22.02.1971
Neðri deild: 50. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 758 í B-deild Alþingistíðinda. (578)

176. mál, fyrirframinnheimta opinberra gjalda

Eðvarð Sigurðsson:

Herra forseti. Ég efast ekki um það, að frv. það, sem hér liggur fyrir, er til hagræðis fyrir sveitarfélögin. Það má ef til vill segja líka, að það sé að einhverju leyti til hagræðis, en ekki til skaða, fyrir þá, sem hafa föst laun allt árið, en fyrir ýmsa aðra er þetta frv. ekki þægilegt. Það er svo, að reynsla undangenginna ára æðimargra sýnir, að mikið af fólki, sem ekki hefur föst störf og raunar einnig stór hluti fólks, sem er í almennri vinnu verkafólks, hefur mun drýgri tekjur síðari hluta ársins.

Þess vegna er ekki eins slæmt kannske og margir kynnu að halda að hafa þann hátt á, sem verið hefur, að menn greiði helming álagðra gjalda ársins á undan á næsta ári. Þetta kemur því æðiþungt niður á þessu fólki, og svo er eitt atriði, sem ég er knúinn til að andmæla hér, en það er, að verið er að halda því fram, að við séum með því að hafa þennan hátt á, að taka stærri hluta af álögðum gjöldum í fyrirframgreiðslu, að færast nær staðgreiðslukerfinu. Ég sé ekki, að þetta atriði geti á nokkurn hátt í raun og veru færzt undir það, að við séum að færast nær staðgreiðslukerfinu. Staðgreiðslukerfið er einmitt það að greiða um leið og launin falla til. Hér eru menn að greiða af launum í samræmi við laun liðins árs. Það er verið að taka stærri hluta af launum næsta árs. Ég sé ekki, að þetta eigi neitt skylt við staðgreiðslukerfið, og ef svo væri, þá held ég, að það hefði verið rétt að taka ekki aðeins einn þátt. Við vitum, að það er alveg sérstaklega bagalegt fyrir fólk, sem er komið að því að hætta störfum og er að hætta störfum, að þurfa að greiða skatta sína á næsta ári, þegar engar tekjur falla til. Ef virkilega hefði nú verið ætlunin að færa þetta eitthvað nær staðgreiðslukerfinu, þá hefði svo sannarlega verið ástæða til — líka frá sjónarmiði sveitarfélaganna — að taka einmitt þetta atriði með í þessu frv. Ég er ekki að segja það, að hér sé um stórt mál að ræða með því efni, sem hér liggur fyrir í þessu frv. En það er eins með þetta eins og annað, sem varðar skattalögin. Það er verið að taka út eitt og eitt atriði, en heildarendurskoðun — sú endurskoðun, sem í raun og veru ætti að koma hinu vinnandi fólki fyrst og fremst að notum — gleymist; hún kemur ekki fram í dagsljósið. Ég mun þess vegna greiða atkv. gegn þessu frv. nú við þessa umr.