18.12.1970
Neðri deild: 36. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 659 í B-deild Alþingistíðinda. (468)

161. mál, tollskrá o.fl.

Forsrh. (Jóhann Hafstein):

Herra forseti. Það er alveg ástæðulaust að hefja deilur um þetta atriði.

Það er auðvitað alveg ástæðulaust að vera með neinar getsakir um það, að annað liggi til grundvallar en formsatriðin, sem ég gerði grein fyrir áðan, þ. e. að mér fyndist óeðlilegt og óþinglegt að samþykkja þessa till. Það er alveg rétt hjá hv. þm., að það eru mýmörg dæmi þess, að þing leggi fyrir einhverja n. að undirbúa eitthvert mál og leggja fyrir næsta þing, en ég held, að það sé í langflestum tilfellum þannig — og ég sagði ekki, að það væri ekki neitt fordæmi fyrir þessu — að það er sama þing, sem ákveður þetta, og viðkomandi ríkisstj., sem í slíku tilfelli undirbýr mál fyrir næsta þing. Ég benti á það, að fyrir dyrum standa almennar alþingiskosningar og það eru aðrir þm., sem þá eiga að taka fyrir þessi mál og fjalla um þau, og það finnst mér ekki þinglegt. Það má auðvitað um það deila. Mér finnst ekki þinglegt, að þm. nú séu að segja þessum mönnum fyrir verkum — hvort sem það er þingið sjálft eða einstakir þm. eða ríkisstj. um það, hvaða mál þeir eigi að leggja fyrir það þing og með hvaða hætti. Það má sjálfsagt deila um þetta. Ég er ekki að segja það. Þetta er mín skoðun, og ég lít á það svona og vil þess vegna alls ekki taka efnislega afstöðu til þess máls, þ. e. hvort eigi að afnema tollana eða ekki. Við skulum ekki einu sinni hefja neinar umr. um það, en ég hef lagt það til, að þessi till. væri felld eingöngu af þessum formlegu ástæðum, sem ég hef nú áréttað hér í þessari ræðu minni.