10.11.1970
Neðri deild: 15. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 107 í B-deild Alþingistíðinda. (57)

101. mál, atvinnuöryggi

Halldór E. Sigurðsson:

Herra forseti. Þegar hæstv. viðskmrh. var kominn þar í ræðu sinni í gær, að hann var farinn að reyna að sannfæra hv. þm. um það, að það væri mikill hagnaður fyrir launþega að gefa eftir 3 vísitölustig af launum sínum, eins og gert er ráð fyrir með þessu frv., þá datt mér í hug saga af séra Árna Þórarinssyni prófasti, en samherji hans í prestastétt var að segja honum frá öðrum presti, sem þótti snjall áróðursmaður, en var ekki eins sinnaður í trúmálum og þessir tveir. Og þegar hann hafði lýst vinnubrögðum þessa prests fyrir séra Árna, þá bætti sögumaður við, að hann yrði nú ekki lengi að afkristna söfnuð sinn, og spurði svo séra Árna í leiðinni: „Þekkir þú nokkurn annan jafnsnjallan?“ Þá sagði séra Árni: „Ég þekki annan, sem er miklu betri, því að hann getur afkristnað heil sólkerfi og verið fljótur að því.“

Málflutningur hæstv. viðskmrh. var með þeim hætti, að það var hægt að gera ráð fyrir því, að hann ætlaði sér að vera fljótur að afkristna heil sólkerfi.

Hæstv. viðskmrh. kvartaði yfir því, að við stjórnarandstöðuræðumenn hefðum verið linir í málflutningi okkar í gær, þegar við töluðum hér. Út af fyrir sig hef ég ekkert nema gott um það að segja, að það sé talið svo um minn málflutning, að ég noti ekki stóryrði, því að það tel ég mig ekki gera. En hversu linur ég var í þessum málflutningi, það verður ráðh. að meta. Ég hélt því fram, að hér væri um sýndarmennsku eina að ræða, það væri verið að undirbúa kosningarnar með þessari sýndarmennsku. Það segir hæstv. ráðh., að sé linlega að staðið. Af hverju? Af því að hæstv. ráðh. veit, að þetta er rétt.

Ég hélt því líka fram, að það hefði verið heimild í lögum til þess að koma á þeirri verðstöðvun, sem þetta frv. gerir ráð fyrir, og því væri það óþarft, og reyndar væri hæstv. ríkisstj. búin að gera þetta með ákvörðun sinni 1. nóv. En hún hafði áður verið búin að auglýsa eftir verðhækkunum, til þess að þeir, sem vildu búa sig undir, gætu gert það. Þetta segir hæstv. ráðh., að sé linlega að staðið. Hér er rétt með farið, og það er að dómi hæstv. ráðh. linlega að staðið, þegar þannig er skýrt frá málunum.

Ég skýrði frá því hér í ræðu minni í gær, hvernig reynslan hefði verið af verðstöðvuninni 1967 og hvernig vinnubrögð hæstv. ríkisstj. hefðu verið. Um það nefndi ég mörg dæmi, en hæstv. ráðh. sagði hér linlega að staðið, því að það var aðeins sagt, sem rétt var. Út af fyrir sig, þá hef ég ekkert við það að athuga, þó að það sé að dómi hæstv. ráðh. linlega að staðið, þegar maður viðhefur réttan málflutning. Svo kom hæstv. ráðh. og sagði, að þetta frv. og þessi lausn væri sérstaklega vel undirbúið, alveg sérstaklega, óvenjulega vel undirbúið. En ef menn fara og leita í gögnum viðvíkjandi gengisbreytingunni, sem var gerð í nóv. 1967, þá finna þeir þessa setningu: „Engin gengisbreyting hefur verið jafn vel hugsuð og vel undirbúin,“ en hún dugði ekki í rúman mánuð. Þá var farið að lappa upp á hana, og það var verið að því í 10 mánuði, og á 11. mánuðinum var gengisbreytingunni kollvarpað og ný gengisbreyting gerð.

Ekki er að undra, þótt hv. þm. yrðu hrifnir af því, þegar hæstv. viðskmrh. gefur út yfirlýsingu um, hvað mál séu sérstaklega vel undirbúin, og svo kom framhaldið, að þessi lausn væri skynsamleg og réttlát, sérstaklega skynsamleg og réttlát. Nú má það vel vera, að þetta sé svo frá sjónarmiði ráðh., en hvenær er það, hæstv. viðskmrh., sem þínar till. í málum eru ekki skynsamlegar og réttlátar frá þínum bæjardyrum séð? Þetta er ekki í fyrsta skiptið, sem hæstv. viðskmrh. lýsir því yfir, að hann fari með það eitt, sem sé skynsamlegt og réttlátt. Ég minni á það, að þegar verðstöðvunin 1967 var að fjara út, þá fór þessi hæstv. viðskmrh. í útvarpið og sjónvarpið og sagði að kvöldi 25. ágúst, og frá því var skýrt í Alþýðublaðinu hinn 26.: „En ég fullyrði, að rétta leiðin er ekki gengisbreyting, ég fullyrði, að rétta leiðin er ekki gengisbreyting.“ Hann var alveg sannfærður um það, hæstv. viðskmrh., að hann fór með rétt mál. Hann hafði aðstöðu til að meta þetta, og hann hafði gáfur og hæfileika til þess. Og rétta leiðin var ekki gengisbreyting, sem hann gerði þó í nóv., þ. e. þremur mánuðum seinna. En gengisbreytingin, sem þá var verið að gera, var þá eina rétta leiðin og allt annað var tóm vitleysa og ekkert nema til að glata fjárhagsgetu þjóðarinnar og sjálfstæði. Svona var þetta.

Hæstv. ráðh. talar um það, að þetta sé réttlátt. Einu sinni talaði hæstv. núv. viðskmrh. um rangláta skatta. Og það var í okt. 1953. Þá sagði hæstv. núv. viðskmrh., Gylfi Þ. Gíslason, þetta um söluskattinn, með leyfi hæstv. forseta:

„Við þetta allt saman bætist svo, að söluskatturinn er í eðli sínu ranglátur. Það er einhver ranglátasti skattur, sem lagður hefur verið á af íslenzka löggjafarvaldinu.“

En hvað er söluskatturinn nú? Hann er nú réttlátasti skattur, sem lagður hefur verið á af íslenzka löggjafanum að dómi hæstv. viðskmrh. Þannig túlkar þessi hæstv. viðskmrh. söluskattinn nú, þegar hann er hærri en nokkru sinni fyrr. Það er því ekki mikils virði, þó hæstv. viðskmrh. Lýsi því yfir, að hér sé um réttláta og skynsamlega leið að ræða, því að á morgun getur þessi leið verið sú eina ranga og önnur komin í staðinn. Þetta er aðeins sýnishorn af því, hversu mikils virði slík yfirlýsing er af hendi hæstv. viðskmrh.

Hæstv. viðskmrh. vék að afgreiðslu efnahagsmálanna 1956. Hv. 2. landsk. þm. lýsti því í dag, svo að ég þarf þar litlu við að bæta. En það var nú annað viðhorf hæstv. viðskmrh. þá en nú, og það var líka öðruvísi staðið að því máli þá en nú. Í fyrsta lagi, eins og hann vék að í gær, þá var ástandið í efnahagsmálum þjóðarinnar 1956 ekkert sambærilegt við það, sem nú er. Í öðru lagi var svo að þessu máli unnið með þeim hætti, að það var ekki auglýst eftir verðhækkunum 1956, svo að það væri búið að gera þær, áður en að verðstöðvunin var ákveðin. Það kom einmitt fram í umr. hér á hv. Alþ. þá, að hæstv. ríkisstj. hefði ekki viljað auglýsa aðgerðir sínar af ótta við, að verðhækkanirnar yrðu gerðar. Hv. 2. landsk. þm. nefndi því líka í dag, að samstarf, sem haft var þá við verka- eða launþegastéttirnar og samtök þeirra, var með öðrum hætti en nú, þegar viðræður stóðu yfir við þessa aðila og upp úr þeim slitnaði, vegna þess að þeir vildu ekki samþykkja það, sem nú á að gera. Þess vegna er þetta ekki sambærilegt við það, sem hér er um að ræða.

Hæstv. viðskmrh. sagði í ræðu sinni í gær, að hér væri um mjög torleyst mál að ræða í þessum efnahagsvanda, sem hér væri verið að fást við. Ef litið er aftur til haustsins 1967, þá vil ég, með leyfi hæstv. forseta, lesa upp úr upphafi að athugasemdum við lagafrv., sem hæstv. ríkisstj. flutti þá um aðgerðir í efnahagsmálum. Það frv. var flutt, á meðan hæstv. viðskmrh. og aðrir hans samstarfsmenn voru á því, að gengisbreyting væri ranga leiðin, hún væri ekki rétta leiðin:

„Eins og alkunna er, breyttust á árinu 1966 mjög til hins verra viðhorf í efnahagsmálum vegna verðfalls íslenzkra afurða á erlendum mörkuðum. Þessi viðhorf hafa enn versnað á árinu 1967. Verðfall, einkum á fiskimjöli og síldarlýsi, hefur orðið meira og staðið lengur en ástæða hafði í fyrstu verið talin til að ætla. Óvenjulegar ógæftir voru á vetrarvertíð og síldin hefur haldið sér langt burtu frá landinu í sumar.“

Þetta voru talin rökin fyrir því, að ástandið í efnahagsmálum væri mjög erfitt. Nú segir hæstv. viðskmrh., að efnahagsmálin séu mjög torleyst. Hver er ástæðan fyrir því? Er ástæðan sú sama og var vitnað til í grg. með frv. um efnahagsmálin 1967? Á þessu ári hafa verið óvenjugóð aflabrögð, óvenjugóðar gæftir og verð síhækkandi og það er nú hærra en nokkru sinni fyrr. Hvaða ástæða er þá til að halda því fram, að efnahagsmálin séu torleyst? Þar við bætist svo, að kaupgjald hér á landi fram á mitt ár 1970 og allt árið 1969, var að allra dómi talið svo lágt, að Ísland tilheyrði láglaunasvæði, eins og það var orðað, og að allra mati var talað um, að það þyrfti að breyta hér um. Hvaða ástæða er til þess, þegar kaupgjaldið er orðið með eðlilegum hætti, að hér séu torleyst efnahagsvandræði miðað við það ástand, sem nú er?

Það er eitt af því sem hæstv. ráðh. eru alltaf sannfærðir um, þegar þeir tala um efnahagsmál, að þeirra stefna sé sú eina rétta, og alltaf finna þeir réttu lausnina. Hvað gerði hæstv. ríkisstj., þegar hlé varð á, eftir að samið var um launakjör 1968, eða fyrri hluta ársins 1969, til þess að reyna að halda verðbólgunni niðri? Hver voru viðbrögð hennar til að reyna að forðast það, að ný verðbólguskriða skylli á? Mér þætti vænt um að fá upplýsingar um það, hvað hæstv. ríkisstj. gerði til þess.

Ég minnist þess hins vegar, að við Framsóknarflokksmenn fluttum í fyrra frv., eins og við höfum gert nú, um að afnema söluskatt af mestu nauðsynjum. Við héldum því fram, að þetta væri spor í þá átt að draga úr verðbólgu og það væri nauðsynlegt að nota nú tækifærið til þess að koma þessu á, áður en til nýrra átaka kæmi á vinnumarkaðinum. Hvað var sagt hér á hæstv. Alþ.? Það var talað um ábyrgðarleysi al okkar hendi, vegna þess að ríkissjóð mundi skorta þessa fjármuni í ríkiskerfið. Það var ekki hlustað á það, að þetta atriði væri nokkurs virði gagnvart verðbólgu.

Ég vil leyfa mér í þessu sambandi að koma með eitt vitni, sem hugsaði þessi mál svipað og við flm. frv. um að fella niður söluskatt af nauðsynjum yfirleitt. Þetta vitni er Haraldur Guðmundsson, fyrrv. ráðh. og sendiherra, merkur þingskörungur. En hann sagði um söluskattinn, og tók þar undir með flokksbróður sínum, hæstv. núv. viðskmrh., að hann væri ranglátur. Þetta er í Alþt. frá haustinu 1953, og með leyfi hæstv. forseta, vil ég vitna til þess. Þar segir hann, að söluskatturinn sé ranglátur og óskynsamlegur og í öðru lagi segir Haraldur orðrétt: „Liggur í augum uppi, að söluskattur hlýtur að hækka verðlag í landinu og þar með dýrtíðina.“

Þetta var okkar skoðun, og við vildum halda því fram, að það væri nauðsynlegt að nota árið í fyrra betur til þess að forðast það að hleypa slíkum verðbólgugjafa inn í verðlagið og söluskatti á mestu nauðsynjum. En viðbrögðin urðu þau, að í staðinn fyrir að fella niður söluskatt af mestu nauðsynjum, var hann hækkaður upp í 11%.

Við lögðum líka til, framsóknarmenn, að skattamálið yrði tekið með þeim hætti, að persónufrádráttur til skatts yrði hækkaður, til þess að launþegarnir m. a. þyrftu ekki að krefjast eins mikillar kauphækkunar og þeir yrðu að gera með þessum skattbyrðum. Á þetta var ekki hlustað. Ríkissjóður mátti ekki tapa tekjunum. Nú er það svo, að það mundi kosta ríkissjóð eitthvað hátt á fjórða hundrað millj. kr., ef söluskatturinn yrði felldur niður af þeim vörum, sem við lögðum til. En það mundi þýða aftur, að það mundi lækka vísitölustig, a. m. k. 1.8 til 2. Nú er hér á hv. Alþ. verið að fjalla um það að greiða niður vöruverð, og hér á að greiða niður landbúnaðarvörur um 3.6 vísitölustig. Það kostar 640 millj. kr. Eftir sömu reglum mundu á fjórða hundrað millj, kr. sparast aftur í þeim vísitölustigum, ef þessi skattur væri lagður niður.

Og hvað segir svo sjálft fjárlagafrv. um afleiðinguna af verðbólgustefnu hæstv. ríkisstjórnar? Grg. fjárlagafrv. segir svo m. a., með leyfi hæstv. forseta: „Frv. gefur hins vegar eftirtektarverða mynd af áhrifum hinna miklu launa- og verðlagshækkana á hag ríkissjóðs.“ Fjárlagafrv. hækkar um 2000 millj. kr. vegna verðbólgunnar m: a., og að því er höfundarnir segja, fyrst og fremst vegna hennar. En að tala um það að fella niður söluskatt af nauðsynjum eða lagfæra persónufrádrátt til skatts, það var ábyrgðarleysi stjórnarandstæðinga og sýndi, hvað þeir voru óhæfir til að fást við slíkt mál.

Það var líka, þegar við stjórnarandstæðingar fluttum hér á Alþ. till. til breytinga í sambandi við fjárlagaafgreiðsluna um að hækka fjölskyldubætur og aðrar bætur trygginganna í fyrra, sagt hið mesta ábyrgðarleysi. En þegar hæstv. ríkisstj. þurfti í sumar að laga til fyrir Alþfl., vegna þess hvernig hann fór út úr kosningunum í Reykjavík, og ákvað á miðju sumri að hækka ellilaun og slíkt, þá var það gert af ábyrgð. Þar voru menn að verki, sem tóku raunhæft á málefnum þjóðarinnar. Hitt var ábyrgðarleysi.

Nei, það er ekki sama, hvernig á þessi mál er litið og að þeim staðið. Og halda hv. alþm., að viðhorfin við kjarasamningana í sumar hefðu verið hin sömu, ef 11% söluskattur hefði ekki verið á mestu lífsnauðsynjum, eða halda þeir, að þau hefðu verið hin sömu, ef persónufrádráttur til skatts hefði verið réttlátari en nú er? Það getur enginn haldið því fram með rökum, að það hefðu verið sömu viðhorf, ef það hefði verið búið að undirbúa þau átök, sem þá urðu. Hvað hefur svo hæstv. ríkisstj. gert, síðan samið var á s. l. vori? Það, sem hún hefur gert, er að auglýsa eftir verðhækkunum, eins og bent hefur verið hér á, með því að tilkynna það, að hún ætlaði að stöðva verðlagið með svokallaðri verðstöðvun, eins og nú er talað um að gera.

Hver er þá ástæðan fyrir þessu ástandi, eins og hér er nú? Góðærið núna er eitt hið mesta, sem verið hefur. Þrátt fyrir þetta talar hæstv. viðskmrh. um torleyst verkefni í efnahagsmálum. Það skyldi þó aldrei vera, að það væri stefnan sjálf? Mér dettur ekki í hug að halda því fram, að hæstv. ráðh. fari að viðurkenna slíkt. Það væri óeðlilegt með öllu.

Það, sem hæstv. viðskmrh. taldi „mottóið“ í sinni ræðu og sem allt byggðist á, var það, að kaupmáttur launa í landinu nú væri ekki verri en á verstu árum aldarinnar, eins og hann orðaði það, árunum 1956 og 1957. En kaupmáttur launanna, sem hann stærði sig af nú, er álíka og hann var á þeim árum, þessum árum, sem hæstv. ráðh. sagði sjálfur, að hefðu verið ein verstu ár aldarinnar. Það var út af fyrir sig einn skemmtilegur þáttur í þessari merkilegu ræðu, sem var nú öll í stíl, þetta, sem hann taldi svo vel að verið. Og þarf nokkurn að undra, þó að hæstv. ríkisstj. hefði ekki með aðgerðum sínum í efnahagsmálum verið búin að slátra kauphækkunum, sem launþegar urðu að vera í þriggja vikna verkfalli út af til að sækja í hendur atvinnurekenda, eftir 2–3 mánuði. Og þá værum við komnir aftur niður á það stig, sem við sjálfir sögðum, að væri láglaunasvæði, sem íslenzka þjóðin gæti ekki unað við.

Hæstv. viðskmrh. vék að hinni leiðinni. Það voru höft og þess háttar, sem hin leiðin boðaði. Ég hef oft undrað mig á því, þegar hæstv. stjórnarsinnar og ráðh. eru að reyna að kenna Framsfl. alltaf um höftin, þó að þeir hafi sjálfir átt viðskmrh. í þeim ríkisstj., sem hafa orðið að beita höftum, vegna þess að að mati þeirra samstarfsflokka, sem að þeim stóðu, voru ekki aðrar leiðir færar til þess að leysa málefni þjóðarinnar þá. Á árunum 1947–1950 átti Alþfl. forsrh. í þeirri ríkisstj., er þá sat að völdum. Samt vill nú hæstv. ráðh. álíta það, að höftin tilheyrðu Framsfl. En það, sem hæstv. ráðh. virðist ekki átta sig á, — hann gerir það að vísu, en vill ekki viðurkenna það, — er það, að stefna Framsfl. er m. a. sú, að það eigi að reyna að draga úr framleiðslukostnaði, það sé leiðin, sem eigi að fara. Það eigi að draga úr framleiðslukostnaðinum og á þann hátt komast fram hjá gegndarlausri verðbólgu, gengisbreytingum og öðru slíku, sem hafa verið óskabörn hæstv. núv. ríkisstj. Framsfl. hefur alltaf haldið því fram, að það væri leiðin, sem ætti að athuga, og reyna þannig að koma atvinnuvegunum á heilbrigðan og traustan grundvöll. Hins vegar hefur hann líka haldið því fram, eða hélt því fram árið 1968, að hann væri undir það búinn að athuga fleiri leiðir, þegar væri búið að leggja það niður fyrir sér, hvað hægt væri að komast eftir þeirri leið. Þess vegna held ég, að hæstv. viðskmrh. væri það hollt að fara að kynna sér hina leiðina, og e. t. v. fer það nú svo, að það verði ekki langt þangað til, að hann verði orðinn einn bezti talsmaður hennar.