16.12.1970
Neðri deild: 35. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 711 í B-deild Alþingistíðinda. (513)

6. mál, Lífeyrissjóður bænda

Vilhjálmur Hjálmarsson:

Herra forseti. Það er aðeins örstutt aths. Það situr ekki á mér að finna að því, þó að hér séu fluttir skemmtiþættir, úr því að við erum svo heppnir að hafa hér í þingsölum menn, sem eru hlutgengir í skemmtiiðnaðinum. En aftur á móti frábið ég mér allar ákúrur frá hv. 3. þm. Norðurl. v., þó að áheyrendum fækki, þegar ég tala, því að ég er svo miklu minna á því sviði en hann. En það er skrýtinn málflutningurinn hjá honum og ég verð að eyða einni mínútu í að gera aths. við það, sem hann sagði hér síðast, um leið og hann fór úr ræðustóli, þ. e. að það væri ekki verið að afnema skattinn til bændahallarinnar, þó að búið væri að byggja höllina. Nú er skatturinn niður felldur. (BP: Ha!) Og þessi hv. þm. er ekki betur inni í málefnum bændasamtakanna en þetta, að hann bara hváir, þegar ég greini honum frá því, að skatturinn til bændahallarinnar hafi verið felldur niður. (Gripið fram í.)

Það er fleira í málflutningi hv. þm., sem er líkt og þetta. Mér finnst t. d. alveg rétt að slá niður þær fullyrðingar hans, að þetta mál hafi ekki verið kynnt í bændasamtökunum. Nú get ég auðvitað ekki fullyrt um það, hvernig bændasamtökin eru rekin í hans kjördæmi. En þó er það alveg ósatt hjá hv. þm., að enginn bóndi úr því héraði hafi óskað eftir því, að lífeyrissjóði yrði á komið, því að hérað hans á a. m. k. 6 fulltrúa á aðalfundi Stéttarsambands bænda, og eins og hv. frsm. n. í þessu máli skýrði frá í gær, þá var einróma samstaða á stéttarsambandsfundinum um að óska eftir því, að málið yrði afgr. einmitt í því formi, sem það er núna. En að öðru leyti skal ég ekkert segja um það, hversu rækilega þetta mál hefur verið rætt í hverju einstöku kjördæmi landsins, en ég veit, að á Austurlandi var þetta sent út til Búnaðarsambandsins og þaðan til búnaðarfélaganna og það var rætt á þessum slóðum og m. a. síðast á búnaðarsambandsfundi í vor og ályktun gerð um málið þar.

Annars er málflutningur hv. 3. þm. Norðurl. v. þannig, að það er eiginlega ómögulegt að taka á honum. Mótsagnirnar eru svo stórkostlegar. Annars vegar hefur hann í þessum ræðum sínum verið að tala um sveitarstyrk til bænda, sem þeir gætu ekki verið þekktir fyrir að þiggja, og hins vegar hefur hann sagt, að bændur væru féflettir alveg hroðalega. Hvernig menn eiga að koma þessu heim og saman, er ekki gott að segja. Og að taka þátt í logaritmareikningum hans hér í hv. d. það geri ég að sjálfsögðu ekki. Talnameðferðin núna er að mér sýnist dálítið svipuð og þegar hann var að tala um öryggisgrindur á traktora og sagði, að þær kostuðu 20 þús. kr., en vissi þá ekki um það, sem þó var búið að senda út til allra bænda, að vegna tilboða, sem Stéttarsamband bænda hefur látið gera í smíði þessara grinda, þá eru grindurnar sjálfar nú fáanlegar á 6500 kr. — þær ódýrustu.

Annars er það auðvitað mergurinn málsins í sambandi við málflutning hv. 3. þm. Norðurl. v., sem hann sagði í lok sinnar ræðu áðan, að hann sagðist frábiðja sér og sínum afkomendum allar tryggingar fyrir bændastéttina af því tagi, sem hér er um að ræða og mér skildist helzt allar tryggingar. Þetta er í sjálfu sér ekkert nýtt. Að vísu tel ég, að bændur séu mjög félagslega sinnaðir. Þeir hafa sýnt það í uppbyggingu sinna verzlunarsamtaka, búnaðarsamtaka og á margan annan hátt. En þó að þetta sé svona, þá eru alltaf á næsta leiti mjög margir einstaklingar í bændastétt, sem eru miklir sérhyggjumenn. Það er auðheyrt á þessum orðum hv. þm., þegar hann frábað sér og sínum afkomendum allar tryggingar af þessu tagi, að hann er einn af þessum röktu einstaklingshyggjumönnum í stéttinni, og þess vegna er eðlilegt, að hann sé andvígur máli eins og þessu. Ég man vel eftir því, þegar var verið að stofna sjúkrasamlag heima í minni sveit. Þá voru þar menn, sem börðust um á hæl og hnakka til að koma í veg fyrir þá tryggingu. Seinna sáu þeir svo ekki eftir öðru meira, þegar þeir sáu, hvernig samlagið starfaði og við höfum í öllum áttum dæmi um svona einstaklingshyggju. Í bókmenntunum hefur nóbelsskáld okkar gert þessa einstaklingshyggju ódauðlega í Bjarti í Sumarhúsum, og hér í hv. d. höfum við hv. 3. þm. Norðurl. v.