15.12.1970
Neðri deild: 32. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 728 í B-deild Alþingistíðinda. (537)

147. mál, Háskóli Íslands

Björn Pálsson:

Herra forseti. Af því að ég greiddi víst einn atkvæði á móti þessu frv., þá þykir mér hlýða að gera með örfáum orðum grein fyrir minni afstöðu í því máli.

Það hefur verið þannig hin síðari árin, að það hefur fjölgað gróflega ört prófessorum og dósentum í þessari stofnun, en ég er ekki viss um, að jafnmikið hagnýtt hafi komið frá þessari ágætu stofnun. Ég hef ekki haft tíma til að kynna mér þetta nógu rækilega, en maður getur ekki snúizt í öllu. Ég var að hugsa um lífeyrissjóðinn núna síðast, og ég vil ekki fara að deila um mál nema setja mig nógu vel inn í það. Ég er orðinn það aldraður, að ég veit, að það er ekki skynsamlegt, en mér hefur borizt til eyrna, að í þessari nýju deild séu komnir eitthvað á annað hundrað nemendur til að læra einhverja þjóðfélagsvizku. Ætli það verði ekki svo, áður en langir tímar líða, að þeir einir verða gjaldgengir sem þm., sem hafa dundað þarna í þessari þjóðfélagsfræði í nokkur ár. Mér skilst það, að þetta miði allt að því. Og svo er búið að gera mikið meira þarna í Háskólanum. Það er fjöldi af stúdentum, prófessorum og dósentum og alls konar herrum þarna upp frá. Og þetta er ágætt; menntun er ágæt, og allt vel um það. En hún verður bara að vera hagnýt að einhverju gagni, en ég held, að það séu ýmsar deildir þar, sem gerði lítið til, þótt hefðu færri nemendur. Þeir gætu unnið ýmislegt annað þarfara í þjóðfélaginu.

Menntmrh. var nú að segja í ræðu einhvern tíma í vetur, að það væri búið að ráða mann til að leiðbeina mönnum um það, hvaða fög þeir ættu að velja að stúdentsnámi loknu, og það er ekkert nema vel um það og gæti vel verið, að það væri réttara að hafa fleiri leiðbeinendur t. d. þrjá. Þeir þyrftu ekki að vera á fullum launum allir, en það er margt, sem þarf að læra. Það má vera, að einn maður geti ekki ráðið yfir svo mikilli þekkingu, að hann geti leiðbeint á öllum sviðum inn á réttar námsbrautir, og ég hef ekkert út á það að setja.

En ég held, að það sé margt lært í Háskólanum, sem ekki hefur hagnýta þýðingu og er vafasöm menntun. Það er vafasamt að hanga yfir litlu eða engu námi í 4–5 ár fyrir unga, efnilega og vel gefna menn, sem ég efast ekki um, að þessir menn eru að eðlisfari, því að það getur verið, að þeir verði að slæpingjum. Þeir eru orðnir of fínir til að vera svona í almennri vinnu eins og ég og mínir líkar. Ég fór að dunda við að græða smávegis, svo að ég gæti rekið búskap, meðan ég var ungur, en þarna sitja þeir og læra þjóðfélagsfræði, og ekki geta þeir allir orðið þm. Og það er spurning, hvort það er þeim til góðs, hvort þeir ættu ekki að læra eitthvað annað, sem gæti verið hagnýtara fyrir þá í lífinu. Þannig er það með þessa menn, sem við erum að senda út í lönd að læra. Mér skilst, að þeir hafi fengið að læra, hvað sem þeir vildu. Svo fara þeir í sendiráðin og vippa út einhverjum sendiráðsritaraaumingja, ef þá vantar peninga. Ég held, að það væri réttara, eins og hæstv. fjmrh. minntist hér á einu sinni í ræðu, en því miður hefur hann bara ekki framkvæmt það. Og hæstv. ráðh. hefur betri aðstöðu en ég til að framkvæma hlutina — til að ákveða fyrir fram, hvers þjóðfélagið þarfnast, þ. e. að menn læri og séu svo styrktir til þess, en séu ekki að dunda við eitthvert nám úti í löndum, sem þjóðfélagið hefur ekki þörf fyrir. Þetta þarf allt að skipuleggja betur.

Ég sagði áðan, að ég hefði ekki getað kynnt mér þessi háskólamál, en ég ætla að reyna að gera það við tækifæri, og mér lízt þannig á þessa deild, að það hefði verið skaðlaust, þó að það hefði eitthvað beðið að stofna hana, og þeir ættu að geta dundað við annað þessir væntanlegu félagsmála- eða þjóðfélagsfræðingar en sitja þarna. Þess vegna vil ég ekki vera að greiða atkv. með frv. Ég held satt að segja, að Háskólinn hafi ekki verið of góður fyrir, þó að þessi deild bættist ekki við. Þegar við fáum þessa hálærðu menn eins og lækna, presta og sýslumenn, sem ekki reynast í sumum tilfellum neinir ofvitar, þá vilja þessir herrar ekki vera hjá okkur úti á landsbyggðinni. Við höfum aldrei verið læknislausir í mínu héraði, en það eru mörg héruð, sem ekki hafa lækni. Ef . . . (Gripið fram í.) Það ætti þá ekki að vanta lækna þarna á Austurlandinu, þegar þetta gengur svona. Það er nú svo, að það geta ekki allir verið í skjólinu. Þó að það sé eitthvað næðingssamara úti á landi, þá verða menn að sýna karlmennsku, því að þjóð án þreks og karlmennsku er á vafasömum vegi. Þá held ég a. m. k., að þetta hljóti að einhverju leyti að stafa af því, að andrúmsloftið sé ekki rétt þarna. Því þyrfti einhverju að breyta, ef menn geta ekki unnið í þágu þjóðfélagsins það, sem þarf að gera, og þykjast of stórir og fínir menn til þess á einhvern hátt, þá er það ekki réttur andi, sem ríkir í þessari stofnun, og ég held, að þetta sé víða svona í menntamálum okkar, að þar sé ekki nógu hagnýt kennsla. Áróður er fyrir því, að menn þurfi endilega að verða stúdentar. Það er minni áherzla lögð á ýmsa hluti, sem alveg er nauðsynlegt að menn læri.

Ég las grein í blaði eftir íslenzkan mann í Ameríku um úthlutun á námsstyrkjum. Hann var að tala um, að það væri dálítið óeðlilegt hjá þjóð, sem lifði aðallega á fiskveiðum og vinnslu á fiski, að af öllum þessum styrkjum fór ekki einn einasti til þess að nema þau fræði, sem þjóðinni lá hvað mest á, að við hefðum færa menn í. Það er allt vel um menntun, en menntun svona skipulagslaus og óhagnýt, eins og ég álít satt að segja í mörgum tilfellum, að hún sé hjá okkur, er engri þjóð til góðs. Og svo þegar þessir herrar eru búnir að sitja í 4–5 ár í háskóla — sumir læra ekkert, en aðrir eitthvað, þá eru þetta orðnir of fínir menn til að gera það, sem þarf að gera. Við höfum margt af lögfræðingum, hagfræðingum og viðskiptafræðingum. Mér er sagt það með viðskiptafræðingana, að þeir fái nú vinnu, þegar þeir eru búnir að læra. Þeir fari í bankana, og hagfræðingarnir fái eitthvað til þess að dunda við, en það er alveg brennt fyrir, að þessir menn hafi vit á nokkru, sem þeir þurfa að hafa vit á, enda væri okkar landi miklu betur stjórnað, ef menn hefðu nógu góða þekkingu á því, sem þarf að gera, þá væri ekki svo mikið að hlutunum. Ég held, að við höfum nóg af viðskiptafræðingum, hagfræðingum og jafnvel lögfræðingum. Það vantar ekki hér á skrifstofurnar lögfræðinga.

Ég held, að það þurfi að endurskoða allt þetta kerfi, og þetta er ástæðan fyrir því, að ég greiddi ekki atkv. með þessu nýja frv. Það er orðið nóg af vitleysu í Háskólanum, þó að þessi deild bættist ekki við. En það er ekki þannig, að ég sé að reyna að hafa nein áhrif á, að þið greiðið ekki atkv. með frv. Og satt að segja held ég, að það væri ekki alveg vonlaust, að fjármálastjórn okkar væri betri, ef hagfræðingar hefðu þar aldrei komið nálægt. Maður, sem hefur fjármálavit, hefur ekkert að gera með að læra hagfræði. Ég hef ekki orðið var við, að þessir viðskiptafræðingar okkar hafi gert miklar rósir á viðskiptasviðinu. Okkar beztu verzlunarmenn hafa aldrei farið í viðskiptaháskóla. Hvað á maður, sem hefur fjármálavit, að gera með að dunda í þessu? Og hvað eiga þessir hagfræðingar að gera? Jú, þeir eru alltaf að reikna út, hvað sé hagnýtt við að fella gengi og hvað græðist mikið á að fella gengi. Þeir reikna ekki út fyrir okkur, hvað er mikið tap á því að fella gengi. Fæddir fjármálamenn hafa ekkert að gera með að vera í neinum hagfræðiskóla. Mér var sagt, að gamli Churchill hefði ekki viljað láta hagfræðinga koma nálægt fjármálum, og ég held, að karlinn hafi verið nokkuð vitur í því eins og fleira.