09.11.1970
Neðri deild: 14. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 53 í B-deild Alþingistíðinda. (49)

101. mál, atvinnuöryggi

Halldór E. Sigurðsson:

Herra forseti. Ég vil í upphafi máls míns leggja áherzlu á þessi atriði:

1. Framsfl. hefur vakið athygli á og varað við þeirri hættu, sem heilbrigðu atvinnulífi stafar af mikilli verðbólgu. Hann hefur barizt gegn henni með meiri festu og árangri en aðrir stjórnmálaflokkar. Minni ég á í því sambandi, að á áratugnum 1950–1960, er Framsfl. átti aðild að ríkisstj., hækkaði verðlag um 123% en á valdatímum núverandi valdhafa frá 1960–1970 um 250%.

2. Framsfl. er eini stjórnmálaflokkur landsins, sem hefur látið af völdum, af því að honum tókst ekki að ná samstöðu um leið til baráttu gegn verðbólgu, sem hann taldi nauðsyn bera til

3. Framsfl. hefur í stjórnarandstöðu varað við þeirri verðbólgu, er leiddi af stefnu ríkisstj., svo sem álögum á launþega og atvinnuvegina. Hann hefur flutt frv. og till., sem stefnt hafa að því að draga úr vexti verðbólgunnar svo sem með afnámi söluskatts af mestu nauðsynjum, hækkun á persónufrádrætti til skatts og auknum tryggingabótum.

Formaður Framsfl. lýsti yfir í upphafi þessa þings fylgi flokksins við verðstöðvun, en lagði jafnframt áherzlu á það, að hún yrði að vera raunhæf barátta gegn verðbólgu. Framsfl. lýsir sök á hendur hæstv. ríkisstj. fyrir það, hvernig að þessu máli er staðið. Í fyrsta lagi vegna þess, að ekki var gripið til aðgerða þegar í sumar með auknum niðurgreiðslum og fjölskyldubótum og öðrum þeim ráðum, sem dregið gátu úr vexti verðbólgunnar. Í öðru lagi er það að hafa boðað aðgerðir um verðstöðvun nokkrum vikum fyrir framkvæmd hennar, svo að allir þeir, sem áhuga höfðu, hafa fullnægt lyst sinni um hækkun á vöru og þjónustu, þ. á m. ríkisstofnanirnar. Valdið hafði ríkisstj. í sumar til þess að lýsa yfir verðstöðvun, eins og hún gerði hinn 1. nóv. s. l.

Framsfl. er ljóst, að ef á að ná árangri í baráttunni gegn verðbólgu, þarf markvissa stefnu og þrotlaust starf. Sýndarmennska og uppþot rétt fyrir kosningar gagna lítið, eins og ljóst er af fyrri vinnubrögðum núverandi valdhafa, svo sem ég mun víkja að síðar.

Áður en ég vík að samskiptum hæstv. ríkisstj. og verðbólgunnar og verðstöðvunarþáttum hæstv. ríkisstj., vil ég víkja að frv. því, sem hér liggur fyrir til 1. umr. Um 1. gr. frv. er það að segja, að hún er óþörf. Hæstv. ríkisstj. hefur í lögum heimild til þeirrar verðstöðvunar, sem þar er, enda lýsti hún yfir því 1. nóv., að verðlag í landinu mætti ekki hækka, án þess að samþykkt verðlagsyfirvalda kæmi til, eins og lýst er í þessu frv. Frv. breytir því engu um það, að verðstöðvun gat átt sér stað, án þess að hún væri lögleidd, þar sem lagaheimildin er fyrir. Heimild til aukinna niðurgreiðslna og framkvæmd á því atriði er fjárlagamál. Hæstv. ríkisstj. þurfti þess vegna ekki að koma með það atriði í þessu frv., heldur er það einn þáttur af fjárlagaafgreiðslunni, þegar hún fer fram. Um fjölskyldubætur er það að segja, að það er líka fjárlagamál, en þó þannig, að breytingar á lögum um almennar tryggingar þarf til, og það er annað mál en þetta. Sá þáttur, sem snýr að sveitarfélögunum, um bann við því, að þau megi hækka tekjur sínar, er nýr. Hann var ekki fyrir í lögum, en er svipað atriði og var í verðstöðvunarlögunum 1967.

Þegar þetta er athugað, þá er ástæða til að spyrja: Hver er þá ástæðan fyrir þessu lagafrv., sem hér liggur fyrir til 1. umr.? Hæstv. ríkisstj. hefur stundað þá sýndarmennsku nú í þriðja sinn í sambandi við kosningar að gefa út lög um verðstöðvun. Það var gert í upphafi samstarfs þessara stjórnmálaflokka 1959, og það var endurtekið 1967. Þess vegna var það ekki að undra, þótt ríkisstj. legði ekki út í kosningar í haust, þar sem hún átti þennan þátt eftir til undirbúnings að alþingiskosningum.

En það eru þrjú atriði, sem skipta meginmáli í þessu lagafrv. Það er í fyrsta lagi nýr skattur, launaskatturinn, sem á að leggja á atvinnuvegina. Það hefði verið eðlilegt, þegar till. að þessum skatti var lögð hér fram á hv. Alþ.,hæstv. ríkisstj. hefði gert grein fyrir stöðu atvinnuveganna og því, hvort mál atvinnuveganna væru með þeim hætti, að engra afskipta væri að vænta af hálfu ríkisvaldsins í sambandi við þá á þessu þingi. Nú liggur það fyrir, að kaupgjaldssamningar eru lausir í sambandi við útveginn og verða til meðferðar í kringum áramótin. Það liggur líka fyrir, að mjög hefur hækkað allur tilkostnaður, bæði olía og viðhaldskostnaður í sambandi við útgerðina. Hins vegar er það svo, að verðlag á sjávarafurðum er nú hærra en nokkru sinni fyrr, og þess vegna má gera ráð fyrir því, að staða útvegsins verði þar af leiðandi betri en áður hefur verið. En það er engin grein gerð fyrir því af hálfu hæstv. ríkisstj., hvort staða atvinnuveganna er með þeim hætti, að ástæða sé til að leggja á þá nýjan skatt.

Hinu er heldur ekki að leyna í sambandi við þennan skatt, að hann er í raun og veru borgaður af launþegum, því að hér er um að ræða álíka fjárhæð og atvinnuvegirnir hefðu orðið að greiða, ef þeir hefðu greitt þessi tvö vísitölustig, sem talað er um að fella niður. Þess vegna er þessi skattur annars eðlis, en eins og ég kem að síðar, er ekki öll sagan sögð með þessu. Það hefði verið eðlilegt, jafnframt því að ríkisstj. gerði grein fyrir stöðu atvinnuveganna, að þetta mál hefði, eins og ég áðan sagði, verið tengt fjárlagaafgreiðslunni, og það væri hægt að sjá, hver þörf ríkissjóðs væri á slíkum tekjustofni.

Í sambandi við þetta mál sem fjárlagamál leyfi ég mér, með leyfi hæstv. forseta, að vitna hér í grg. þessa frv., en þar segir svo á bls. 6:

„En aftur á móti mun auðið að ná drýgri tekjum en reiknað er með í fjárlagafrv. út úr vissum tekjustofnum, án þess að auka skattbyrðar og jafnvel þótt þær séu ákveðnar léttari en nú er.“

Hvað segir þetta? Þetta segir það, að tekjuáætlun fjárlagafrv., eins og hún liggur fyrir, sýnir ekki rétta mynd af hugsanlegum tekjum ríkissjóðs af þeim tekjustofnum, sem fyrir hendi eru. Það hefði því verið eðlilegt, að í sambandi við það, þegar á að fara að leggja á nýjan skatt, hefði verið gerð grein fyrir þessum þætti með öðru lagi en hér er gert, því að hér er verið að gefa til kynna, að á tekjuáætlun fjárlagafrv. sé lítið að byggja, því að það muni reynast svo, að hún reynist miklu drýgri en þar er reiknað með. Það er því augljóst mál, að þessi þáttur á ekkert erindi inn í þetta frv., heldur er hér um að ræða einn þátt af fjárlagaafgreiðslunni, og ef á að taka inn í fjárlögin heimild til niðurgreiðslna og tryggingabóta, á að gera það við afgreiðslu fjárlaga, en ekki hér.

En hvað segir svo reynslan okkur af fyrri ákvörðunum hæstv. ríkisstj. í sambandi við verðstöðvun? Hver er reynslan frá 1967? Hún er sú, að þegar kosningarnar voru liðnar og ríkisstj. hafði tekizt að halda fylgi sínu áfram og meiri hl. á Alþ., þá var farið að gefa út tilkynningar um annað en gert var fyrir kosningar. Þá voru ekki gefin fyrirheit um það, að verðstöðvunin væri gildandi áfram og mundi verða varanleg. Þá kom spurningin, eins og hæstv. forsrh. kom með áðan: Hvað tekur við, þegar þessu tímabili lýkur? Og ef við miðum nú við reynsluna, eins og hæstv. forsrh. sagði, „við verðum reynslunni ríkari“ eftir þessa aðgerð. Við erum líka með ríka reynslu frá aðgerðunum 1967. Við skulum gera okkur grein fyrir, hvernig þá var staðið að málum, því að þá getum við einnig gert okkur grein fyrir því, hvernig að þessu yrði staðið, ef núv. valdhafar færu með þau mál, eftir að þessu tímabili lýkur. Ég minni á það, að það voru felldar niður niðurgreiðslurnar, sem voru ákveðnar í sambandi við verðstöðvunina. Ef svo færi nú, að það yrði gert, eftir 1. sept., hvernig liti dæmið þá út? Það er gert ráð fyrir því, að launaskatturinn gefi 357 millj. kr. í tekjur og þá verður maður að gera ráð fyrir því einnig, að hann sé varlega áætlaður, svo sem eins og gefið er til kynna um tekjustofna ríkissjóðs samkv. fjárlagafrv. Þetta er nettó umfram það, sem ríkið sjálft verður að greiða í skattinn. Það er gert ráð fyrir því, að af þessum skatti gangi 245 millj. kr. til niðurgreiðslnanna eða til verðstöðvunarráðstafananna til 1. sept. Þá eru eftir miðað við heilt ár 82 millj. kr.

Þá er gert ráð fyrir því, að hækkun á áfengi og tóbaki gefi ríkissjóði í tekjur miðað við heilt ár 190 millj. kr., og þá áætlun verður eins og þær fyrri að taka með fyrirvara um það, að það sé reiknað með, að það gefi eitthvað meira. Á tímabilinu til 1. sept. eiga að ganga af þessum tekjustofni 143 millj. kr. til verðstöðvunarinnar. Þá er gert ráð fyrir því að spara miðað við það, að vísitalan hefði vaxið, eins og gert er ráð fyrir, að þær 150 millj. kr., sem voru áætlaðar til þeirrar greiðslu á fjárlagafrv., þurfi ekki að nota. Nú skulum við gera ráð fyrir því, að að verði farið eins og að var farið 1967, og þá yrði hætt að greiða niður og þær uppbætur héldust eða verðstöðvunarframkvæmdir, sem nú eru ákveðnar, og þess vegna yrði ríkissjóður að nota 1/3 af þessari upphæð, eða 50 millj. kr., til þess að greiða verðlagsuppbætur á 4 síðustu mánuðum ársins, svo að það væri 100 millj. kr., sem færi í raun og veru í sambandi við þessa verðstöðvun. Þá er gert ráð fyrir því, að spöruð verði útgjöld vegna minni útflutnings af landbúnaðarafurðum, sem nemi 130 millj. kr.

Þegar þessir mismunir eru lagðir saman, þ. e. það, sem ríkissjóður hefur í tekjur umfram það, sem fer til verðstöðvunarinnar Í. sept. og sparar sér á þessu tímabili, þá eru það 359 millj. kr. En ríkisstj. gerir ráð fyrir því, að kostnaður við niðurgreiðslur, sem verða að greiðast beint úr ríkissjóði, umfram það, sem tekjustofnar beint ætlazt til, og sparnaður, sem ég hef þegar greint, séu 256 millj. kr. og ef ríkisstj. réði þessum málum eftir 1. sept. og við byggðum á reynslunni, sem hæstv. forsrh. talaði um, að væri svo dýrmæt, þá hefði ríkissjóður 100 millj. í afgang vegna þessara tekjustofna, þegar upp væri staðið. Þá yrði þróunin sú, ef núv. ríkisstj. ræður áfram, að fram kæmi rökstuðningur fyrir því, að ríkissjóður mætti ekki missa þessa tekjustofna, það yrði að halda þeim óbreyttum, þó að niðurgreiðslur og aðrar dýrtíðarráðstafanir yrðu lagðar til hliðar. Ríkissjóður hefði þörf fyrir þær vegna annarra þarfa. Þannig er hægt að gera þetta dæmi upp, ef við byggjum á fyrri reynslu og framkvæmdum hæstv. ríkisstj. í sambandi við verðstöðvun.

Nú veit ég, að ríkisstj.-menn halda því fram, að það detti engum í hug, að launaskatturinn gildi, eftir að verðstöðvuninni sé hætt. En hver er reynslan? Hver er reynslan af sérsköttunum, sem hæstv. ríkisstj. hefur lagt á til þess að koma tímabundnum málum í framkvæmd? Á ekki á árinu 1971 að greiða skattinn af hægri umferðinni, sem var ákveðinn vegna umferðarbreytingarinnar árið 1969, m. a. vegna þess, að ríkissjóður hirti þennan tekjustofn eitt ár? Og dettur hv. þm. í hug, ef þessir valdhafar færu með málin áfram, að viðhorf þeirra væru breytt frá því, sem margföld reynsla hefur sannað þm. og þjóðinni um framkvæmd þeirra í efnahagsmálum? Þess vegna er það svo, þegar við lítum á þetta mál í heild, að þá er hæstv. ríkisstj. búin í leiðinni að ná í tekjustofn handa ríkissjóði, en er ekki með verðstöðvunarmálið í huga.

Þá vil ég einnig minna á það í sambandi við launaskattinn, að hann var á sínum tíma lagður á sem sérstakur tekjustofn handa byggingarsjóði ríkisins. Nú er hins vegar komið með hann sem almennan tekjustofn, því að þótt hæstv. ríkisstj. tali fyrir því nú, að hann sé bundinn þessu einstæða verkefni, sem hér er til úrlausnar, þá dettur engum hv. þm. í hug, sem vill hugsa þessi mál raunhæft, að hann verði felldur niður, þegar þetta tímabil er liðið.

Þessu skulum við gera okkur grein fyrir, og þannig er þetta mál uppbyggt af hendi hæstv. ríkisstj. sem einn þáttur í skattheimtukerfi hennar, sem er orðið flókið og margslungið. Það er því á engan hátt ástæða til að afgreiða þennan þátt málsins í sambandi við þetta frv. Hér er ekki um neitt annað að ræða en fjárlagaafgreiðslu og á að tengjast henni, en ekki þessu máli. Kostnaður við niðurgreiðslur og fjölskyldubætur er, eins og önnur útgjöld ríkissjóðs, útgjöld, sem eiga að ákvarðast í sambandi við fjárlagaafgreiðslu og þar munum við framsóknarmenn vinna að því máli eins og öðrum fjárlagamálum, en við munum ekki standa að því að samþykkja þennan skatt handa hæstv. ríkisstj. Hér er um sérmál að ræða, og þetta tækifæri er notað til þess að ná í þennan skatt, en ekki hugsað út frá þessu máli, sem hér á að vera til meðferðar. Þess vegna á að taka þetta mál í sambandi við fjárlagaafgreiðsluna, en ekki í sambandi við stöðvun á verðlagi, og þarf ég ekki fleiri orðum að því að eyða, því að reynslan sannar okkur það, hvernig hæstv. ríkisstj. stendur að slíkum málum.

Annað atriði þessa frv. er að fella niður 3 vísitölustig hjá launþegum án bóta. Það er kunnara en frá þurfi að segja og kom fram í ræðu hæstv. forsrh. hér áðan, að það var almennt talið, að launþegum í landinu væri nauðsyn á því að fá réttan hag sinn á árinu 1969, þar sem hér væri orðið sérstakt láglaunasvæði. Þetta gerðist með þeim hætti, að launþegarnir í verkalýðsfélögunum urðu að heyja þriggja vikna verkfall. Eitt aðalatriðið í þessum kjarasamningum var að setja vísitöluna í samband aftur til þess að tryggja launþegana gagnvart verðhækkunum, sem þeir höfðu ill kynni af.

Og hvað gerist svo? Það er einu sinni búið að nota vísitöluna sem mælikvarða, og þá tekur hæstv. ríkisstj. sig til og ætlar að setja lög til þess að brjóta þessa samninga. Það er aðeins einu sinni búið að nota vísitöluna sem mælikvarða og þá er byrjað að brjóta samningana. Er hægt að hugsa sér slík vinnubrögð? Er hægt að hugsa sér það, þegar launþegarnir eru búnir að heyja þriggja vikna verkfall til þess að tryggja kjör sín, að þá skuli ríkisvaldið koma eftir nokkrar vikur og breyta kjarasamningunum með löggjöf? Getur hv. Alþ. sýnt samningagerð svona mikið virðingarleysi? Er hægt að taka svona á málinu? Þetta er annað atriði þessa frv. og meginefni þess.

Hið sama endurtók sig að vísu árið 1968. Þá var búið að gera samninga eftir verkfall um það, að vísitalan kæmi inn í launakerfið á vissu tímabili og færi vaxandi. En áður en þeir komu til fullra framkvæmda, var hæstv. ríkisstj. búin að breyta samningunum með löggjöf í sambandi við gengisbreytinguna 1968. Nú er verið að endurtaka þetta og það aðeins nokkrum vikum eftir að samningarnir voru gerðir. Hér er um stórt mál að ræða, það hvort Alþ. á að viðhafa slík vinnubrögð að ganga á gerða samninga sem einskis virði væru. Hér er um mikið atriði að ræða, sem hv. þm. verða að gera sér grein fyrir. Og ég get lýst því yfir af hálfu Framsfl., að hann mun berjast gegn þessu atriði frv. Hann tekur ekki þátt í því að fara að eyðileggja nýgerða kjarasamninga eða virða samningsréttinn ekki meira en hér er gert.

Þriðja atriði þessa frv. snýr að bændum. Það er smjattað á því í grg. frv., að verðhækkanir þær, sem verða á fóðurbætinum, eigi ekki að fullu að koma inn í verðlagið, eins og lög standa þó til. Það er gert ráð fyrir því, að eftir að bændur landsins eru búnir að lifa eitt mesta grasleysissumar og verða að nota meira af erlendum fóðurbæti en áður hefur verið, og hann er að hækka í verði, þá eigi að svipta þá lagalegum rétti til þess að fá hann inn í verðlagið, eins og gert er ráð fyrir í frv.

Þetta eru þrjú höfuðatriði frv. Ekkert af þessum þremur atriðum mun Framsfl. samþykkja, enda væri það fráleitt í alla staði, ef svo væri gert. Ég vil endurtaka það og undirstrika, að allt, sem lýtur að stöðvun verðbólgu, er fyrir hendi í löggjöf, enda hefur ríkisstj. lýst yfir stöðvun frá 1. nóv. og engin ný löggjöf hefur verið sett. Einn þátturinn er, eins og ég sagði áðan, fjárlagaþáttur, sem á að taka með fjárlagaafgreiðslu, en ekki að fara að reyna að nota þetta til að næla sér í nýja skatta. En það er svo sem í samræmi við fyrri vinnubrögð hæstv, ríkisstj.

Annað atriði, sem ég vildi gera hér að umtalsefni, er meðferð málsins. Í raun og veru hefur hún verið með þeim hætti, að hæstv. ríkisstj. hefur auglýst eftir verðhækkunum. Það er búið að liggja í loftinu í nokkurn tíma, að verðstöðvun væri á næsta leiti, og hæstv. forsrh. gaf það raunverulega upp í sjónvarpsviðtali, að hún mundi verða framkvæmd kringum miðjan nóv. enda hefur það verið svo, að verðhækkanir hafa streymt að svo að segja daglega, og allir þeir, sem hafa haft með sölu á vöru og þjónustu að gera og haft sinnu á, hafa fengið verðhækkanir upp á síðkastið, svo sem lyst þeirra hefur staðið til, og ríkisstofnanirnar hafa ekki verið þar neinir eftirbátar. Hæstv. ríkisstj. var búin að gefa út raunverulega tilkynningu um, að svona mundi fara.

Margir hugsa: Er þetta nú ekki einsdæmi? Er hægt að viðhafa slík vinnubrögð? Það er rétt, það er ekki hægt að viðhafa slík vinnubrögð. En þetta er ekki einsdæmi. Hæstv. ríkisstj. hefur viðhaft slík vinnubrögð áður. Hvernig var það haustið 1968? Þá var í raun og veru gefið upp í ágúst eða sept., að gengisbreyting yrði gerð á haustinu. Og hver varð afleiðingin? Hún varð sú, að spariféð streymdi út úr bönkunum, það varð algert kaupæði og gjaldeyrissjóðirnir voru allir uppétnir, vegna þess að þegar ríkisstj. setti 20% skattinn á allan innflutning til landsins, þá var gefin út tilkynning um það, hvað í vændum væri. Þannig er þetta ekki einsdæmi, sem hér er að gerast, heldur sömu vinnubrögð hæstv. ríkisstj. og verið hafa í sambandi við afgreiðslu hennar á efnahagsmálum, enda ekki kannske undarlegt, að hún kunni orðið þar til verka, sem sýnir sig, að er orðið nokkuð á víxl, þegar slíkar ráðstafanir eru í vændum.

Það er rétt í sambandi við þetta mál, sem er nú til umr., að minna á, hvernig hæstv. ríkisstj. hefur dyggilega fylgt verðbólgustefnu frá upphafi svo að segja, þó að hún gæfi út sínar yfirlýsingar um það, að ef ekki tækist að stöðva verðbólguna, væri allt annað unnið fyrir gýg. Það hefur nú komið í ljós, hvernig hæstv. ríkisstj. hefur tekizt til. Þróunin hefur verið sú, að verðlagið hækkaði um 250% á ártugnum 1960–1970, sem er tvöfalt meira en næsta áratug á undan, enda hefur kerfi og framkvæmd hæstv. ríkisstj. í efnahagsmálum einkennzt af þessu. Það hefur sífellt verið aukin skattheimta, bæði á launþega og atvinnuvegina, sem þeir hafa svo orðið að sækja aftur í gegnum verðhækkanir. Það er búið að gera fjórar gengisbreytingar á þessum síðasta áratug og hinar síðustu með 11 mánaða millibili. Söluskatturinn er, eins og oft hefur verið á bent, bæði nú og áður fyrr, einn mesti verðbólgugjafi, sem hægt er að hugsa sér, þar sem hann leggst á almennar neyzluvörur og er nú orðinn 11%, og það hefði verið hyggilegra fyrir hæstv. ríkisstj., ef hún hefði raunverulega viljað aðgerðir gegn verðbólgu, að hverfa að því ráði, sem við lögðum til á síðasta þingi í sambandi við söluskattinn, í stað hækkana, sem gerðar voru.

Stefna hæstv. ríkisstj. í landbúnaðarmálum einkennist af verðbólguþróun hennar. Þar hefur stefnan verið sú, að það skipti engu máli, þótt framleiðslukostnaðurinn ykist, því að það kæmi aftur í verðlagið. Við höfum oft bent á það, framsóknarmenn hér á hv. Alþ., hve fráleit þessi stefna væri. Það bæri nauðsyn til að vinna að því að draga úr kostnaði við landbúnaðarframleiðsluna eins og auðið væri. En það er ekki gert með því að leggja sérstakan skatt á bændur. Það er ekki gert með því að gera stofnlánin bæði óhagkvæmari, hvað lánstíma snertir, og dýrari. Það er ekki gert með því, að allir kostnaðarliðir við framleiðsluna aukist eins og frekast er hægt, eins og hefur verið stefna síðustu ára. Þess vegna hefur svo farið, að landbúnaðarframleiðslan er orðin svo dýr, að það hefur dregið úr sölunni innanlands. Þessi stefna er alröng, eins og efnahagsstefna hæstv. ríkisstj. í heild.

Sama er að segja um stjórnleysið í fjárfestingunni. Ekki hefur það orðið til þess að draga úr verðbólgu, nema síður sé. Hér hafa verið byggð hús og það stórhýsi, en síðar hefur þurft að leita að verkefnum handa húsunum, eins og gerðist hér við stórhýsi inn við Suðurlandsbraut og fleiri. Þau hafa verið byggð alveg án þess að vitað væri raunverulega um tilganginn, og síðan er farið að leita að verkefnunum. Þetta er ekki lítill þáttur í verðbólgustefnu hæstv. ríkisstj. og hefur ekki verkað lítið á verðbólguna á síðari árum.

Eins og ég vék að í upphafi máls míns, hefur hæstv. ríkisstj. haft uppi tilburði um verðstöðvun. Skyldi það vera tilviljun ein, að slíkir tilburðir eru alltaf tengdir við kosningar? Hæstv. forsrh. vék að því áðan, að slíkt mætti ekki vera, það yrði að hugsa um verðbólguna oftar en í sambandi við kosningar, en hvernig stendur á því, að hæstv. núv. stjórnarflokkar hafa gleymt verðbólgu nema rétt fyrir kosningar? Það er engin tilviljun, að þannig er að farið. Hæstv. ríkisstj. hefur nefnilega sýnt það, að hún hefur ekki áhuga á því að draga úr verðbólgu. Öll stefna hennar er verðbólgustefna. Hins vegar er hún hrædd við verðbólguna, þegar líður að kosningum, og þess vegna er hlaupið til og sett lög, sem eru skírð verðstöðvunarlög. Og eitt af því er það lagafrv., sem hér er nú til umr.

Hver voru tildrögin til verðstöðvunar 1966 eða aðdragandinn? Muna ekki hv. þm. eftir því, að á fyrri hluta ársins 1966 var verið að keppast við það af hálfu ríkisstj. að fella niður niðurgreiðslur af ýmsum vörum, sem áður höfðu verið niðurgreiddar? Það var talið, að þetta sakaði ekki, vegna þess að það kæmi fram í vísitölunni og launþegarnir fengju það bætt, þótt hækkanir yrðu. Þess vegna voru felldar niður niðurgreiðslur, svo að nokkrum tugum millj. nam. En seinni hluta ársins 1966 var blaðinu snúið við. Þá var ákveðið að auka niðurgreiðslurnar að miklum mun, og þá taldi hæstv. ríkisstj. hagkvæmt að fara að tala um verðstöðvun, og þá hafði ríkissjóður til peninga til þess að borga það, þó að hann fyrri hluta ársins yrði að draga allt til sín, því að hann hafði ekki efni á niðurgreiðslum.

Þannig var farið út í kosningarnar 1967 með yfirlýsingum um það, að þetta yrði varanleg verðstöðvun. Það var sögð svartsýni hjá Framsfl. að halda því fram, að hér væri um víxla að ræða, sem framtíðin yrði að borga. En þetta var fásinna ein, enda var verðfall á afurðum erlendis og minnkandi afli. Og svo voru ótugtar framsóknarmenn að reyna að sverta þetta og tala um, að þetta væri ekki raunhæft eða þetta væri bundið við kosningarnar, en hæstv. ríkisstj. sagði, að þetta væri allt af einlægni og heiðarleika og upp á eitthvað fleira, sem hæstv. forsrh. talaði hér um áðan. Það var verið að vinna að þessum málum þannig af þeirra hálfu, en vondu mennirnir í Framsókn hugsuðu nú öðruvísi.

En hvað gerðist svo? Kosningunum var lokið í júlí og í ágúst kom svo hæstv. viðskmrh. í sjónvarpið og sagði frá erfiðleikunum. Þetta hefði nefnilega reynzt miklu verra en þeir höfðu ætlað, jafnsnjallir og vissir og þeir voru, með vottorð frá seðlabankastjóra og allt þess háttar upp á framtíðina. Það var eitt, sem hæstv. viðskmrh. sagði og aðeins eitt: Gengisbreyting er ekki rétta leiðin. Gengisbreyting er ekki sú leið, sem farin verður, hún er ekki rétta leiðin. Það eitt fékk þjóðin út úr þessu samtali, að gengisbreyting væri ekki rétta leiðin, og þess vegna yrði hún ekki farin, en vandinn væri mikill.

Svo kom framhaldið. Í nóv. var yfirlýsingin frá í ágúst gleymd. Þá var gengisbreyting eina rétta leiðin, og ef hv. þm. færu nú að halda öðru fram, t. d. að það væri til önnur stefna eða önnur leið, þá væru það skrýtnir menn, því ríkisstj. hefði ákveðið, að þetta væri rétta leiðin, og þannig yrði það að vera. Þótt hún hefði tveim mánuðum áður gefið út yfirlýsingu um, að þetta kæmi aldrei til greina. Það skipti ekki máli, því að það er rétt, sem þeir segja í dag, þótt þeir hafi sagt annað í gær.

En hvað tekur við, eftir að verðstöðvunartímabilinu lýkur? Þá er rétt að rifja upp fyrir hæstv. ráðh. og öðrum hv. þm., hvað tók við, eftir að verðstöðvunartímabilinu lauk árið 1967. Það var gengisbreytingin í nóv. það ár og fjárlagaafgreiðslan í des. Þar var gefið út fyrirheit um það, að tollar yrðu lækkaðir um 250 millj. kr. Þetta væri hægt að gera vegna gengisbreytingarinnar. Ríkissjóður hefði svo miklu hærri tekjur af þessum nýju tekjustofnum, að þetta yrði gert, en það yrði gert eftir áramótin. Svo komu áramótin og þá kom janúar, en hvað gerðist þá? Það var tekið upp uppbótakerfi. Það var ákveðið að greiða atvinnuvegunum til viðbótar við gengisbreytinguna 320 millj. kr. Það var tekið sérstaklega fram við gengisbreytinguna 1967, að hún væri óvenjulega vel undirbúin og allt athugað langt fram í tímann. En þetta „langt fram í tímann“ náði ekki fram yfir áramót, því að til þess að hægt væri að koma flotanum af stað þurfti að ákveða þetta í janúar. Svo kom febrúarmánuður, og hvað gerðist þá? Þá kom frv. um tollalækkunina, það voru ekki 250 millj., eins og heitið hafði verið, heldur 160, eða 150–160. Þá hafði ríkissjóður þörf fyrir meira fjármagn en reiknað var með, í des. og þess vegna varð að breyta þessu. Svo kom marzmánuður 1968. Þá var ákveðið að hækka verð á áfengi og tóbaki vegna þarfa ríkissjóðs. Það var ekki hægt að hugsa sér, að tekjur ríkissjóðs stæðu undir útgjöldum, nema þessar aðgerðir væru gerðar.

En það var gert meira í marzmánuði. Þá kom frv. um frestun á útgjöldum og sparnað. M. a. átti að spara í risnu hjá ríkisstj. um 200 þús., en raunin varð nú sú, að hún varð aldrei hærri en þetta ár, þegar reikningurinn kom. Það er nú önnur saga. En það var ákveðið að fresta því að greiða til ýmissa framkvæmda eins og byggingar Landsspítalans, menntaskólanna, Kennaraskólans og fleiri slíkra stofnana og taka lán til þess að mæta þessu, því að framkvæmdunum var nú ekki hægt að fresta.

Þannig var til viðbótar þessari tekjuöflun ákveðið að fella niður og fresta ýmsum útgjöldum, vegna þess að ríkissjóður þurfti sitt.

Og svo kom aprílmánuður, og hvað gerðist þá? Þá var ákveðið að hækka skatta um 190 millj. Þetta voru skattar, sem áttu að ganga í vegasjóð, og enginn gat verið á móti því að fara að hækka þá eða fá aukið fé í vegasjóð, enda var það nú svo, að gengislækkunin hafði komið illa við þann sjóð. Það voru hins vegar skrýtnir menn, sem voru að tala um það, að það hefði gleymzt að láta ríkissjóð greiða þessar 47 millj., sem heitið var, þegar vegalög voru afgr, og hæstv. samgmrh. gaf út sérstaka yfirlýsingu um, að það yrði aldrei minna en það. En þá var ákveðið, að auka skyldi þennan tekjustofn um 190 millj. kr.

Og svo kom maí og júní, og hvað gerðist þá? Þá var síldveiðiflotinn stopp, og þá skrifaði bara sjútvmrh. upp á víxil um það að greiða kostnaðinn. Hann var óútfylltur víxillinn, en við borgum hann með haustinu. Það varð að gera þetta, til þess að síldveiðiflotinn kæmist í gang eða athafnaði sig á eðlilegan hátt þrátt fyrir gengisbreytinguna og verðstöðvunina, sem gilti árið áður.

En það var ekki liðið þetta ár. Svo kom júlí og ágúst, og hvað gerðist þá? Þá sögðu forsvarsmenn frystihúsa í landinu, að þau mundu stöðvast, nema þau fengju aukna aðstoð, og þá ákvað ríkisstj. að bæta nú við, það voru nú ekki nema 20 millj. í það skiptið, til þess að ekki yrði stöðvun hjá öllum frystihúsum landsins. Málið yrði svo síðar tekið til alvarlegrar framtíðarathugunar.

Svo kom september, og þá var nú liðið ár, frá því hæstv. viðskmrh. gaf út yfirlýsinguna um erfiðleikana, sem ekki yrði mætt með gengisbreytingu, og hvað gerðist þá? Þá var ákveðinn 20% innflutningstollur af öllum vörum til landsins og ferðagjaldeyri. Það var gert ráð fyrir, að þetta væri um 600 millj. kr. biti, sem þarna væri fenginn, og það var ekki hægt að bíða einn dag, því að allt var að fara úr böndunum. Þetta var í framhaldi af verðstöðvuninni, aðeins ári eftir að hún var leyfð.

Svo kom október og þá var lagt fram fjárlagafrv. Á því var sá galli, að botninn var ekki einu sinni finnanlegur í Borgarfirði. Hann var hvergi finnanlegur, og það var sagt frá því í grg. frv., að það yrði að bíða seinni tíma, hvernig ætti að finna botninn.

Og svo kom nóvembermánuður. Og þá var tekið til hendinni, því að þá var gerð gengisbreyting, stórfelldari en jafnvel nokkru sinni fyrr. Þá var ekki liðið fullt ár, frá því hæstv. ríkisstj. hafði gert gengisbreytinguna, sem hún var búin að sverja fyrir, og allt voru þetta afleiðingar framhalds verðstöðvunarinnar 1967, sem var varanleg að dómi ríkisstj.

Og hver varð svo afleiðingin af þessu öllu saman? Afleiðingin varð sú, að hér var atvinnuleysi, sem ekki hafði þekkzt hér um langt árabil, og það verulegt atvinnuleysi. Það var landflótti. Fólk fór úr landi í atvinnuleit, sem var algerlega óþekkt, og það hefur ekki allt komið aftur enn. Þá var því lýst yfir af stjórnarherrum og fleirum, sem hafa rætt þessi mál, að Ísland tilheyrði láglaunasvæði, enda var í sambandi við gengisbreytinguna 1968 lækkað kaup og gerðar þær ráðstafanir, að fólk hafði lægri tekjur en það hafði áður haft. Ofan á þetta bættist svo það, að ríkissjóður hefur verið rekinn með halla þrjú síðustu ár. Þegar hæstv. forsrh. spyr, hvað taki við, þegar verðstöðvuninni lýkur, og svarið er ekki ljóst, þá geta menn gert sér grein fyrir því, hvað taki við, þegar þessari verðstöðvun lýkur, ef sömu stefnu verður haldið. Það þarf enginn að fara í grafgötur með það, að sagan muni þar endurtaka sig.

Og það er fleira, sem kemur til greina í sambandi við þessi mál, en ég hef hér lýst. Hver hefur orðið þróun verðlagsmála, síðan verðstöðvuninni lauk? Þróun verðlagsmála, síðan verðstöðvun var ákveðin 1966, er sú, að hækkunin er um 67 stig á þessu tímabili, enda hefur vel verið að unnið með allar verðhækkanir, og sýnir sig nú, hvert komið er um þessi mál, því að þetta frv., sem að vísu er endurtekning á fyrri sýndarmennsku, er þó fram komið, vegna þess að hæstv. ríkisstj. er hrædd við sína stefnu, sín eigin verk og hvert hún stefnir.

Eins og ég gat um hér fyrr í ræðu minni, þá var verðstöðvunin svokallaða 1967 rökstudd með því, að verðlag á erlendum mörkuðum hefði lækkað. Ekki er hægt að nota þessa röksemd núna, því að nú er verðlag hærra en nokkru sinni fyrr. Þrátt fyrir það er nú svo komið, að hér ber nauðsyn til að gera ráðstafanir, og átti að vera búið að því fyrr, eins og ég hef áður sagt. Því er svo við að bæta, að hér á landi hafa launakjör verið lélegri en annars staðar, þangað til nú á þessu sumri, að það var lagað.

Ástæðan til þess, að við þurfum alltaf að vera að gera þessar ráðstafanir í efnahagsmálum, sem viðreisnin ætlaði sér að gera í eitt skipti fyrir öll í upphafi valdatímabilsins, er röng stjórnarstefna. Ástæðan er engin önnur en röng stjórnarstefna. Og þessi sýndarmennska og þetta auglýsingaskrum, sem sett eru upp við hverjar kosningar, staðfesta þessa röngu stjórnarstefnu, sem hæstv. ríkisstj. hefur stuðzt við og framkvæmt. Það er verið að fá sér tíma til þess að fresta aðgerðum og leyna ástandi fram yfir kosningar. Það er framhald af því, sem gert var 1959 og 1967.

Eins og ég tók fram í upphafi máls míns, þá styður Framsfl. verðstöðvun, enda hefur það alltaf verið stefna hans, að gæta yrði hófs og halda ætti uppi þrotlausri baráttu við verðbólgu. Hann hefur náð þar meiri árangri en aðrir flokkar, eins og ég sýndi fram á í upphafi máls míns. En hann styður ekki nýja skattaálagningu. Hann tekur ekki þátt í því að brjóta nýgerða vinnusamninga, og hann tekur heldur ekki þátt í því að svipta bændur því, sem þeim er tryggt samkv. lögum. Framsfl. mun hins vegar við afgreiðslu fjárl. meta fjárþörf ríkissjóðs í heild, þegar hún er fyrir, enda verði það gert með þeim hætti, að hægt sé að meta hana, en ekki með óljósu orðalagi og tilkynningum um það, að skatttekjustofnarnir gefi miklu meira en ráð er fyrir gert í áætluninni, eins og kemur fram í grg. þessa frv.

Það er aðeins eitt, sem getur komið að gagni gagnvart verðbólgu. Það er breytt stefna í efnahagsmálum. Aðeins hún getur komið að liði gagnvart verðbólgu. Þar þýðir ekki nein sýndarmennska eða skrum í sambandi við kosningaundirbúning, eins og hæstv. ríkisstj. hefur stundað. Þar þýðir ekki annað en það að taka á verkefnunum með raunhæfum hætti. Að því vill Framsfl. vinna og gifta þjóðarinnar í efnahagsmálum er undir því komin, að aðrir fari með mál þjóðarinnar, þegar þessu tímabili lýkur, sem hér er gert ráð fyrir og hæstv. ríkisstj. kallar verðstöðvunartímabil.