14.12.1970
Efri deild: 32. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 732 í B-deild Alþingistíðinda. (550)

176. mál, fyrirframinnheimta opinberra gjalda

Fjmrh. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Svo sem öllum hv. þdm. er kunnugt, þá er svo ákveðið í gildandi lögum bæði varðandi ríkisskatta og útsvör, að heimilt sé að innheimta allt að 50% gjalda á hverju ári miðað við upphæð gjalda viðkomandi gjaldanda næsta gjaldár á undan. Með þessum hætti má í rauninni segja, að hafi að nokkru leyti verið komið á staðgreiðslukerfi skatta, þannig að menn byrja að greiða gjöld sín þegar í febrúar að því einu fráskildu eða með því afbrigði, að það er miðað við, hvað viðkomandi hafði í tekjur og gjöld árið áður. Það hefur oft verið á það bent einmitt í sambandi við nauðsyn þess að innleiða staðgreiðslu opinberra gjalda, að verði miklar sveiflur í tekjuöflun, þá komi það mjög illa við menn að geta ekki hagað beinum mánaðarlegum greiðslum sínum í samræmi við það, sem þeir raunverulega eiga að greiða. Nú horfir þannig, að það eru allar líkur til þess, að á árinu 1970, þegar menn greiða af gjöldum ársins 1969, muni skattar hækka töluvert. Ég skal ekki segja, hvað mikið þeir hækka, það er enn óákveðið. Skattvísitala hefur að sjálfsögðu áhrif á það að vega upp á móti hækkun gjaldanna, að svo miklu leyti sem nemur vísitöluhækkunum, en það auðvitað þarf ég ekki að skýra fyrir hv. þdm., að það hefur aldrei komið til álita, að skattvísitala hefði áhrif í þá átt, að hún lækkaði beinlínis skattana að því marki, sem tekjur manna vaxa að raungildi til. Þannig að það er auðvitað ljóst öllum, að á næsta ári munu útsvör manna og skattar hækka töluvert. Með hliðsjón af þessu blasir það við, að við þann vanda verði að glíma að óbreyttum lögum á næsta ári, að menn greiði fyrri hluta ársins skatta miðað við álögð gjöld, þ. e. ársins í ár, og síðan síðari hluta ársins standi þeir andspænis því að þurfa að borga mun hærri hluta mánaðarlega af sínum tekjum í opinber gjöld en ella hefði verið, ef fyrir fram hefði verið vitað, hver þeirra gjöld endanlega yrðu.

Í sannleika sagt skiptir þetta ekki ýkja miklu fyrir ríkissjóð vegna þess, að tekjur ríkisins af tekjusköttum nema ekki nema 10% af ríkistekjum. Þetta skiptir fyrst og fremst máli fyrir sveitarfélögin og getur skapað þeim stórfelld vandræði auk þess, sem ég segi, að það skipti ekki minna máli fyrir gjaldandann, að hann greiði með nokkuð jöfnum greiðslum árið út þessi gjöld sín, en fái ekki neina óvænta sveiflu, eftir að álagning hefur verið birt á tilsettum tíma. Frv. þetta, sem hér liggur fyrir, er flutt af hálfu ríkisstj., en í nánu samráði og í rauninni eftir ósk Sambands ísl. sveitarfélaga, og er þar gert ráð fyrir því, svo sem segir í 1. gr. frv., að hækki kaupgjald almennt í landinu um 15% eða meira árið áður, þá sé heimilt að hækka umframgreiðsluna umfram þau 50%, sem nú eru í gildi. Með þessu segir ekkert um það, að umframgreiðslan eigi að hækka um 15%, heldur aðeins, að það er viðmiðun til þess, að verði kauphækkunin 15%, þá er svo fyrir mælt, að fjmrn. geti að fengnum till. Efnahagsstofnunarinnar ákveðið í janúarmánuði, strax þegar fyrirframgreiðslur hefjast, að hve miklu leyti fyrirframgreiðsla á að hækka. Nú er það auðvitað rétt, að það verður aldrei fyrir fram nákvæmlega vitað, hvernig skattar manna verða, þannig að þetta yrði að vera áætlunartala, en það er auðvitað ljóst, að jafnvel þó að hún yrði eitthvað of há, þá hefði það engin áhrif á gjöld manna í reynd, vegna þess að þau verða ákveðin að sjálfsögðu við skattlagninguna á sínum tíma. En með þessu móti yrði jafnvægi. Þetta er hugsað til þess að orka til jafnvægis á gjaldgreiðslur manna þá 10 gjalddaga, sem nú eru notaðir hjá öllum launþegum til þess að innheimta gjöld manna viðkomandi ár.

Ég skal taka það fram, af því að ég hef heyrt það úr einstaka átt og ég hef rætt þetta við forystumenn einstakra stjórnarandstöðuflokka, að það er auðvitað ljóst, að þetta mál fer ekki í gegn fyrir áramót nema með samkomulagi, og í öðru lagi er það jafnljóst — og ég legg á það áherzlu — að þetta er ekkert ríkisstjórnarmál í þeirri merkingu, að ríkisstj. sem slík leggi áherzlu á, að þessi heimild verði lögfest. Það er ekki vegna sérstakrar tekjuöflunar fyrir ríkið, heldur eins og ég segi — og ég hygg, að við getum verið sammála um það — bæði til hagsbóta fyrir gjaldendur og ekki sízt sveitarfélögin. Vegna þessa tel ég nauðsynlegt, að um það geti orðið samstaða, og af þeim sökum hef ég ekkert á móti því, þó að þessu ákvæði yrði breytt. Ég hef heyrt það orðað jafnvel, að það væri óeðlilegt að láta fjmrh. ákveða þetta. Þetta er ekki til komið, vegna þess að ég hafi nokkra löngun til þess að ákveða þetta. Það er langt frá því. Og ef menn finna eitthvert annað form á því, þá er það mér gersamlega að meinfangalausu. Þetta er þannig orðað í frv.-uppkasti því, sem kom frá Sambandi ísl. sveitarfélaga, og því er þetta ákveðið með þessum hætti. En þar sem hér er um sameiginlegt atriði að ræða varðandi bæði útsvör og skatta, þá er þetta ekki flutt sem breyting á útsvars- og skattalögum þá hefði orðið að breyta hvorum tveggja þeim lögum — heldur er þetta flutt sem sérstakt mál, og ég skal jafnframt taka það fram, að í þeim skattalögum, sem má vænta, að verði að skattalagafrv., sem lagt yrði fyrir framhaldsþingið, þá verður gert ráð fyrir einhverju sambærilegu ákvæði, sem þar verði sett sem föst heimild.

Ég vildi leyfa mér að vonast til þess, að um þetta gæti orðið efnisleg samstaða, þótt — eins og ég segi — menn kunni að óska einhverra breytinga á orðalagi og það sé sjálfsagt. Höfuðatriðið er, að um það geti orðið samstaða, en því aðeins verður auðið að afgreiða þetta fyrir áramót, að hv. þd. báðar verði sammála um það, að það skuli ná fram að ganga með eðlilegum hætti, og hafi nokkuð hröð handtök. Og þess vegna vil ég leyfa mér að óska eftir því, að hv. fjhn. d., sem málið fer til, gæti afgr. málið frá sér það snemma, að það væri hægt að taka það fyrir, ef það væru deildarfundir á morgun, og væri þá hægt að koma því áfram, því að ég reikna með því, að reynt verði að stefna að því, að ljúka þingi fyrir helgi. Ef ekki er neitt sérstakt, sem er óljóst fyrir mönnum í þessu efni, þá sé ég ekki ástæðu til þess, herra forseti, að ræða þetta mál frekar við þessa umr., en legg til, að frv. verði að umr. lokinni vísað til 2. umr. og hv. fjhn.