16.12.1970
Neðri deild: 35. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 703 í B-deild Alþingistíðinda. (509)

6. mál, Lífeyrissjóður bænda

Vilhjálmur Hjálmarsson:

Herra forseti. Ræða hv. 9. þm. Reykv. við umr. í gær gaf mér tilefni til að skýra örlítið nánar mitt viðhorf. Hv. þm. virtist eiginlega gera það að aðalatriði fannst mér, að réttast væri að láta bíða að setja nokkur lög um þetta mál, þangað til reynsla væri fengin! En ég kem því satt að setja engan veginn heim og saman, því að ég held, að reynsla fáist ekki í þessu tilliti nema með því að setja löggjöfina og framkvæma hana.

Það er rétt, sem hv. þm. sagði. Ég held, að það hafi komið fram í minni ræðu líka, að það er vissulega töluverður vandi að móta lífeyrissjóð fyrir bændur, vegna þess að í ýmsum atriðum er þar um sérstöðu að ræða. En það hefur heldur ekki verið flanað að neinu í þessu máli, eins og ég gerði rækilega grein fyrir í gær, heldur hefur það verið undirbúið mjög rækilega og langur tími tekinn í að meðhöndla það bæði á vegum samtaka bændanna og einnig í n. undir forystu mjög kunns og reynds tryggingafræðings. Ég hef kannske ekki skýrt það nógu vel, hvað ég meinti með því, þegar ég sagði, að lífeyrissjóður bændanna væri undirbyggður á líkan hátt og algengast er. Ég átti þar auðvitað við meginatriðin, þ. e. að fjármuna til þessara aðgerða — til sjóðsmyndunarinnar — er aflað á hliðstæðan hátt og hjá öðrum sjóðum, til sjóðsins eiga að greiða þeir tryggðu og mótaðili þeirra og svo ríkissjóður.

Það er rétt, sem kom fram í ræðu þessa hv. þm. og fleiri ræðum hér, að þessi sjóður er ekki verðtryggður fremur en sumir aðrir lífeyrissjóðir. Það hefði auðvitað verið æskilegt, að hann hefði verið það, og það er ýmislegt fleira í þessu sambandi, sem við úr bændastétt hefðum gjarnan viljað hafa á annan veg. Við hefðum t. d. viljað láta skattinn til stofnlánadeildarinnar falla niður jafnskjótt og iðgjöld leggjast á, en hann gerir það nú ekki. Og það var upphaflega okkar ósk, að allir gætu fengið jafnan lífeyri, en svo er ekki samkv. þessu frv., þó að réttindin séu ekki að öllu í samræmi við það, sem greitt er í sjóðinn, það er nokkuð jafnað út — þá hafa þó ekki allir jafnan lífeyri. Það hefði líka verið æskilegt, að ríkissjóður hefði greitt allt mótframlagið — einnig það, sem neytendum er ætlað að greiða — og þá í þeim tilgangi að halda niðri tilkostnaði við framleiðsluna og þar með vöruverðinu á líkan hátt eða hliðstætt því, sem nú er gert í mjög ríkum mæli eftir síðustu ákvarðanir um niðurgreiðslur.

Og það eru auðvitað fleiri atriði í þessu frv., sem ég hefði getað hugsað mér á annan veg. En það hefur orðið samkomulag um málið, eins og það liggur hér fyrir, milli forsvarsmanna bænda og ríkisstj., sem flytur málið hér á þingi sem sitt frv., og ég tel, eins og ég tók fram í gær, tvímælalaust rétt að fara á flot með málið svona. Ég þarf ekki að taka fram, — það leiðir af sjálfu sér, að það eiga auðvitað allir rétt til þess síðar að leggja til breytingar á þessu kerfi. Það leiðir alveg af sjálfu sér. Ég vil aðeins vekja athygli á því, að þegar talað hefur verið hér í umr. um þetta mál um 4% og 6% framlög, þá er þar miðað við launalið verðlagsgrundvallarins, en þetta þýðir aftur í prósentum á framleiðsluna í heild um 1.5 og 1.8%. Það er ekki hægt að segja um það nákvæmlega, en það er svona nálægt því.

Það kom fram í ræðu hv. 9. þm. Reykv. í gær, að hann teldi, að bændur væru ekki aflögufærir í byrjun sinnar starfsævi eða framan af henni og gætu ekki greitt til lífeyrissjóðanna. Þá þyrftu þeir að byggja upp sína aðstöðu á margan hátt. Ég held, að þetta hljóti að vera ákaflega líkt með aðrar þjóðfélagsstéttir. Ég hef sjálfur verið vitni að því hér, eins og við vafalaust allir þm., hverjir erfiðleikar það eru fyrir ungt fólk í bæjum og þéttbýli að byggja upp heimili sín og koma sér upp íbúðum og ég hugsa að þetta sé nokkuð líkt alls staðar. Ungir menn leika sér heldur ekkert að því að koma sér fyrir í þéttbýlinu. Það kom einnig fram í ræðu þessa hv. þm., að þegar bændur aftur á móti stæðu upp frá búskap á efri árum, væru þeir yfirleitt orðnir efnaðir menn, gætu selt sínar fasteignir fyrir góðan pening og keypt sér íbúðir, þar sem þá lysti, og þeim væri ekki neinn vandi á höndum með framfærslu það sem eftir væri ævinnar. Það er vonandi, að þetta sé rétt um einhvern hluta bændastéttarinnar. En vitanlega er þetta fjarskalega misjafnt með bændur alveg eins og allar aðrar þjóðfélagsstéttir, a. m. k. hvað varðar allar þær lægra launuðu, er þetta ákaflega misjafnt, eins og gengur. Og þar fyrir utan þá er það nú svo a. m. k. víða um landið, að það er mjög erfitt um vik að losa þá fjármuni, sem í fasteignum eru fastir, þ. e. að koma fasteignunum í verð, svo að ég held, að það sé ósköp hæpið að halda því fram, að bændur séu svo vel settir, þegar þeir taka að fullorðnast, að þeim sé enginn vandi á höndum og þess vegna engin ástæða fyrir þá að vilja byggja upp sinn lífeyrissjóð. Og ég held, að þessi atriði bæði séu þannig vaxin, að þau geti á engan hátt ráðið úrslitum um það, hvort bændur leggja út í að byggja upp sinn lífeyrissjóð eður ei.

Meginatriðið í þessu máli, held ég, að sé þetta, að bændur vilja ekki standa utan við, þegar nær allar aðrar stéttir byggja upp lífeyrissjóði sína og fá til þess eins og ég hef þegar vikið að, auk eigin framlaga stórar fjárfúlgur frá mótaðila og úr ríkissjóði. Bændur telja sig hafa full not bæði fyrir trygginguna sjálfa og einnig fyrir þá sjóði, sem myndast við þessa tryggingarstarfsemi eins og aðra og ávaxtaðir verða að sjálfsögðu fyrst og fremst í þágu sjóðfélaganna sjálfra víðs vegar um landið á ýmsum stöðum og með ýmsu móti eftir því, sem hentast þykir hverju sinni. Þetta vildi ég láta koma fram.