08.02.1971
Neðri deild: 44. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 772 í B-deild Alþingistíðinda. (630)

23. mál, framleiðnisjóður landbúnaðarins

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Frv. það, sem hér um ræðir, var flutt löngu fyrir jól, en náði ekki fram að ganga fyrir þinghléið. Það var á það minnzt við 1. umr. málsins, að það yrði undir því komið, hvort tekið yrði inn á fjárlög framlag fyrir árið 1971, hvort frv. yrði breytt, þannig að það gilti á árunum 1971–1975 í staðinn fyrir 1972–1976. Nú vita allir hv. þm., að það var ekki tekið inn á fjárlög neitt til þess að leggja í framleiðnisjóð á þessu ári og það er það, sem hv. frsm. gerði að umtalsefni hér, eins og hann sagði, að það væri eins og árið 1971 sé ekki til. En sem betur fer er nú árið 1971 til, og við vonum, að það verði gott ár og komizt verði af á þessu ári vei og farsællega, bæði í landbúnaði og öðrum atvinnuvegum, þótt ekki sé lagt í framleiðnisjóð á þessu ári. Ég get sagt hv. þm. það, að ég tók það til rækilegrar athugunar, hvort unnt væri að fá framlag á þessu ári í framleiðnisjóð. En ég var með mörg önnur erindi samtímis. Ég þurfti að fá samþykki fyrir 45–46 millj. kr., sem voru afleiðingar öskufallsins, sem ríkissjóður þurfti að greiða ýmist fyrir áramót eða á þessu ári. Það voru flutningastyrkir, það voru áburðarkaup, það var afurðatjón, það var dýralæknakostnaður og lyf hjá dýralæknum og það var grænfóðurræktin, sem var styrkt, 7 millj. kr. á árinu 1970, en grænfóðurræktin var tekin upp sérstaklega vegna öskufallsins og að nokkru leyti vegna kalsins. Þetta voru 45 millj. kr., sem ég fékk samþykki fyrir í ríkisstj., að yrði tekið upp og afgreitt eins og harðærisnefnd hafði lagt til, og vitanlega voru þessar afgreiðslur eðlilegar og sjálfsagðar, en ríkissjóður þurfti að láta þetta fé úti, og ég var minntur á það, þegar ég var að tala um framleiðnisjóðinn. Og sannleikurinn er sá, að þótt framleiðnisjóðurinn sé nauðsynlegur og æskilegt væri, að árlegt framlag til hans væri hærra en gert er ráð fyrir í frv., þá er margt annað eins nauðsynlegt, og tjónið af völdum kalsins og eldsins var aðkallandi og þurfti að mæta því. Ég læt þetta koma hér fram, úr því að þetta er hér til umtals, og gerir ekkert til, þótt á það sé minnzt. Hins vegar get ég tekið undir það með hv. frsm., að út af fyrir sig eru 25 millj. kr. á ári til framleiðnisjóðsins engin ýkja upphæð, ef sjóðnum eru ætluð öll þau verkefni, sem nefnd hafa verið og sem mætti gjarnan fela honum. En það eru aðrar stofnanir, sem geta tekið við því verkefni, sem hv. frsm. vill fela framleiðnisjóðnum. Verkefni framleiðnisjóðs hefur fram að þessu verið aðallega það, sem hér hefur verið talað um, að veita styrki og lán til sláturhúsa, til heimilistanka í sambandi við mjólkurbúin og rannsókna á grípa- og mjólkurhúsum. En yrði verkefni sjóðsins fært út, eins og gjarnan mætti gera, þá þarf náttúrlega til þess meira fjármagn.

Hv. minni hl. er hér með brtt., þar sem lagt er til, að tilraunir með innlenda fóðuröflun og heyverkun skuli sitja í fyrirrúmi fyrir öðrum verkefnum með fyrirgreiðslu, jafnframt því, sem hv. frsm. var að tala um hér áðan, endurbyggingu sláturhúsanna. En ég hef talið, að Rannsóknastofnun landbúnaðarins ætti að hafa með höndum tilraunir með innlenda fóðuröflun og heyverkun, svo að nokkuð sé nefnt, og sannarlega þarf ekki að breyta l. til þess að framleiðnisjóður gæti tekið þetta að sér, því að í 1. gr. l. er fram tekið, að sjóðurinn geti veitt til einstakra bænda, vinnslustöðva, ræktunarsambanda og vísindastofnana styrki og lán. Og væntanlega eru það vísindastofnanir, sem hafa með höndum þær rannsóknir, sem hér er um rætt um fóðuröflun og heyverkun, þannig að ef stjórn sjóðsins vill taka þetta upp, þá getur hún það. Og stjórn sjóðsins er ekki illa skipuð. Hún er skipuð fulltrúum frá Búnaðarfélagi Íslands, fulltrúa frá Stéttarsambandi bænda, tveimur án tilnefningar, sem eru valdir menn, og formaður sjóðsstjórnar skal vera forstöðumaður Efnahagsstofnunarinnar eða fulltrúi hans, þannig að stjórnin getur nú gert þetta án lagabreytingar.

Hin breytingin er sú að auka heimildina til þess að hækka styrkinn að hlutfalli milli styrkja og lána. Það er náttúrlega alltaf matsatriði. En ég teldi nú heppilegra að hafa ákvæðið eins og það er í l. Það er ekkert að efast um það, að verkefni í landbúnaðinum eru mörg mjög brýn. Þegar ég var að svara fsp. hv. 5. þm. Austf. um daginn, þá lét ég orð falla um það, að Rannsóknastofnun landbúnaðarins hefði á þessu ári nægilegt fjármagn til kalrannsóknanna, þeirra kalrannsókna, sem framkvæmdar yrðu á þessu ári, en tók það hins vegar fram, að þessar rannsóknir hlytu að taka mörg ár. Ég minnti á það, að rannsóknastofnunin hefur 17.5 millj. kr. til rannsókna fyrir utan þau laun, sem föstum starfsmönnum eru greidd. Og rannsóknastofnunin hefur það í hendi sér að vega og meta, hvaða rannsóknir eru nauðsynlegastar og þá getum við verið sammála um það, að kalrannsóknir eru það nauðsynlegasta, sem nú þarf að sinna. Við gætum gjarnan bætt við heyverkunaraðferðum, en ég lít svo á, að það sé fé fyrir hendi til þess að sinna þessu nú mjög sæmilega. Og grænfóðurræktin er komin á jarðræktarlögin, það var greiddur samkv. jarðræktarlögunum styrkur til hennar, þannig að það mætti létta á framleiðnisjóðnum hvað það snertir.

Ég tel, að það sé mikið atriði að lögfesta þetta frv., sem hér er um að ræða, enda þótt framlagið sé ekki nema 10 millj. kr. á ári og enda þótt æskilegt væri, að það væri hærra. Ég tel, að framleiðnisjóðurinn út af fyrir sig geti gert mikið gagn með þessu fjárframlagi og geti sinnt verulega því, sem mest er aðkallandi.

Hv. frsm. talaði hér um sláturhúsanefndina og nauðsyn þess að styrkja sláturhúsin. Það er ekkert ágreiningsmál, að það þarf að vinna áfram að uppbyggingu sláturhúsanna eins og þegar er byrjað á. Og þótt við höfum ekki haft sláturhús, sem Bandaríkjamenn hafa viljað viðurkenna, þá er það nú ekkert einsdæmi og ekki út af fyrir sig vegna þess, að sláturhúsin séu slæm. Það er sagt, að Bandaríkjamenn hafi ekki viðurkennt neitt sláturhús í Noregi og Svíþjóð, en hvort þeir hafa viðurkennt nokkurt sláturhús í Danmörku man ég ekki. En sem betur fer er uppbygging sláturhúsanna hafin og mörg sláturhús í landinu mjög sæmileg, en þau þarf þó að bæta, því að sjálfsagt er að draga ekkert úr kröfum til hreinlætis og góðrar meðferðar á matvælunum, hvort sem slátrað er fyrir útflutning eða til innanlandsneyzlu. Þetta ber að vanda. Hv. frsm. vitnaði hér í sláturhúsanefndina, sem skipuð var 1969, og hún leggur til, að það verði sem fyrst endurbyggð 12 sláturhús. Þetta kostar allt saman mikið fé. Þetta var 5 manna nefnd og ráðuneytið tilnefndi einn fulltrúa í hana. Ráðuneytið hefur fengið tillögur nefndarinnar og ég hef lesið þær, en ef til þess er ætlazt, að ráðuneytið staðfesti þessar tillögur, þá hefur það ekki verið gert. Ég veit, að n. lagði sig fram og þeir menn, sem í henni voru, eru velviljaðir og vilja gera þetta á sem beztan hátt. En ég veit líka, að það orkar mjög tvímælis sumt í þessum tillögum. Og ég held, að ýmsir af þeim, sem í n. voru, geti fallizt á það, þegar við þá er rætt, að það sé eðlilegt að taka þetta mál enn til athugunar, svo vandasamt sem það er. Það er vitanlega hreinn misskilningur, að ríkið hafi skuldbundið sig til þess að greiða ákveðinn hundraðshluta í stofnkostnaði sláturhúsanna. En hitt er rétt, að ríkisvaldið hefur gefið það í skyn, að það vill styðja þessa uppbyggingu í einu og öðru formi, m. a. með því að framlengja framlög til framleiðnisjóðsins. Þetta veit ég, að hv. 5. þm. Austf. þekkir vel og hann efast ekkert um vilja ríkisvaldsins til þess að styðja þetta. En það hefur ekki enn verið tekin ákvörðun um það, að hve miklu marki það verður, hvort það verður meira eða minna heldur en það, sem hv. þm. gaf hér í skyn áðan.

Ég get víst ekki orðið við þeirri ósk hv. þm. að sjá til þess, að framlag til sjóðsins verði hærra heldur en hér er lagt til, og er ekki um annað að ræða heldur en að segja það hreinskilnislega, að ég legg til, að frv. verði samþ. eins og hv. meiri hl. landbn. leggur til.