18.12.1970
Efri deild: 38. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 737 í B-deild Alþingistíðinda. (554)

176. mál, fyrirframinnheimta opinberra gjalda

Frsm. minni hl. (Björn Jónsson):

Herra forseti. Þegar hæstv. fjmrh. lagði þetta mál fyrir í hv. d., þá gat hann þess, að hann ætlaðist ekki til, að þetta mál næði fram að ganga nú fyrir hátíðir, nema um það væri fullt samkomulag. Þegar málið var síðan tekið fyrir í hv. fjhn., þá kom það í ljós, að raunverulega var þar meiri hl. á móti frv. a. m. k. í þeirri mynd, sem það var þá, og ég hygg, að raunverulega sé ekki meiri hl. fyrir þeirri breytingu, sem frv. fjallar um, í hv. fjhn. En þrátt fyrir það er nú á síðustu stundu reynt að þvinga þetta mál í gegnum hv. d., og tel ég það ekki vera í samræmi við þær yfirlýsingar, sem hæstv. fjmrh. gaf hér, þegar málið var til 1. umr.

Upphaflegt efni frv. var það, eins og menn gera sér grein fyrir, að leggja það í sjálfsvald fjmrh. hverju sinni, hver hækkun yrði á fyrirframgreiðslum, ef kaupgjald hefði hækkað um 15% eða meira árið áður. Þá var honum það í sjálfsvald sett eftir að hafa fengið um það till. Efnahagsstofnunarinnar. Nú hefur frv. að vísu verið fært í annað form með till. þeirri, sem meiri hl. hv. fjhn. hefur lagt fram og að mínu viti er það talsvert geðþekkara form. A. m. k. er nú ljóst, um hvað er verið að fjalla, og hv. þm. geta gert sér grein fyrir því, hvað raunverulega er verið að samþykkja. En eftir stendur það, sem auðvitað er aðalatriði þessa máls, að ákveðið er að auka mjög fyrirframgreiðslu opinberra gjalda, ef svo stendur á sem í frv. segir, að kaup hafi hækkað árið áður um þar til greinda prósentutölu. Og þetta er rökstutt með ríkum þörfum sveitarfélaganna annars vegar og hins vegar hagsmunum almennra gjaldenda.

Ég held, að séu aðalröksemdirnar fyrir hagsmunum sveitarfélaganna skoðaðar í þessu sambandi, þá sé það augljóst, að hér er ekki um neitt nýtt vandamál að ræða — ekkert sérstakt vandamál, sem hefur einmitt komið upp um þessar mundir, heldur er hér um atriði að ræða, sem sveitarfélögin hafa átt við að glíma árum og jafnvel áratugum saman, og stundum hefur kaupgjald hækkað meira en það hefur gert nú á s. l. ári. Ég nefni t. d. árið 1963, þegar kaupgjald hækkaði um eða yfir 30%. Ég vil ekki synja fyrir það, að sveitarfélögin hafi ekki þarna talsverðra hagsmuna að gæta og þau þurfi með einhverjum hætti að geta leyst þann vanda, ef minni hl. af tekjunum kemur inn fyrri hluta árs, en ég tel, að gjaldheimta þeirra sé nú almennt svo vel tryggð, að það ætti ekki að vera nein goðgá, þó að bankakerfinu væri ætlað að hlaupa þarna undir bagga, þegar sérstaklega stendur á, og tel það raunverulega sjálfsagða skyldu þess og öllu eðli málsins samkvæmt.

Sannleikurinn er nefnilega sá, að það er ekki aðeins, að hér sé ekki um neitt nýtt vandamál að ræða, sem þurfi sérstakrar meðhöndlunar við nú, heldur er það svo, að gjaldheimta hins opinbera bæði sveitarfélaga og ríkis er miklum mun betur tryggð nú en hún hefur nokkurn tíma verið áður. Það er augljóst, að það er með ýmsum hætti verið að færa gjaldheimtuna í það horf að tryggja betur en áður hagsmuni gjaldheimtuaðilanna, ríkis og bæjarfélaga, og nú síðast með því að setja t. d. það sem skilyrði fyrir frádráttarhæfni útsvara við álagningu næsta árs, að helmingur útsvara miðað við þær reglur, sem gilt hafa, væri greiddur fyrir 31. júní, og ýmislegt fleira hefur verið gert á s. l. árum til þess að tryggja betur en áður hagsmuni hins opinbera og sveitarfélaganna í þessum efnum. Það er þess vegna síður en svo, að það sé nokkur ástæða til þess að knýja nú fastar á með strangari gjaldheimtuaðferðir en áður. Það er ekkert nýtt, sem hefur gerzt í þessum efnum. En þar fyrir er það auðvitað alltaf einhver hagur fyrir þann, sem innheimtir, að ákveða, að hann fái það sem fyrst greitt. Ég get auðvitað ekki synjað fyrir það, að þetta sé til þæginda fyrir sveitarstjórnarmenn, en ég held, að þarna sé ekkert óyfirstíganlegt á ferðinni, sem ekki verður leyst með öðrum og eðlilegri hætti en hér er um fjallað.

Þá er að líta á aðra hlið málsins, þ. e. þá, sem séð verður frá hlið gjaldendanna, og er ég þar alveg á öndverðri skoðun við þá, sem fram kemur í málflutningi fyrir þessu frv., að hér sé sérstaklega verið að gæta hagsmuna gjaldendanna, þ. e. bæði atvinnurekenda og launþega. Ég held, að það sé síður en svo. Í fyrsta lagi kemur það til, að ég tel, að allir gjaldendur almennt eigi auðveldara með að greiða eitthvað meira á síðari árshelmingi og það sé þess vegna þeim í hag, að ekki sé gengið of ríkt eftir gjöldum á fyrri hlutanum, þó að þar verði auðvitað að vera hóf á, hvernig með er farið, og þetta stafar af þeirri augljósu staðreynd, að menn hafa almennt meiri tekjur og meiri tekjumöguleika á síðari árshelmingi miðað við þá atvinnuhætti, sem við búum við í þessu landi. Hér er sérstaklega fjallað um tíma „örra kauphækkana“ og ráðstafanir rökstuddar með því. En einmitt á tímum örra kauphækkana hlýtur það auðvitað að vera augljóst, að kaup er þá almennt hærra á síðari helmingi ársins, og höfum við auðvitað um þetta glögg dæmi, hvar sem við grípum niður á síðari árum, að þetta er svo. En það er ekki aðeins um það að ræða, að á slíkum tímum, sem hér um ræðir, hafi fólk að krónutölu eitthvað hærra kaup, heldur eru tekjumöguleikar manna almennt meiri. Sumarið er t. d. sá tími, sem fleiri fjölskyldumeðlimir vinna, og jafnframt þá sá tími, sem útgjöld eru eitthvað minni en á öðrum árstímum, þegar börn eru í skóla, vetur sezt að og annað því um líkt, sem hefur ýmis útgjöld í för með sér, þannig að almennur gjaldandi á líka af þessum ástæðum auðveldara með að greiða eitthvað meira af sínum gjöldum á síðari árshelmingi. Varðandi fyrirtækin er það auðvitað alveg auðsætt, að því hraðari sem gjaldheimtan er á fyrri hluta árs og því fyrr á árinu sem menn verða að greiða, þeim mun meira vex lánsfjárþörf þeirra, og yfirleitt er talið, að henni sé illa fullnægt hér í okkar landi.

Ég held þess vegna, að það sé alveg auðsætt, að hér eiga almennir gjaldendur, vinnuþiggjendur og atvinnurekendur, sameiginlegra hagsmuna að gæta, og kom það raunar beint fram í ræðu hv. frsm., að hann taldi, að hér ættu menn sameiginlegra hagsmuna að gæta, bæði atvinnurekendur og launþegar, enda kom það skýrt í ljós á fundum hv. fjhn., að hv. 7. landsk. þm. er á móti þessu frv. og telur báðum aðilum hag í því, að það verði ekki samþ., þó að hann af einhverri skilinni eða misskilinni þægð við hæstv. fjmrh. gerist talsmaður fyrir framgangi málsins. Við þetta bætist svo það, að nú á þessu ári stendur alveg sérstaklega á að því leyti, að með þessari löggjöf hefur á hv. Alþ. a. m. k. verið gerð tilraun til þess að lækka kaup með lögum og er tvísýnt, hvort það tekst ekki að einhverju leyti a. m. k., þannig að það er nokkuð auðsætt, að á fyrri árshelmingi og fyrri hluta síðari árshelmings verður hér um sérstaka kaupskerðingu að ræða af hálfu löggjafans eða a. m. k. gerð tilraun til að koma henni á. Aftur á móti mætti ætla, að eftir 1. sept. og sérstaklega eftir 1. okt. n. k. yrði hér veruleg breyting á, og það styður auðvitað þá skoðun, sem ég held fram, að það sé ekki hagsmunamál almennra gjaldenda, að hér sé gengið of hart að á fyrri helmingi ársins.

En við þessar röksemdir, sem ég hef fært fram fyrir þeirri afstöðu minni að vera andvígur þessu frv., bætist það, að ég hef sérstaka óbeit á þeirri þróun, sem hefur átt sér stað hér á undanförnum árum og ég vil kalla þróun í átt til vélræns miskunnarleysis í sambandi við alla innheimtu opinberra gjalda. Þetta hófst ekki sízt með því, þegar núverandi stjórnarflokkar breyttu útsvarslöggjöfinni á þá lund, að ekki er lengur lagt á eftir efnum og ástæðum og sveitarstjórnum er meinað að taka tillit til ýmissa atriða, sem áður mátti hafa hliðsjón af. Síðan var stöðugt hert á gjaldheimtunni með öllum hugsanlegum hætti og nú síðast með því að setja sérstök lög um það, að menn skuli greiða gjöld sin á þeim árstíma, sem þeim er miklu óhentugra en það fyrirkomulag, sem verið hefur. Ég hef óbeit á þessari þróun og tel hana í alla staði vera andstæða okkar hugsunarhætti og hagsmunum almennings, og ég held, að það sé kominn tími til þess, að hér sé spyrnt við fótum. Og ég tel, að einmitt sé tækifæri til að gera það í sambandi við flutning þessa frv. Og ég vænti þess því, að fleiri hv. þdm. en ég hafi á þessu svipaða skoðun og greiði atkv. gegn frv.