14.12.1970
Neðri deild: 30. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 680 í B-deild Alþingistíðinda. (499)

6. mál, Lífeyrissjóður bænda

Stefán Valgeirsson:

Herra forseti. Eins og ég gat um við 1. umr. þessa máls, tel ég, að gera þyrfti ýmsar breytingar á þessu frv., eigi það að ná þeim tilgangi, sem ætlazt mun til. En þegar þetta mál var til umr. í hv. landbn., kom í ljós, að ekki var meiri hl. fyrir því að gera neinar breytingar á frv. og því sýnt, að þær mundu ekki ná fram að ganga hér á hv. Alþ. í þetta sinn. Þar sem hér er um að ræða gamalt baráttumál bændastéttarinnar, þá vildi ég ekki verða til þess að tefja framgang málsins, því að það þarf að lögfesta þetta frv., áður en þinghlé verður gert fyrir jólin, ef það á að koma til framkvæmda, eins og er í ráði, 1. jan. n. k. Af þessum ástæðum tók ég þann kost að flytja enga brtt., þó að mér sé hins vegar ljóst, að ýmsir agnúar eru á þessu máli eins og það hefur verið fram borið — agnúar, sem þarf að taka rækilega til athugunar á næsta þingi og reyna að fá samstöðu um að sníða af. En þó að ég ekki flytji neinar brtt. við frv., tel ég rétt að skýra nánara í stuttu máli, hverju ég tel, að þurfi fyrst og fremst að breyta.

Ég tel það alranga stefnu að leggja gjald á búvörur. Við hljótum að stefna að því, að búvörur verði á sem hagstæðustu verði til neytendanna, og leiðin til þess er ekki að hlaða ýmiss konar gjöldum á þessar nauðsynlegu neyzluvörur almennings, heldur hið gagnstæða. Ef við eigum að viðhalda þessu margbrotna lífeyriskerfi, sem er að komast á í landinu — sem ég tel nú í raun og veru vafasamt, að sé rétta leiðin í þessum málum — þá tel ég, að þetta mótframlag eigi að koma beint úr ríkissjóði, eins og t. d. er gert í Finnlandi. Um þetta atriði væri hægt að segja margt, en ég geri það ekki að þessu sinni, en þó vil ég segja það, að það getur orðið mjög tvísýnt, að þetta gjald, sem er sett ofan á búvöruverðið, skili sér nema þá að einhverju leyti frá neytendunum og komi því niður á bændunum sjálfum að einhverjum hluta a. m. k. Það gæti a. m. k. farið svo. Þessi verðlagsmál okkar eru í raun og veru komin þannig, og það mun koma betur í ljós, þegar verðstöðvunarstíflan brestur að kosningum loknum.

Ég gat um það við 1. umr. málsins, að þessi 4%, sem reiknað er með, að bændur í raun og veru borgi af þeim tekjum, sem þeim eru ætlaðar samkv. verðlagsgrundvellinum, verði þeim mjög þung í skauti, vegna þess, að þeir hafa ekki náð þessum tekjum, eins og ég hef áður komið inn á hér og þarf ekki að endurtaka nú. Og sérstaklega verður þetta erfitt á árunum 1974–1975, vegna þess að á þeim árum verða iðgjöldin komin í hámark. Þau hækka á fjórum árum, en stofnlánasjóðsgjaldið aftur á móti lækkar ekki fyrr en á árinu 1976 miðað við það frv., sem liggur hér fyrir Alþ. nú.

Það eru ýmis fleiri atriði, sem ég tel, að þurfi að athuga.

Ég minnist þess, að hér liggur fyrir hv. d. frv. um breytingu á l. um eftirlaun til aldraðra manna í stéttarfélögum. Í því er ákvæði um það, að greiðslan skuli aldrei vera minni en 2 þús. kr. á mánuði. Nú er þetta mál að vísu komið aðeins til n., en ég nefni þetta vegna þess, að í ljós kemur, að miðað við þetta frv. eru þessar greiðslur, sem menn fá eftir 10 ára réttindatíma, ekki nema rúmar 16 þús. kr. –16.200 kr. á ókvæntan mann, en um 20 þús. kr. á kvæntan mann, þannig að vegna þessa frv., sem hér liggur fyrir um hækkun til aldraðra í verkalýðsfélögunum, þyrfti líka að endurskoða einmitt þessar greiðslur, sem hér er gert ráð fyrir miðað við þetta frv. óbreytt.

Hér í 5. gr. er gert ráð fyrir því, að sjóðsstjórninni sé heimilt að veita lán til íbúðabygginga fyrir sjóðsfélaga gegn veðrétti í fasteigninni og enn fremur segir svo: „Heimilt er og sjóðsstjórninni í samráði við Stofnlánadeild landbúnaðarins að lána fé til vinnslustöðva landbúnaðarins, gróðurhúsa . . .“ o. s. frv. Ég hefði talið, að það hefði verið eðlilegra, að það væri stofnlánadeildin, sem fengi þessa fjármuni þá að láni, og hún lánaði þetta fjármagn, fremur en sjóðsstjórninni sé heimilað að lána til sjóðsfélaganna, vegna þess að stofnlánadeildin lánar eingöngu til þeirra manna, sem verða þarna í lífeyrissjóðnum. Að vísu gegnir aftur öðru máli með vinnslustöðvarnar, en þó tel ég, að það hefði verið rétt, að stofnlánadeildin sæi um allar lánveitingar, en sjóðsstjórnin ekki.

Eins og hv. síðasti ræðumaður, hv. þm. Jónas Pétursson, gat um áðan, er eitt atriði, sem er mjög óréttlátt, og það er það, að þeir bændur, sem hafa hætt á árinu 1967 eða áður, fá ekki aðild að þessum lífeyrissjóði og fá ekki greiðslu eftir þessum l. Þetta mál verður að athuga, og í raun og veru — eins og hæstv. 2. landsk. þm. sagði hér við 1. umr. þessa máls — mun vera alveg það sama uppi á teningnum í sambandi við þá, sem eiga að fá greiðslur samkv. l. um eftirlaun aldraðra í stéttarfélögunum. Ég hefði talið, að þetta mál þyrfti að athuga sem allra fyrst og reyna að finna sameiginlega lausn á þessu máli, og ég verð að segja það, að mér finnst, að það kæmi helzt til mála að breyta l. um almennar tryggingar, þannig að þeir, sem ekki fá greiðslu úr lífeyrissjóðum, fái hærri ellilífeyri en aðrir. Þar með væri leystur í einu lagi vandi allra þeirra, sem verða þarna á milli. Annars gæti ég trúað því, að það komi í ljós, að það muni verða svo margir agnúar á framkvæmdinni í sambandi við þessa sérsjóði — lífeyrissjóði, að það væri það raunhæfasta að hækka eingöngu elli- og örorkulífeyri og hafa hann þannig, að menn gætu lifað á því, en þyrftu ekki að tryggja sig á þennan hátt, eins og hér er gert ráð fyrir í ýmsum öðrum lífeyrissjóðum.