16.12.1970
Neðri deild: 35. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 712 í B-deild Alþingistíðinda. (514)

6. mál, Lífeyrissjóður bænda

Fjmrh. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Án þess að ég ætli að fara á nokkurn hátt að taka þátt í þeim skemmtiatriðum, sem fram fara hér í hv. Nd., þá er mér samt skylt að segja örfá orð. Og þá fyrst og fremst að taka það fram, að þetta frv. er flutt af mér, en ekki hæstv. landbrh., þannig að það er ekki hægt að ætlast til þess, að hann út af fyrir sig sitji hér undir umr. og hlýði á alla þá speki, sem hér er flutt, heldur hef ég reynt að sitja hér. Ég kannske skil ekki allt, sem fram hefur farið, og verða þá hv. þm., sérstaklega hv. 3. þm. Norðurl. v., að virða mér það á betri veg, að ég er ekki eins snjall í logaritma og hann, en ég mun þó reyna að fá lánaðar töflur hans og útreikninga til þess að átta mig betur á þessu máli, því að ekki er þetta svo, að við séum fyrir alla lífstíð að ákveða hvernig þessum málum skuli háttað, heldur erum við hér að stíga byrjunarskref í þá átt að gera tilraun til að koma á stofn enn einum lífeyrissjóði í landinu.

Mér skildist, að hv. 3. þm. Norðurl. v. út af fyrir sig væri því ekki andvígur, að til væru lífeyrissjóðir. Mér skildist ekki, að orð hans hnigju í þá átt, þó að hann teldi, að lífeyrissjóðir án verðtryggingar væru einskis virði. Því fer auðvitað víðs fjarri, að þeir séu einskis virði. En það er rétt, að það er auðvitað geysilegt hagræði, ef hægt er að verðtryggja lífeyrissjóði, og vitanlega verður í framtíðinni að reyna með einhverjum hætti að gera það. En það breytir auðvitað engu um það, að þó að allt ávinnist ekki í einu, þá sé ekki rétt að stíga fyrstu skrefin, ef þau eru stigin í rétta átt. Það hefur verið svo með allar þjóðfélagsstéttir yfirleitt, að þær hafa leitazt við — nú síðast verkalýðssamtökin — að koma á hjá sér lífeyrissjóðum, þó að þessir annmarkar væru á þeim, og ég hygg, að það sé engum efa bundið, að þróunin verður í þessa átt.

Það er alveg rétt, að þetta mál varðandi lífeyrissjóð bænda — og á það lagði ég áherzlu við 1. umr., þegar ég gerði grein fyrir málinu í hv. d. — er alveg sérstaks eðlis og allt annars eðlis en allir aðrir lífeyrissjóðir, og það er rétt hjá hv. 3. þm. Norðurl. v., að þessir lífeyrissjóðir eru með þeim sérstaka hætti, að hér er enginn vinnuveitandi til þess að greiða mótframlag. Þess vegna hefur þetta æðilengi þvælzt fyrir mönnum, með hvaða hætti þetta skuli gert. Um það geta menn að sjálfsögðu haft mismunandi skoðanir, og ég hef heyrt því varpað fram, að það væri eðlilegt í rauninni, að ríkissjóður greiddi mótframlagið. Nú held ég, að þegar þetta er skoðað nánar niður í kjölinn, liggi það í augum uppi, að fyrir því er erfitt að finna nokkur rök, og hætt er við, að aðrar stéttir fyndu þá svipaðar ástæður til þess að gera sambærilegar kröfur á hendur ríkissjóði, en þær stéttir, sem eiga eftir að fá lífeyrissjóði, eru einmitt þeir hópar manna, þar sem enginn vinnuveitandi er. Og þessir hópar eru einmitt alls ekki svo litlir.

Að því er nú unnið að reyna að finna í framhaldi af þessu frv. hér um lífeyrissjóð bænda einhverjar hliðstæðar leiðir til þess að mynda lífeyrissjóði fyrir alla aðra starfshópa í þjóðfélaginu. Og ég álít, að eftir að það hefur verið gert eða a. m. k. eftir að langt er komið í þá átt, þá yrði reynt að leita eftir því að sameina þessa sjóði með einhverjum hætti almannatryggingakerfinu, þannig að á verði komið annaðhvort lífeyrissjóði eða tryggingakerfi fyrir alla landsmenn — samræmdu kerfi, sem er auðvitað mjög erfitt vegna þess, hve sjóðirnir eru ákaflega mismunandi sterkir og hve aðstaða er mismunandi að þessu leyti. Þess vegna er hætt við, að það geti orðið nokkuð vandasamt að ná samkomulagi um slíka gerbyltingu, en það er hins vegar engum efa bundið, að þetta verður framtíðarþróunin í þessu efni. Það hefur verið fundið það úrræði hér, að það sé neytandi landbúnaðarvara, sem í rauninni sé vinnuveitandi bóndans, sem út af fyrir sig er ekkert óeðlileg skoðun, og með þessu móti er verið að þreifa fyrir sér um það, hvaða hljómgrunn það fær á hv. Alþ., að vandamál þeirra stétta, sem eftir eru, verði leyst með eitthvað svipuðum hætti, þ. e. þeirra stétta, sem ekki eiga sér ótvírætt vinnuveitendur með venjulegum hætti.

Ég ætla ekki, eins og ég áðan sagði, að taka þátt í þeim umr., sem hér hafa farið fram um annmarka þessa frv. Ég hef ekki í alvöru trú á því, að hv. 3. þm. Norðurl. v. sé hatrammur andstæðingur þess, að lífeyrissjóður verði myndaður fyrir bændur, þó að hann kunni að telja á þessu frv. einhverja ókosti, og ég efast ekkert um það, að á því eru ýmsir ókostir. Þetta er mál, sem þarf að þreifa sig áfram með, og það, sem ég vildi aðeins á þessu stigi leggja áherzlu á, að svo miklu leyti sem ég kann að bera ábyrgð á framkvæmd þessara mála, er það, að ég tel sjálfsagt, að það verði sem skjótast hafizt handa um það, eftir að byrjað er að framkvæma þessi lög, að athuga, hvernig þau reynast og gera þá nauðsynlegar breytingar eftir því, sem reynslan sýnir, að þörf er á. En ég tel, að þó að menn telji einhverja annmarka á málinu, þá réttlæti það ekki það að leggja það algerlega fyrir róða og að innleiða alls ekki þá grundvallarlöggjöf, sem hér er verið að leggja til að verði sett. (Gripið fram í.) Ég efast um það, vegna þess að ég hef ekki enn þá komið auga á — og hv. þm. hefur með allri sinni snilli ekki sannfært mig um — með hvaða hætti ætti að laga það.

Ég verð að biðja hv. þm. að afsaka það. Ég hef hlustað, en það hefur verið dálítið erfitt að átta sig á því, hvað væri efnislega mikilsverðast í máli þm. í einstökum atriðum. Að vísu hafa verið mjög snjallir útreikningar á því, hvað bændur væru búnir að leggja fram — 5–7 millj. kr., þegar þeir fara að taka lífeyri úr þessum sjóði, en ég held, að eitthvað sé bogið við þá, jafnvel þótt logaritmatöflur hafi verið notaðar. En það er a. m. k. ekkert, sem fram hefur komið, sem sannfærir mig um það, að það sé ekki rétt að lögfesta þetta mál núna og athuga síðan bæði ábendingar frá þessum hv. þm., sem ég veit, að er velviljaður málinu efnislega, og frá öðrum hv. þm. og öðrum aðilum um það, hvernig þetta reynist. Ég efast ekkert um, að þó að bændasamtökin, stéttarsambandið og Búnaðarþing hafi mælt eindregið með því, að lög í þessa átt yrðu sett, þá eru þessir aðilar sömu skoðunar, þ. e. að það sé nauðsynlegt að fylgjast með því, hvernig þetta reynist, en hins vegar sé það mikið hagsmunamál bændastéttarinnar, að það fáist viðurkenning fyrir lífeyrissjóði fyrir bændur og þess vegna sé á það lögð áherzla að fá þetta mál lögfest nú.

Og ég vildi aðeins að lokum taka það fram nú, að þrátt fyrir þær ræður, sem hér hafa verið fluttar af hv. 3. þm. Norðurl. v., þá hef ég ekki skipt um skoðun í því efni, að ég tel það rétt, að þetta mál verði lögfest. Ég skal játa, að það hefur að vísu ekki verið undirbúið í mínu rn., heldur af starfsbróður mínum, hæstv. landbrh., í samráði við Stéttarsamband bænda og eftir ábendingum og till., sem þaðan hafa komið. En engu að síður þá ber ég ábyrgð á því, hvort málið verður lögfest eða ekki, og ég vildi aðeins taka það fram, að ég tel, að hér sé um það mikilvægt mál efnislega að ræða fyrir bændur að rétt sé að gera þetta, þó að á því kunni að vera einhverjir annmarkar að fá viðurkenndan lífeyrissjóð eins og allar starfsstéttir þjóðfélagsins yfirleitt sækjast eftir. En ég lýsi jafnframt yfir, að að svo miklu leyti sem ég hef með málið að gera á næstunni, þá verður að sjálfsögðu lögð áherzla á það að endurskoða það með þeim hætti, að það komi að því gagni, sem forsvarsmenn málsins hafa óskað eftir.