16.12.1970
Neðri deild: 35. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 715 í B-deild Alþingistíðinda. (515)

6. mál, Lífeyrissjóður bænda

Eðvarð Sigurðsson:

Herra forseti. Ég vildi með nokkrum orðum lýsa minni afstöðu til þessa máls. Ég átti sæti í þeirri n., sem fékk það til meðferðar, og gat því kynnt mér það. Um lífeyrissjóðsmál yfirleitt mætti tala langt mál, og ég vil mjög gjarnan taka undir það, sem hér hefur verið sagt af ýmsum hv. ræðumönnum, að þau mál hafa ekki þróazt eins og kannske skyldi, og það hefði verið hægt að finna betri farveg þeim málum. En til þess liggja margar orsakir, að málunum er háttað eins og er í dag — orsakir, sem ekki er auðvelt að breyta nú. Eins og málum nú er komið, þá er áreiðanlega erfiðara að leiðrétta þau en ef það hefði verið gert fyrr. Það var mjög lengi búið að tala um lífeyrissjóð fyrir alla landsmenn, og í nokkrum kosningum hafði það mál verið mjög á dagskrá. Verkalýðshreyfingin hefur lagt býsna mikla áherzlu á lífeyrissjóðsmálin, og það var svo komið fyrir samningana í maí 1969, þegar almennu verkalýðsfélögin sömdu um lífeyrissjóði, að þó nokkur hópur verkalýðsfélaga hafði þegar fengið lífeyrissjóði. Og aðstöðumunurinn hjá þeim samtökum, sem lífeyrissjóðina höfðu, og hinum, sem ekki voru þeirra aðnjótandi, var mjög mikill. Þess vegna var það, að þegar við sáum möguleika til þess í samningunum 1969 að semja um almenna lífeyrissjóði fyrir verkalýðshreyfinguna og við gátum ekki séð annað en lífeyrissjóður fyrir alla landsmenn væri enn í blámóðu fjarskans, þá gripum við þetta tækifæri og sömdum um lífeyrissjóðina.

Það mál, sem hér liggur fyrir, skilst mér, að sé áhugamál stéttarsamtaka bænda að fá fram. Til þess vil ég taka mikið tillit. Það er hins vegar ýmislegt athugavert við þetta mál, og það er ekki sízt hið sérstaka eðli þess, sem orsakast af því, að hér eru ekki í raun og veru neinir eiginlegir vinnuveitendur, sem hægt er að semja við um lífeyrissjóðinn, sem gerir þetta nokkuð vandasamt. Ég sé hins vegar í raun og veru engan mun á því, hvort það er t. d. verzlunarfólk í búðum hér í Reykjavík, sem semur við kaupmenn um lífeyrissjóð — alveg er öruggt, að kaupmennirnir leggja á vöruna það 6% gjald, sem þeir eiga að greiða til lífeyrissjóðsins — og á því, að samið sé um eða komið sé á lífeyrissjóði fyrir bændur og það lagt á vöruna, sem annars ætti að koma frá atvinnurekendum — beint á vöruna. En hins vegar held ég, að við verðum að hafa opin augun fyrir því, að hér er um svo mikilvæga vöru að ræða, að það væri ákaflega hæpið að bæta þessum gjöldum þar ofan á. Og ef við höfum í huga, hvernig er háttað hinu eiginlega útsöluverði varanna eins og það er nú, og það, sem framleiðendurnir eiga að fá, þ. e. niðurgreiðslurnar, þá sé ég ekki, hvers vegna ætti að leggja þetta beint á ríkissjóð í stað þess að hækka vöruna og síðan sjálfsagt auka niðurgreiðslurnar. Mér sýnist, að hér sé í raun og veru aðeins um fyrirkomulagsatriði að ræða, og það væri að öllu leyti að mínu viti betra, að þetta kæmi þá beint frá ríkissjóði, því að það gerir það engu að síður með því fyrirkomulagi, sem nú er.

Það er annað atriði í þessum lögum, þ. e. II. kafli laganna um sérstakan lífeyri til aldraðra bænda, sem mig langaði til að minnast á. Í þessum lagagreinum eru endurtekin í raun og veru sömu mistökin og gerð voru með lagasetningunni fyrir aldraða í stéttarfélögum í Alþýðusambandinu. Ég held, að það hefði verið óþarfi að endurprenta svo að segja alveg sömu mistökin. Ég benti á þetta í hv. landbn. og taldi, að það hefði þurft að lagfæra þar ýmis atriði, þar sem þegar hefðu komið alveg augljóslega í ljós margs konar erfiðleikar á framkvæmd þeirra vegna þeirrar reynslu, sem þegar hefði fengizt af framkvæmd sams konar laga. En það virtist vera það mikill áhugi á að lögfesta þetta einmitt núna og láta það taka gildi um áramót, en við vitum sem sé, að í þessum kafla a. m. k. eru mistök, sem hægt hefði verið að gera æðimikið til að leiðrétta þegar í upphafi. En það bíður síns tíma.

Það er býsna mikið talað um það, að það væri jafnvel æskilegt, að í stað lífeyrissjóðanna yrðu almannatryggingalögin endurskoðuð og lagfærð og í raun og veru ýmsir þættir lífeyrissjóðanna sameinaðir þeim. Ég er ekki viss um, að þetta sé möguleiki, vegna þess að það eru ýmis atriði, sem varða lífeyrissjóðina, sem ekki er svo gott að koma heim og saman við lögin um almannatryggingar — ýmis hlunnindi, sem félagar í lífeyrissjóðnum njóta hjá lífeyrissjóðnum, sem þeir gætu ekki notið hjá almannatryggingum. Enda hefur þróunin orðið sú í öllum nágrannalöndum okkar, að til viðbótar almannatryggingum, sem mætti segja, að væru svipaðar og hér, hafa einmitt verið stofnaðir sérstakir lífeyrissjóðir á vinnumarkaðinum og þeir ná nú orðið til flestra þjóðfélagsþegna þ. á m. einnig bænda. Ég held hins vegar, að það hefði verið verkefnið að gera þessa sérstöku lífeyrissjóði utan almannatrygginganna meira að einni heild en líklegt er, að þeir geti nú orðið um a. m. k. einhverja framtíð, því að þegar þetta er einu sinni farið af stað, þá er erfiðara að sameina aftur og leiðrétta mistök, sem gerð hafa verið, sem eru að mínum dómi alveg augljós. En ef ekki hefði verið stigið það skref í maí 1968 að koma á almennum lífeyrissjóði verkalýðsfélaganna, þá sé ég heldur ekki annað en við hefðum orðið að bíða í æðimörg ár eftir hinum almenna lífeyrissjóði fyrir alla landsmenn. Það er sem sé af brýnni nauðsyn, að þessi leið hefur verið farin. Mér skilst, að stéttarsamtök bænda telji, að það sé jafnbrýn nauðsyn fyrir bændasamtökin, og þess vegna fylgi ég þessu máli.