10.11.1970
Neðri deild: 15. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 88 í B-deild Alþingistíðinda. (54)

101. mál, atvinnuöryggi

Tómas Árnason:

Herra forseti. Hæstv. viðskmrh. undraðist það í umr. í gær, að málflutningur stjórnarandstæðinga, eins og hann orðaði það, hafi verið linlegur, ekki nægjanlega harður. Hann hafi átt von á því, að hann yrði miklu harðari en raun bar vitni um. til þessu gaf hann svo sínar skýringar. Ég er ekki alveg viss um, að ástæðan fyrir því, að hæstv. viðskmrh. átti von á harðari umræðum, þegar rætt er um stöðvun verðlags, hafi verið þær skýringar, sem hann gaf, heldur hafi ástæðan verið miklu fremur sú, að hann hafi búizt við því, að í þessum umr. um stöðvun verðlagsins yrðu rifjaðir upp atburðir seinustu alþingiskosninga um verðlagsmálin og um það, að ríkisstj. markaði þá stefnu, sem hún kallaði verðstöðvunarstefnuna og lýsti því yfir við hvert tækifæri, sem hún fékk fyrir kosningarnar, að ef hún héldi velli í kosningunum, ætlaði hún sér að framkvæma verðstöðvunarstefnu í landinu. Ef þetta er borið saman við þróunina, sem orðið hefur á þessu kjörtímabili, þá finnst mér, a. m. k. ekki nema vonlegt, að hæstv. viðskmrh. hafi átt von á því, að umr. um þetta mál yrðu harðari en honum fannst þær vera hér í gær.

Frv. þetta um ráðstafanir til stöðugs verðlags og atvinnuöryggis, eins og það heitir, virðist varla standa undir nafni, ef betur er að gætt. Öðru hverju gefst tækifæri til þess að ræða um efnahagsmálastjórn hæstv. ríkisstj., þ. e. þegar gengislækkanir skella á, þ. e. þegar verðstöðvunarfrv. eru til umræðna hér á hv. Alþ. fyrir kosningar. Það mætti margt segja um þróun íslenzkra efnahagsmála í valdatíð viðreisnarstjórnarinnar. Afleiðingar efnahagsmálastjórnarinnar eru staðreynd, sem ekki þarf að deila um. Það er óðaverðbólga í landinu og ört fallandi króna, sem nálgast gengishrun. Flóðmælska breytir í engu þessum staðreyndum. E. t. v. er bezti mælikvarðinn í þessum efnum að miða við gengislækkanir ríkisstjórnarinnar.

Í febr. 1960 varð gengisfall hið fyrsta, þegar krónunni var breytt úr 16.32 kr. í 38 kr. gagnvart dollar. Það er alveg rétt hjá hæstv. forsrh., það er rétt að viðurkenna það út af fyrir sig, að í raun og veru var gengið svolítið lægra, en eigi að síður var þetta fyrsta gengisfellingin. Næsta gengisfellingin var í ágúst 1961, þegar krónan var felld úr 38 kr. í 43 kr. gagnvart Bandaríkjadollar. Þriðja gengisfellingin var 1967, þegar krónunni var breytt úr 43 kr. í 57 kr. gagnvart Bandaríkjadollar, og fjórða gengisfellingin var í nóv. 1968, þegar krónan var lækkuð úr 57 kr. í 88.10 kr. gagnvart Bandaríkjadollar. Og hvað hefur gerzt síðan í nóv. 1968? Vísitala vöru og þjónustu hefur hækkað á þessu tímabili úr 122 stigum, þegar miðað er við 100 í ágúst 1967, upp í 167 stig, ef miðað er við 1. sept. s. l., eða um 37%. Síðan 1. sept. hefur svo hver stórhækkunin rekið aðra. Hrunadans verðbólgunnar hefur sjaldan verið hrikalegri en undanfarnar vikur og mánuði.

Uppgjöf ríkisstjórnarflokkanna við meginstefnuskráratriðið, að stöðva verðbólguna, er svo algert, að auðvitað ættu þeir að efna til kosninga nú þegar í stað þess að sjóða saman þetta frumvarpsörverpi í þeim tilgangi að leyna hinu raunverulega ástandi og þróun fram yfir kosningar.

Hinn 31. okt. samþykkti verðlagsnefnd samkv. heimild í l. nr. 54 frá 1960, að frá og með 1. nóv. s. l. skuli óheimilt að hækka verð eða álagningu á hvers konar vörum og þjónustu nema með leyfi verðlagsnefndar. Og í dag, 10. nóv., er verið að ræða um hér á hv. Alþ. verðstöðvun með lögum, verðstöðvun, sem þegar hefur verið fyrirskipuð í öllum aðalatriðum. En munurinn á þessari verðstöðvun, sem verið er að ræða um hér á Alþ., og þeirri, sem verðlagsnefnd setti á, er eingöngu sá, að verðlagsnefnd getur breytt sínum ráðstöfunum, en þessi lög halda gildi sínu fram yfir alþingiskosningarnar.

Það þarf í raun og veru ekki nema að lesa grg. fyrir frv. til þess að sjá hina háskalegu þróun efnahagsmálanna um þessar mundir. Ríkisstj. hefur fram til þessa horft á þessa þróun aðgerðarlítil og ráðalaus. Hún finnur vanmátt sinn til að hafa stjórn á þessum málum, enda vildi Sjálfstfl. láta ganga til haustkosninga, eins og kunnugt er. Honum leizt ekki á að setja á veturinn með Alþfl. Í stað þess að breyta um stefnu og starfsaðferðir á nú að endurtaka leikinn frá 1967 um málamyndaverðstöðvun fram yfir kosningar og freista þess að vinna fylgi almennings við óraunhæfa og ímyndaða stöðvun verðbólgunnar. Súrefnistjald á að setja yfir ríkisstj. hæstv., til þess að hún tóri fram yfir kosningar. Mergurinn málsins er auðvitað sá, að stefnan, sem ríkisstj. hefur fylgt í efnahagsmálum, er röng. Hún hefur leitt þjóðina út á enn háskalegri verðbólgubrautir en nokkru sinni fyrr. Það er staðreynd, sem enginn getur neitað. Af þeim ástæðum þarf að breyta um stefnu og starfsaðferðir. Stefna viðreisnarinnar er fullreynd, og árangurinn blasir við þjóðinni. Úrræðaleysi ríkisstj. speglast raunar í þessu frv., sem hefur í raun og veru þann eina tilgang að fleyta málefnum þjóðarinnar með einhverju móti fram yfir kosningar. En hvernig verður ástandið 31. ágúst 1971, þegar lögin falla úr gildi? Hæstv. forsrh. vildi vísa þessu til forsrh. Dana, en það er liðin tíð að vísa okkar málefnum til Dana og láta þá svara til. Hins vegar var hann svo heiðarlegur í sínum málflutningi, að hann viðurkenndi, að ný ríkisstj. mundi standa betur að vígi í ágúst heldur en ella, ef löggjöfin eða frv. væri ekki lögfest. Auðvitað á ríkisstj. að gera grein fyrir því, hvernig líklegt er að þróunin verði, til þess að rökstyðja nauðsyn á setningu þessa frv. Það er ástæða til að ætla, að ef haldið verður áfram sömu stefnu og 1967, eftir kosningar, megi vænta sömu þróunar og við höfum orðið vitni að á þessu kjörtímabili, sem nú er að ljúka. Ég lýsti áður hinni hrikalegu verðbólguþróun síðasta áratugs, sem gengisfellingarnar bera gleggst vitni um. Að vísu létu stjórnmálaflokkarnir kjósa um verðstöðvunarstefnuna fyrir alþingiskosningarnar 1967. Þetta hljómar nú eins og hrein og klár skröksaga, þegar haft er í huga, að vísitala vöru og þjónustu hefur hækkað um 70% á þessu tímabili miðað við 1. sept. s. l. Þannig hefur verðstöðvunarstefna ríkisstjórnarinnar verið í framkvæmdinni. Það er alveg rétt, sem margir segja, það verður fátt gott sagt um þessa óðaverðbólguþróun. Samfélagið býður margs konar tjón af verðbólgunni, en ríkisstjórnin, sem á að stjórna efnahagsmálum þjóðarinnar, hlýtur að bera höfuðábyrgðina.

Fyrrv. forsrh. sagði á gamlárskvöld 1960, þegar hann ávarpaði þjóðina, að fram undan væri tímabil stöðugs verðlags. Og um áramótin 1962 og 1963 sagði hann:

„Takist ekki að sigrast á verðbólgunni, gleypir hún fyrr eða síðar ávexti þess, sem bezt hefur tekizt. Er þá unnið fyrir gýg og beinn voði fyrir höndum.“

Í raun og veru skyldi aldrei hætta að útskýra skaðsemi verðbólgunnar fyrir almenningi í landinu, því að skuggahliðar hennar eru svo margar og margvíslegar. Ég vil nefna hér aðeins nokkrar. Framleiðendurnir, sem starfa við mikla verðbólguþróun, hugsa um of um það á verðbólgutímum að leggja peninga í ýmiss konar fjárfestingar, sem verðbólgan gerir verðmeiri, og hugsa meira um það en að fjárfesta í vélum og tækjabúnaði fyrirtækja sinna. Verðbólgan beinir því fjármagni þjóðarinnar og atvinnuveganna inn á verðbólgubrautir. Neytendur í landinu treysta ekki krónunni. Þess vegna vilja þeir ekki eiga hana. Þeir kaupa ýmislegt, sem þeir mundu kaupa seinna, ef þeir treystu krónunni, og þeir kaupa meira en þeir mundu kaupa, ef þeir treystu því, að krónan héldi verðgildi sínu. Eftirspurn eftir ýmsum vörum fer því vaxandi, og neytendurnir hugsa ekki um eins baganleg innkaup og þeir mundu gera, ef stöðugt verðlag væri í landinu. Verðbólgan ýtir þannig undir eyðslu meðal neytenda. Sparifjáreigendurnir, í stað þess að leggja inn peninga, sem þeir ekki þurfa að nota í svipinn, eyða þeim í alls konar kaup, bæði þörf og óþörf. Þegar hinar ýmsu verkanir verðbólgunnar renna saman, verður útkoman sú, að sparifé minnkar í lánastofnunum, atvinnuvegirnir verða fjárvana, fjárfestingin verður allt of mikil og skapar gífurlega þenslu.

En verðbólgan er ekki aðeins skaðsamleg á sviði efnahagsmála, heldur bíður samfélagið margs konar tjón af henni. Eyðsla og óráðsía fer vaxandi. Mat ungmenna og annarra á gildi peninga verður óraunsætt. Alls konar spákaupmennska helríður þjóðfélaginu, að ekki sé talað um óeðlilegar eignatilfærslur, sem eiga sér stað og skapa mikið misrétti og óréttlæti í þjóðfélaginu. En kannske er þessi langvarandi þróun óðaverðbólgunnar alvarlegust, þegar horft er til atvinnuveganna, vegna þess að atvinnuvegirnir eiga auðvitað allt undir því að geta notið fjármagns til þess að byggja sig upp, til þess að kaupa þekkingu, til þess að kaupa nýja tækni, tæknibúnað, vélar og annað það, sem þarf fyrir atvinnuvegina til þess að fylgjast með í nútíma tækniþjóðfélagi. Niðurstaðan verður svo sú, að ef mikil verðbólga helríður þjóðfélaginu lengi, þá dragast atvinnuvegirnir aftur úr. Þjóðarframleiðslan fer minnkandi, arðsemi atvinnustarfseminnar fer minnkandi, og niðurstaðan verður sú, að atvinnuvegirnir verða ófærir um að borga hliðstætt kaupgjald og atvinnuvegir þeirra þjóða, sem við höfum mest samskipti við. Hætt er við, að voði steðji að, þegar til lengdar lætur.

Ég er þeirrar skoðunar, að sterkustu öflin í þjóðfélaginu verði að gæta þess að gera sitt til að stemma stigu við óðaverðbólgu. En mestar skyldur hljóta að hvíla á þeim, sem með ríkisvaldið fara hverju sinni, því að þeir ráða þó alltaf löggjafarvaldinu, sem á að vera og er úrslitavald í málefnum þjóðarinnar. Almannaheill og hagur alþjóðar hljóta að eiga að sitja í fyrirrúmi. Og það er hagur allra, að í stað þess að flytja nú frv. sem frestar ástandinu, sé ráðizt gegn vandanum á allt annan veg en gert hefur verið. Vil ég minna á það í þessu sambandi, að Sjálfstfl., stærsti flokkur þjóðarinnar, vildi láta ganga til haustkosninga, sjálfsagt af þessum ástæðum, sem ég hef verið að lýsa. En er það nú svo, að hagur alþjóðar hafi setið í fyrirrúmi, og þörfin á því að breyta um stefnu nú þegar? Eins og ég sagði, þá hefur Sjálfstfl. lýst því yfir, að það hefði verið í þágu þjóðarhagsmuna, að kosningar til Alþ. færu fram í haust. Og hann lýsti þessu auðvitað yfir af þeim ástæðum, sem ég var rétt í þessu að lýsa. Það er auðvitað í verkahring sjálfstæðismanna að gefa þjóðinni svar við þeirri spurningu, hvers vegna hann vildi láta kjósa og hvers vegna hann taldi það vera í samræmi við þjóðarhagsmuni.

En hvað sagði Alþfl. um þetta mál, Alþfl., sem einu sinni var jafnaðarmannaflokkur? Það er alkunna, að Alþfl. á í hinum mestu heimiliserfiðleikum og þarf bæði að vera í stjórn með Sjálfstfl. og reyna að tryggja það, að stjórnin sitji sem lengst og það verði kosið sem seinast, til þess að hann geti setið sem lengst í ríkisstj. fyrir kosningar, og jafnframt þarf hann að nota tímann fram að kosningum til þess að semja við aðra flokka um vinstri stjórn, til þess að hann geti í öllu falli tryggt stjórnaraðstöðu sína eftir kosningar. Þetta eru stóru hagsmunir pínulitla flokksins. Þegar rakin eru viðbrögð stjórnarflokkanna, liggur það fyrir, að annars vegar eru það hagsmunir Alþfl. að tryggja sér stjórnarsetu, bæði fyrir kosningar og eftir þær. Á hinn bóginn eru það hagsmunir þjóðarinnar, sem allir flokkar á Alþ. nema Alþfl. eru sammála um, að láta fara fram kosningar í haust og söðla um, marka nýja stefnu í efnahagsmálum þjóðarinnar, stefnu sem sé líklegri til þess að ráða bót á verðbólguþróuninni á annan veg en verið hefur s. l. áratug. Það er í raun og veru sorgarsaga að horfa upp á það, að hagsmunir minnsta flokksins skuli sitja í fyrirrúmi fyrir þjóðarhagsmunum. Það er vissulega hið alvarlegasta mál, að ríkisstj. skuli hafa brugðið á það ráð að reyna nú að leika sama leikinn og hún gerði við alþingiskosningarnar 1967. Auðvitað verður verðstöðvun að vera annað og meira en til nokkurra mánaða og verður að byggjast á traustum grunni nýrrar stefnu. Hér er verið að hlaða stíflugarð og safna uppistöðum skuldbindinga fyrir ríkissjóð, stíflu, sem hlýtur að bresta fram með verðbólguflóði, ekkert síður en varð 1967, ef fylgt verður sömu stefnu áfram.

Í raun og veru liggur ekki fyrir nein heildarmynd af stöðunni, þótt því sé haldið fram af hæstv. ríkisstj., að endar nái saman. Ætli niðurstaðan verði ekki eitthvað svipuð því, sem varð árið 1967, þegar upp verður staðið eftir kosningar. Ríkisstj. er raunverulega hrædd. Hún óttast afleiðingar sinna eigin verka og sinnar eigin stefnu. Hún lofaði verðstöðvun eftir kosningar 1967, og nú er hún að bera fram frv. um verðstöðvun, nokkrum mánuðum fyrir kosningar. Henni er ljóst, að þróunin er háskaleg, hve háskaleg, virðist hún ekki gjörla vita, sbr. það, sem fram kom hjá hæstv. forsrh. í ræðu hans hér í gær. Þótt þessi málamyndaverðstöðvun verði sett á um nokkurra mánaða skeið, má öllum vera ljóst, að verði haldið óbreyttri stjórn efnahagsmála og óbreyttri stefnu, heldur hin háskalega verðbólguþróun áfram, eins og hún hefur gert á undanförnum árum.

Ég vil taka undir það, sem einhver hv. þm. sagði hér í gær, að eini ljósi punkturinn í þessu frv., sem hér liggur fyrir, er 3. gr. um fjölskyldubæturnar. Þó vildi ég segja örfáar setningar um það atriði. Í raun og veru eru fjölskyldubætur og eiga að vera skattamál, en ekki tryggingamál. Þannig er hagað málum á öllum Norðurlöndum. Þær eru hreint skattamál. Það er litið á fjölskyldubætur þar hreinlega sem framlag til fólks úr ríkissjóði, en það er greitt beint úr ríkissjóði hér einnig, framlag, sem ekki er þar skattskylt. Danir, Norðmenn og Svíar einnig hafa ekki ákvæði í sínum skattalögum um persónufrádrátt fyrir börn, heldur greiða þeir eingöngu barnapeninga beint úr ríkissjóði, sem ekki eru skattskyldir. Persónufrádráttur á börn kemur hátekjumönnum til góða. Hins vegar ekki þeim, sem eru skattlausir fyrir og hafa lágar tekjur. Fróður maður hefur sagt mér, að ef þessi háttur yrði tekinn upp hjá okkur, þá mundi það leiða til þess, að lágtekjumennirnir mundu hagnast á því. Þannig er það í raun og veru ekki rétt stefna að líta á fjölskyldubæturnar sem tryggingamál, heldur sem hreint skattamál, þannig að barnapeningar séu borgaðir beint úr ríkissjóði, séu ekki skattskyldir og heldur ekki metnir til frádráttar í skatti. En eigi að síður lýsi ég fylgi mínu við þetta ákvæði frv.