Herra forseti. Hæstv. forsrh. minntist ekki á virkjun í Strandasýslunni, Þiðriksvallarvatnsvirkjun. Uppi eru háværar raddir um það, að til einhverra framkvæmda komi þar. A. m. k. hafa Rafmagnsveitur ríkisins boðið þar í tvær jarðir, Víðidalsá og Hnitbjörg, samtals 2.3 millj. eða nálægt því, og hefur það vakið nokkra furðu íbúa þessa svæðis. Góðar skýringar hafa hins vegar ekki fengizt á fyrirætlun rafmagnsveitnanna. Ganga þær sögur, að fyrst og fremst sé sótzt eftir laxveiðinni, sem er mjög í eftirspurn, eins og allir vita. Ég held, að það væri æskilegt að fá þetta upplýst, ef unnt er, þannig að enginn vafi megi vera um fyrirætlun Rafmagnsveitna ríkisins í þessu sambandi. Ég vil geta þess, að það hefur mætt mikilli andstöðu, að jarðir þessar séu keyptar. Hefur hreppurinn mikinn hug á því að nota forkaupsrétt sinn, ef jarðirnar verða seldar.

Ég vil taka undir það með hv. fyrirspyrjanda, að það vakti athygli mína, að ekki var minnzt á þær áætlanir um veitur á þessu svæði, sem mér hefur skilizt, samkv. þeim upplýsingum, sem ég hef fengið frá Rafmagnsveitum ríkisins, að séu í undirbúningi og eigi að ná allt til 2 km meðalfjarlægðar á milli bæja. Í þeim flokki eru vitanlega margar sveitir, eins og t. d. Bjarnarfjörðurinn og Fellshreppurinn í Strandasýslunni og Barðaströndin og eflaust fleiri. Væri gott að fá það staðfest eða upplýst, hvort þetta séu ekki réttar upplýsingar, sem ég hef fengið, um það, að slíkar sveitir verði teknar inn í þá næstu áætlun, sem nú er verið að vinna að.