16.12.1970
Neðri deild: 35. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 709 í B-deild Alþingistíðinda. (511)

6. mál, Lífeyrissjóður bænda

Stefán Valgeirsson:

Herra forseti. Ég ætla ekki að fara að lengja þessar umr. Og þó að ég verði að segja það, að sumt af því, sem hv. 3. þm. Norðurl. v. sagði, væri að vissu leyti rétt athugað, þá var flug hans það hátt, að ég held, að hann hafi aldrei í raun og veru séð öll atriðin í þessu máli. Það má segja það, að hann hafi komið nær jörðinni núna einmitt í dag miðað við a. m. k. hans fyrstu ræðu, því að þá talaði hann um 10–11%, en nú er hann kominn þó ofan í 4.13%. En sannleikurinn er sá, að þetta munar ekki miklu hjá hv. þm. í reikningslistinni. Þetta munu verða, ef verðlagið væri alveg óbreytt eftir fjögur ár, um 4%, en núna fyrsta árið verður þetta 0.4%, sem bændur þurfa að borga — 0.4% fyrsta árið, 1/4 af því, sem iðgjaldið verður, þegar það er orðið fullt. Ég skildi aldrei hv. 9. þm. Reykv. í gær, þegar hann var að tala um, að það hefði verið hægt að prófa þessi mál án þess að lögfesta þau. Hvernig er hægt að prófa þessi mál án þess að lögfesta þau? Hvernig er hægt að stofna lífeyrissjóð öðruvísi en að lögfesta hann? Ég segi fyrir mig, að ég botna nú bara ekki í þessu. En hefur hv. þm., Björn Pálsson, athugað það, hvernig komið er fyrir bændastéttinni? Hefur hann athugað það einnig, hv. þm., hvernig verður, þegar kosningastíflan brestur næsta haust, og frammi fyrir hvaða vanda bændastéttin stendur þá? Eða ætlar Björn Pálsson að horfa framan í sína kjósendur og segja: Ég greiddi atkv. á móti þessu máli, til þess að aldraðir bændur fengju þó ekki þessa hungurlús, sem þetta frv. gerir ráð fyrir? Ég held nefnilega, að það þurfi að taka öll þessi mál til endurskoðunar, og það skiptir kannske ekki svo miklu máli með þetta miðað við allt annað.

Ég held, að við séum alveg á rangri leið í þessum lífeyrissjóðamálum. Ég hef alltaf haldið það, að það væri réttast, að það væri lífeyrissjóður fyrir alla landsmenn, og ég er alveg sannfærður um, að það er leiðin. En ef við gerum ekki eins og aðrir, þá verður það fjarlægara takmark. Ég held, að einmitt með því að lögfesta þetta séum við að nálgast það takmark, að til verði lífeyrissjóður fyrir alla landsmenn. Og það er fyrst og fremst ástæðan fyrir því, að ég stend með þessu frv. En mér er alveg ljós vandinn, og ég tók það fram við 1. umr. þessa máls, að bændurnir væru ekki færir um að borga þessi iðgjöld og það væri röng stefna — það væri algerlega röng stefna — að bæta þessu ofan á búvöruverðið þetta yrði að koma öðruvísi. Ég tók það fram. Ég veit þá betur um það en hv. þm., Björn Pálsson, hvernig efnahagur bænda er. Þeim veitir ekki af í ellinni að fá það, sem þetta frv. gerir ráð fyrir, og þó meira væri, a. m. k. ef sú stefna á að verða áfram, sem verið hefur um hríð í landbúnaðarmálum.

Ég er ekki að styðja þetta mál til þess að veiða út á það atkv., og Björn Pálsson, hv. þm., fiskar áreiðanlega ekki atkv. í sínu kjördæmi með því að vera á móti því. Það skal ég fullvissa hann um. En ég held bara, að flug hans í þessum umr. hafi verið það hátt, að hann hafi alls ekki séð málið. (Gripið fram í.) Hann þarf a. m. k. að sjá niður úr skýjunum, en það held ég, að hv. þm. hafi ekki gert.