08.02.1971
Neðri deild: 44. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 774 í B-deild Alþingistíðinda. (631)

23. mál, framleiðnisjóður landbúnaðarins

Frsm. minni hl. (Vilhjálmur Hjálmarsson):

Herra forseti. Ég er nú að sjálfsögðu ekki ánægður með yfirlýsingu hæstv. ráðh., þó að ég geti ekki sagt, að hún valdi mér beint vonbrigðum því að ég átti nú ekki von á öðru. Þetta var dálítið rætt við 1. umr. hér í d., og það er auðséð, að hann telur sig ekki geta náð lengra í þessu máli heldur en þetta frv. gerir ráð fyrir og að mér skilst telur sig ekki hafa neinum skyldum að gegna umfram það. Hæstv. ráðh. sagði, að við vonumst til, að árið 1971 verði gott ár og það verði hægt að komast af án framlags! Þetta eru náttúrlega fallegar óskir og ég get tekið undir þær. En þetta er mjög ófullnægjandi afgreiðsla hjá hæstv. ráðh. og alveg sérstaklega .í sambandi við þann þátt málsins, sem búið er að undirbúa svo rækilega af hálfu n., sem rn. hefur tekið þátt í að skipa og síðan fylgzt með í starfi. Mér er alveg óhætt að fullyrða það, að hæstv. ráðh. og þar með hæstv. ríkisstj., fékk alla aðstöðu til að fylgjast með störfum sláturhúsanefndarinnar.

Á árinu 1971 er samkv. till. þessarar margnefndu n. gert ráð fyrir því, að til sláturhúsanna, til endurbyggingarinnar, þurfi 19.6 millj. kr. bein framlög, 10.55 millj. kr. stofnlánadeildarlán og 3.93 millj. kr. viðbótarlán úr framleiðnisjóði. Niðurstaðan er sú, að hlutverk framleiðnisjóðs á þessu ári er áætlað þarna 13.5 millj. kr. Og í það er þá ætlað samkv. frv. 10 millj. kr. á næsta ári! En hér við bætist, að þessar tölur eru miðaðar við verðlag í ársbyrjun 1970. Og ég vil spyrja: Hvar á að taka þetta fé, ef haldið er áfram verkinu, eins og plön hafa verið lögð um, hvar á að taka þetta fé? Hæstv. ráðh. sagði, að þetta mál hefði verið skoðað í rn., en það hefði ekki verið tekin ákvörðun um neinar ákveðnar fjárhæðir og það sé misskilningur, að ríkisstj. hafi tekið að sér að sjá um einhverjar ákveðnar fjárhæðir eða ákveðin hlutföll í þessu sambandi. Eins og ég held, að ég hafi getið um í framsöguræðu minni áðan, þá hef ég engin bréf um þetta í höndum, en ég er á annarri skoðun. Ég álít, að ríkisstj. hafi gefið það mikið undir fótinn um að standa að þessari áætlun, eins og hún er lögð hér fram, að ég álít þetta ekki gott, svo að ekki sé sterkara að orði komizt, að í staðinn fyrir að reyna að standa að gerðri áætlun skuli framlögin á þessu ári vera þurrkuð út eða réttara sagt aldrei tekin upp, því það er það sem gerist með frv., gagnstætt því, sem segir í aths. Það er raunar auðséð, að eftir að búið er að semja frv. með viðeigandi aths., þá kemur einhver hönd og breytir frv. og setur árin 1972–1976 í staðinn fyrir 1971–1975. Það er alveg augljóst af aths. frv., að þannig hefur þetta gengið til, og það er ekki hægt að taka það sem góða og gilda afsökun, þó að orðið hafi áföll á öðrum sviðum og þurft fé til stuðnings þar. Það er ekki hægt að taka það sem góða og gilda afsökun, og í 12 milljarða fjárlögum því síður. Ég tel, að það sé illa að þessu staðið af hálfu ríkisstj., miðað við undirbúning málsins.

Hæstv. ráðh. vildi láta líta svo út, að við ætluðumst til, að stuðningur við fóðuröflunina yrði látinn sitja fyrir sláturhúsamálinu. En ég vil aðeins benda á það, að í stjórn framleiðnisjóðs munu þegar hafa verið teknar ákvarðanir um stuðning við sláturhúsin og þegar við tölum um, að þessi verkefni hafi forgang, þá að sjálfsögðu ætlumst við ekki til þess, að því sé riftað, sem búið er að ákveða í stjórn framleiðnisjóðsins. Ég vil aðeins láta þetta koma hér fram. Ég skal aðeins víkja að rannsóknarstarfsemi landbúnaðarins, fyrst ráðh. fór að rifja það upp aftur, sem fram kom hér í svari hans við fsp. minni um kalið. Hann nefndi heildartölu, framlög til rannsókna, 17 millj. umfram laun. Þetta er vitanlega rétt út af fyrir sig, það munu vera 16.5 millj. eða sem næst því. Og þetta átti að sanna okkur, að það væri nægilegu fé varið til kalrannsókna eða sanna okkur það með sterkum líkum a. m. k., eins og einhvern tíma var sagt. En ég vil minna á það, að í viðfangsefnum Rannsóknastofnunar landbúnaðarins eru fjölmörg atriði, sem ýmist koma ekki inn á rannsóknir vegna þessa vágests, ellegar þá ekki nema að takmörkuðu leyti. En þar eru talin upp undir yfirskrift um viðfangsefni: búfjárræktardeild, jarðræktardeild, fóðureftirlit, bútæknideild, tölfræðilegir útreikningar, tilraunabúið á Hesti og tilraunastöðvarnar á Akureyri, Skriðuklaustri, Reykhólum og Sámsstöðum, sem vafalaust hafa meðfram einhver verkefni vegna kalsins, en það er þó ekki nema lítið brot af þeirra starfsemi, þannig að þessi tala, 16.5 millj. króna, þar sem krónan er nú rétt nákvæmlega einseyringsvirði miðað við það, sem hún var um 1930, það eru engin ósköp. En í þessari upptalningu viðfangsefna er til kalrannsókna sérstaklega aðeins ætluð 1 millj. kr.

Ég held, að ég hafi þá ekki fleiri orð um þetta að sinni, en ég vil enn og aftur lýsa yfir megnri óánægju með afgreiðslu málsins, ef það verður afgreitt á þennan hátt, og ég tel, að með þeirri afgreiðslu sé engan veginn staðið við þau fyrirheit, eða a. m. k. vilyrði, sem gefin hafa verið varðandi uppbyggingu sláturhúsanna, og alveg sérstaklega í æpandi ósamræmi við þær aths., sem ríkisstj. sjálf gerir við sitt eigið frv., því að það eru ekki aðeins við í minni hl. n., sem erum að telja upp mörg og brýn verkefni framleiðnisjóðs. Það kemur einnig fram, alveg greinilega, í aths. hæstv. ríkisstj. og það verður þá að skoða þær sem algerlega ómerkt tal, ef á að afgreiða málið á þennan hátt, að fé sjóðsins nægi ekki einu sinni til þess að standa fyllilega að einu sérstöku viðfangsefni, hvað þá að hann geti haft þann sveigjanleika, sem stjórnin ræðir um í aths. sínum, eða sinnt öðrum þeim sérstöku verkefnum, sem ríkisstj. talar um á sama stað.