08.02.1971
Neðri deild: 44. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 766 í B-deild Alþingistíðinda. (628)

23. mál, framleiðnisjóður landbúnaðarins

Frsm. meiri hl. (Bjartmar Guðmundsson):

Herra forseti. Á þskj. 318 liggur fyrir nál. frá meiri hl. landbn. í þessu máli. Á öðru þskj. er aftur á móti álit minni hl. Í desembermánuði 1966 var með l. stofnaður sá sjóður, sem hlaut nafnið framleiðnisjóður landbúnaðarins. Ég nota að sjálfsögðu þetta nafn, þó að það sé ákaflega erfitt í munni og ég hafi aldrei fellt mig við það. Ég held, að þessi sjóðsstofnun hafi verið eins konar jafnvægisráðstöfun til mótvægis við fjárveitingar til hagræðingar í fiskiðnaði hraðfrystihúsanna á sínum tíma, og á bak við stofnun sjóðsins liggur að sjálfsögðu þörf á auknu fjármagni til þeirra hluta, sem lög um sjóðinn fjalla um. En tilgangurinn er í stuttu máli sá að afla fjár til útlána og styrkveitinga til framleiðniaukningar og hagræðingar í landbúnaði og atvinnurekstri á bújörðum eins og segir í grg. Stofnfé var 20 millj. úr ríkissjóði og auk þess 10 millj. kr. framlag í 3 ár, alls 50 millj. Með fjárlögum 1969 féll niður greiðsla ríkissjóðs samkv. l. til sjóðsins. Á fskj. segir, að lán úr sjóði þessum hafi verið veitt til ársloka 1969, 24 millj. 880 þús. Á sama tíma hefur sjóðsstjórn úthlutað styrkjum kr. 21 millj. 290 þús. Alls gerir þetta rúmlega 46 millj. En eins og fyrr segir, voru tekjur sjóðsins af ríkisframlögum þessi 4 ár 50 millj. Kostnaður við starfrækslu sjóðsins og úthlutun úr honum hefur orðið í kringum hálfa millj. Ráðstöfunarfé sjóðsins á árinu 1970 er talið, að hafi verið um 8 millj., sem eru afborganir og vextir af lánum frá árunum 1967, 1968 og 1969. Þá segir í grg., að mikilsvert sé, að starfsemi sú, sem hafizt hefur á vegum þessa sjóðs, geti haldið áfram, enda hefur verið á það ýtt af bændasamtökunum. En starfsemin er einkum í því fólgin að stuðla að uppbyggingu sláturhúsa, sem svarað geti kröfum tímans og erlendra kjötkaupmanna, einnig að stuðla að því með styrkjum og lánum að koma upp tönkum til flutninga á mjólk til mjólkursamlaga.

Þá er þess að geta, að nokkur hluti af ráðstöfunarfé sjóðsins hefur farið til ýmiss konar rannsókna á vegum Rannsóknastofnunar landbúnaðarins. Allt er þetta að sjálfsögðu til þarflegra hluta. Eins og segir í aths. þeirri, hafði sjóðsstjórn nokkurt fé til ráðstöfunar s. l. ár. Á þessu ári, 1971, virðist það hins vegar vera mjög litið og sennilega ekkert nema smávægilegir vextir af lánum og einhverjar afborganir. Í þessu frv. er lagt til, að greiðslur í sjóðinn frá ríkissjóði hefjist að nýju árið 1972. Hafa þá 2 ár, árin 1970 og 1971, fallið úr, og ætlazt er til með frv., ef að lögum verður, að að nýju komi 50 millj. inn í þennan sjóð, greitt með 10 millj. kr. upphæð árlega í 5 ár, þ. e. a. s. á árunum 1972–1976. Hef ég þá rakið tildrög að þessu frv. og tilgang l. lauslega. Ekki verður sagt, að þessi framleiðnilánasjóðslög séu stór í sniðum, og ákvæðin eru fremur óljós, enda segir einhvers staðar í grg., að nauðsynlegt hafi verið talið að hafa þau sveigjanleg. Meiri hl. landbn., sem á fundi var, þegar þetta nál. var gefið út, leggur til, að frv. verði samþ. óbreytt. Minni hl. vill að sjálfsögðu hækka allar tölur, sem í því standa, og færa út starfssvið sjóðsins um leið og hefur verið flutt um það sérstakt frv. Við því er ekkert að segja annað en gott, að menn séu stórtækir og umbótasinnaðir, þegar um það er að gera að rista breiða þvengi af eigin skinni. En frá mínu sjónarmiði horfir málið dálítið öðruvísi við, þegar um það er að gera að rista þvengina af annars manns skinnum. Eðlilegra hefði mér fundizt samt, að greiðslur í framleiðnisjóðinn hefðu hafizt að nýju á yfirstandandi ári, en þar sem fjárlögin eru þegar afgreidd, get ég ekki lagt það til. Legg ég því til fyrir hönd meiri hl. landbn., að frv. verði samþ. óbreytt.