10.11.1970
Neðri deild: 15. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 126 í B-deild Alþingistíðinda. (61)

101. mál, atvinnuöryggi

Halldór E. Sigurðsson:

Herra forseti. Það er gott fyrir okkur litlu spámennina að kynna okkur, hvernig stóru spámennirnir tala hér á hv. Alþ., og mig undrar ekki, þótt við værum taldir linir í málflutningi, ef það er borið saman við ræðu hæstv. forsrh., því að hafi komið fram ósvífni í málflutningi, þá var það þar.

Hæstv. forsrh. kvartaði undan því, að verðhækkanirnar í landinu hafi ekki orðið nógu miklar, og þetta væru öfgar hjá okkur að tala um, hvað þær hefðu bólgnað nú á síðustu vikunum. En af hverju þarf hæstv. ríkisstj. að safna saman á milli 800 og 900 millj. í eins árs tekjum til þess að reyna að halda verðlaginu í skefjum, eins og það var í maí í vor, samanber ummæli viðskmrh.? Er það ekki af því, að hæstv. ríkisstj. hefur látið verðhækkanir dynja yfir látlaust? Hæstv. forsrh. getur sagt, hvað sem honum sýnist um það, en þetta er staðreynd.

Hæstv. forsrh. talar um það, að vinstri stjórnin hefði ekki ráðið við neitt, af því að hæstv. þáv. forsrh., Hermann Jónasson, lýsti því yfir hér á hv. Alþ., að það væri ekki samstaða um þá leið, sem hann taldi þörf á að koma fram, til þess að fylgja þeirri stefnu, sem hann hafði markað, og þá við síðustu alþingiskosningar, um að vinna gegn verðbólgunni. (Gripið fram í.) Það er þetta, sem um er að ræða, það veit hæstv. forsrh., Jóhann Hafstein, og þýðir ekkert að belgja sig um það. Hermann Jónasson gerði þá grein fyrir því, að hann hafði óskað eftir frestun á vísitölustigum í einn mánuð, meðan verið væri að kynna sér betur þær leiðir, sem fara ætti, að öðrum kosti yrðu þær greiddar. Hæstv. forsrh., Jóhann Hafstein, getur svo haldið því fram, að núv. valdhafar ráði við efnahagsmálin. Hann getur gert það hér úr þessum ræðustóli, en þjóðin veit það, að þeir ráða ekki við efnahagsmálin og hafa ekki gert, og þess vegna þurfa þeir að gera svona sýndarmennskuráðstafanir rétt fyrir kosningar.