04.02.1971
Efri deild: 45. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 753 í B-deild Alþingistíðinda. (566)

176. mál, fyrirframinnheimta opinberra gjalda

Axel Jónsson:

Herra forseti. Ég lýsti ítarlega skoðun minni á þessu máli hér við 2. umr. málsins. Ég sé ekki ástæðu til þess að endurtaka það. Ég kom einmitt inn á það, að ég teldi eðlilegt að hækka þetta mark fyrir árið 1971 frá því, sem þar var gert ráð fyrir — frá 57% í 60%, og færði rök að því sem sveitarstjórnarmaður og kunnugur þeim þörfum og þeim vanda, sem sveitarstjórnir og sveitarfélög eru í einmitt þetta ár vegna þess, að það verður svo mikil breyting á þeim tilkostnaði, sem sveitarfélögin standa frammi fyrir miðað við hundraðshluta af áætluðum útsvörum s. l. árs, en l. samkv. er hægt að innheimta á fyrri hluta ársins 50% af gjöldum fyrra árs. Það er talað um, að þetta muni miklu fyrir Reykvíkinga. Það er rétt, að þar eru tölurnar hæstar, en ég hygg þó, að þó að útsvörin séu 65% af tekjum Reykjavíkurborgar, þá sé það þó einhver lægsta prósentan hjá kaupstöðunum, þegar litið er á heildartekjur þeirra. Svo mikið er víst, að í þeim kaupstað, sem ég þekki gleggst til — í Kópavogi, þá eru útsvarstekjurnar yfir 70%, og þannig mun það vera víðar. Og ég vil vitna til þess, sem hæstv. fjmrh. sagði, að síðan þetta mál var hér til umr. hjá okkur fyrr í vetur, hafa fjölmargar sveitarstjórnir samþykkt — og margar þeirra einróma — tilmæli til Alþ. um að gera hér breytingu á frá því, sem nú er í gildi með tilliti til þess vanda, sem sveitarstjórnirnar standa frammi fyrir. Og ég get upplýst það, að í bæjarstjórn Kópavogs, sem fulltrúar allra þeirra flokka, sem eiga fulltrúa hér á hv. Alþ., sitja í, var þetta einróma samþykkt, og höfðu allir skilning á þeirri ríku nauðsyn að koma þessu fram.

Og ég skal endurtaka það, sem ég sagði við umr. á fyrra stigi þessa máls, að hvað viðkemur því sveitarfélagi, þá er dæmið þannig: Á s. l. ári var útsvarsupphæðin 96 millj. kr. Það þýðir það, að að óbreyttum ákvæðum mættum við innheimta 48 millj. kr. á fyrri hluta ársins. Nú er útsvarsupphæðin áætluð 128 millj. kr. Það mundi jafngilda því, að að óbreyttu mætti innheimta 48 millj. kr. á fyrri helmingi ársins og 80 millj. kr. á seinni helmingnum, og það mundi skapa algert vandræða- og neyðarástand hjá því sveitarfélagi, ef þessu yrði ekki breytt. Ef þessi breyting næði fram að ganga, þá er langt frá því, að þrátt fyrir það yrði um það að ræða, að hægt sé að innheimta 50% af áætlaðri útsvarsupphæð í ár á fyrri hluta ársins, og ég vil aðeins vekja athygli á því, að þó að þessi 60% verði samþykkt, sem ég tel þó til mikilla bóta, þá mættum við innheimta 58 millj. kr. af þessum 128 og ættum 70 til innheimtu á seinni hlutanum, þannig að það er langt frá því, að við séum að nálgast það mark, að sveitarstjórnirnar hafi möguleika á því að ná inn 50% af væntanlegum útsvarstekjum á fyrra helmingi ársins í ár, þó að þessi breyting verði samþykkt.

Ég vil svo, herra forseti, ekki hafa þessi orð fleiri. Ég endurtek það, að ég lýsi minni afstöðu sem sveitarstjórnarmanns til þessa máls við fyrri umr. hér, en fagna því, að það er þó komið á þetta stig, sem ég taldi þá, að væri verulega nauðsynlegt að koma til leiðar, þó að það vissulega kæmist ekki svo langt, að sveitarfélögin næðu 50% af sínum útsvarstekjum til innheimtu á fyrri hluta ársins.