16.12.1970
Neðri deild: 35. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 721 í B-deild Alþingistíðinda. (519)

6. mál, Lífeyrissjóður bænda

Björn Pálsson:

Herra forseti. Má ekki tala um þessa dagskrá líka? Það er nú dálítið erfitt að fá svona í lokin, þegar maður er búinn að tala sig dauðan, jafntungulipran mann og hæstv. fjmrh., því að það er dálítið skemmtilegt að slá svona úr og í: „Jú, þetta er nú satt, góði, en þetta er nú reynandi samt.“ Þetta mýkir allt saman, eins og þegar verið er að bera feiti á vélar, þá snúast hjólin betur á eftir, og m. a. var hæstv. ráðh. að tala um viðurkenningu á Lífeyrissjóði bænda. Ég hélt, að það þyrfti engin stétt að fá neina sérstaka lagalega viðurkenningu. Það er heimilt að stofna lífeyrissjóði fyrir bændur eins og aðra menn, en það er ekkert góðverk að veita einhverjum viðurkenningu til að fá að stofna lífeyrasjóð með sínum eigin peningum.

Ég ætla að gera í örfáum orðum grein fyrir því, hvað ég vil, því að hæstv. ráðh. lét það í ljósi, að sér væri það ekki alveg ljóst. Ég vil hafa trygginguna frjálsa. Ég vil, að þeir sem vilja tryggja sig, greiði í peningum. Ég vil, að ríkissjóður greiði 50% á móti. Þetta er svipað og í Finnlandi. Það þekkist hvergi í heiminum trygging eins og verið er að koma á hér fyrir bændur — hvergi í heiminum. Það er hvergi skyldutrygging á bændum í heiminum nema í Finnlandi, og þar greiða þeir helming af iðgjöldunum, ríkið verður að borga helming og miðað er við jarðir. En að vaða í reikning manna, taka þar ákveðna prósentu af brúttótekjum bóndans — þó að hann hafi engar nettótekjur — eftir ákvæðum einhverrar sjóðsstjórnar, senda það svo suður í Reykjavík, láta einhverja fimm manna stjórn — eða ég veit ekki, hve margt starfslið reikna út fyrir hvern einstakan bónda, hvað hann á að greiða og endurgreiða svo eitthvað ofurlítið þeim, sem hafa allra mestu tekjurnar. Nei, þetta er skoplegt.

Hitt skil ég vel, að þegar ríkisstj. kemur með frv., vill hún ekki láta fella það, enda er ég búinn tvisvar eða þrisvar að tala við Ingólf um að draga frv. til baka. Það var hér á árunum, að það kom frv. frá menntmrh. um að setja alla í tukthúsið, sem létu unglinga innan 18 ára vinna eftir kl. 5 á daginn; tveggja ára fangelsi lá við. Þeir höfðu vit á að draga þetta frv. til baka. Ég stóð þá eiginlega alveg einn hér líka. Það er alveg eins nú. Það var sjálfstæðismönnum að þakka, að það frumvarp var dregið til baka. Þeir sáu, að þetta var endileysa, og þeir hefðu nú átt að sjá, að þetta frumvarp er endileysa og draga það til baka fremur en senda mann, sem er háll í svörum, upp í ræðustólinn undir lokin til þess að bera á ryðið og sprungurnar.

Þetta er í fáum orðum sagt mín skoðun. Ég vil ekki þvinga bændur inn í neinn svona félagsskap. Þeir um það, hvort þeir vilja tryggja sig, borga sín iðgjöld sjálfir, og ríkið leggur á móti. Sá kostur er við þetta, að það tryggir sig varla nokkur bóndi, svo að það verða lítil útgjöld fyrir ríkið. Hitt er algerlega gert í heimildarleysi af stéttarsambandinu að fara að semja fyrir hönd allra bænda, því að stéttarsambandið hefur ekkert umboð til þess. Ég hef aldrei gefið stéttarsambandinu neitt umboð fyrir mína hönd, og ég veit ekki til, að neinn maður hafi gert það, sem ég þekki til. Og það er dálítið erfitt að skilja, að það eru menn eins og 9. þm. Reykv. og Eðvarð Sigurðsson — ég man ekki númerið á honum þessa stundina — sem tala hér af langmestri þekkingu um þessi mál. Það er af því, að þeir hafa meiri reynslu. Þeir eru búnir að sjá gallana. Þó að ekki sé annað en þetta sífellda verðfall peninga, þá eru ógengistryggðir lífeyrissjóðir lítils virði. Það er verið að gera þarna hlut, sem hvergi þekkist í heiminum — vaða í reikninga bændanna og taka þaðan eftir ákvörðun einhverrar sjóðsstjórnar ákveðna prósentu af brúttótekjum bænda. Ég er búinn að skýra fyrir mína hönd að hverju ég gæti gengið — að frjálsri tryggingu, ef iðgjöldin eru borguð beint og ríkissjóður leggur helming á móti. Þetta er ákaflega einfalt og kostar litla vinnu — margfalt minni vinnu.

Frv. er þannig allt saman meira og minna vitlaust og gallað, að það er ekki til neins að koma með brtt. Það verður að semja frumvarp eftir allt öðrum reglum. En að endurskoða eftir tvö ár; það er að gera þetta þinghald meinlausara. Mennirnir eru nefnilega sannfærðir um, að það sé lítið vit í frv. Miklu hreinlegra og eðlilegra er að greiða bara atkv. á móti því, eins og ég ætla að gera. En það þarf ekkert að vera að koma með neinar samþykktir, því að frv. fær engan frið að hafa, þó að það verði samþ. nú. Og ef enginn verður til að kveikja eldinn, þá skal ég gera það.