22.02.1971
Neðri deild: 50. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 757 í B-deild Alþingistíðinda. (577)

176. mál, fyrirframinnheimta opinberra gjalda

Frsm. (Geir Hallgrímsson):

Herra forseti. Eins og fram kemur á þskj. nr. 384, þá hefur fjhn. haft þetta frv. til athugunar og leggur til, að það verði samþ. óbreytt, eins og það kemur frá Ed. Einn nm. var fjarstaddur, hv. þm. Þórarinn Þórarinsson, og annar undirritaði nál. með fyrirvara, eins og þar kemur fram. Það er óþarft að gera ítarlega grein fyrir þessu frv., þar sem hæstv. fjmrh. gerði það við 1. umr. þessa máls í d., og skal ég því fara fljótt yfir sögu. Frv. er upphaflega borið fram samkv. ósk Sambands ísl. sveitarfélaga, og fyrir hæstv. Alþ. liggja áskoranir og tilmæli margra einstakra sveitarfélaga um, að efni frv. verði lögfest. En eins og hv. þm. vita, þá hefur hv. Alþ. hækkað að krónutölu að mun upphæð tekjuskatts, sem áætlað er að innheimta á þessu ári, og á sama hátt hafa einstakar sveitarstjórnir hækkað að krónutölu upphæð útsvara í samræmi við þær kauplags- og kostnaðarbreytingar, sem orðið hafa frá ári til árs. Það væri því mjög erfitt um vik vegna fjárhags sveitarfélaganna, ef ekki væri aukin eða rýmkuð heimild þeirra til innheimtu opinberra gjalda eða fyrirframgreiðslu þeirra. Það kann að vera, að það skipti ekki eins miklu máli fyrir ríkissjóð, en fyrir gjaldendur er það einnig til hagsbóta að jafna gjaldabyrði opinberra gjalda á allt árið og er í anda þess, að í lög verði komið staðgreiðslukerfi opinberra gjalda eða þokazt nær því.

Herra forseti. Ég skal ekki hafa fleiri orð um þetta mál, en vil mælast til þess við hv. þd., að hún flýti afgreiðslu þessa máls eins og unnt er, því að ætlunin er samkv. þessu frv., ef að lögum verður, að nýta gjalddaga fyrirframgreiðslu opinberra gjalda, en þegar er einn þeirra liðinn og fjórir eftir, og því væri æskilegt, að unnt væri að jafna þessari hækkun á þá fjóra gjalddaga alla, sem eftir eru, svo að þetta komi sem bezt fram fyrir gjaldendur almennt.