08.02.1971
Neðri deild: 44. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 776 í B-deild Alþingistíðinda. (632)

23. mál, framleiðnisjóður landbúnaðarins

Stefán Valgeirsson:

Herra forseti. Ég man ekki betur en hæstv. landbrh. upplýsti hér í hv. deild í umr. í sambandi við fsp. á Alþ. s. l. þriðjudag, að hann færi nú yfirleitt eftir tillögum Stéttarsambandsins og Búnaðarfélagsins um framkvæmdir í sínu rn. í sambandi við landbúnaðinn. Nú liggur hér fyrir skýrsla, sem ég er með í höndum, um uppbyggingu og endurbyggingu sláturhúsanna. Og eins og hv. 5. þm. Austf. hefur sagt, þá hefur rn. sem slíkt tilnefnt mann í þessa n. og hefur, að ég ætla, haft einmitt jafnvel áhrif á þessi nefndarstörf miðað við þá reynslu, sem ég hef af ýmsum n., sem eru þannig tilnefndar. Í þessum tillögum er, eins og hv. 5. þm. Austf. sagði, lagt til, að styrkir á árinu 1971 verði 19.6 millj. og lán tæpar 4 millj. til þessara hluta einna. Í frv., sem hæstv. landbrh. lagði fram hér á þingi löngu fyrir jól, er sagt, að á árinu 1970 hafi framleiðnisjóðurinn 8 millj. kr. til ráðstöfunar. Hins vegar eru tillögur þessarar sláturhúsanefndar í sambandi við árið 1970 þær, að 20 millj. fari í styrki og 8 millj. 750 þús. í lán. En af því að hæstv. ráðh. sagði það s. l. þriðjudag hér í hv. d., að hann færi nú eftir þeim tillögum yfirleitt, sem kæmu frá bændasamtökunum, þá langar mig til þess að spyrja ráðh. að því, hvernig hann hefur hugsað sér að framkvæma þessa áætlun, sem hefur verið gerð af þessari n. Og ef ekki kemur fjármagn bæði í styrkja- og lánaformi, þá get ég ekki séð, hvernig á að framkvæma þessa áætlun. Ég veit, að þeir aðilar, sem byggja þessi sláturhús, hafa ekki eigið fé til þessara hluta og einhvers staðar að verður það að koma, enda kemur fram í þessari skýrslu, að rekstrargrundvöllur sláturhúsanna verður ekki of góður fyrir því, þó að það verði farið að öllu leyti eftir áætlun þessarar nefndar.

Mig langar líka til þess að vita, hvað það er, sem hæstv. landbrh. á við, þegar hann segir, að það orki mjög tvímælis sumt í tillögum sláturhúsanefndar. Við hvað á ráðh.? Ég hef nú farið yfir þessa skýrslu, og það er e. t. v. framkvæmdahraðinn. En hann sagði meira. Það er ekkert ákveðið, hvort henni verður meira eða minna skipt, þessari framkvæmdaáætlun, heldur en er þarna í þessum tillögum. En þá kem ég að öðru atriði í lögunum, eins og þau eru núna. Þá er ákveðið, að það megi ekki lána samkv. 3. gr., það megi ekki ráðstafa úr sjóðnum nema 1/3 í óafturkræf framlög. Ef ætti að fara eftir tillögum sláturhúsanefndarinnar og þetta fé ætti nú að koma úr framleiðnisjóðnum, þá þyrfti ráðstöfunarféð að vera a. m. k. 30 millj. á ári til þess að geta orðið við þessu, nema þá að breyta lögunum. En nú berst hæstv. ráðh. á móti breytingu á lögunum að þessu leyti.

Það er eins og hv. 5. þm. Austf. sagði áðan, og þarf ekki að deila um það, að það hefur verið búið að semja frv. á annan veg en það er hér. Það sýnir grg. Og ég vil skora á hv. þm. að lesa grg. með frv. og þá munu þeir sannfærast um það að þessi frvgr., eins og hún er hér, hefur verið allt önnur, en hvernig? Það er annað mál. A. m. k. á þann veg, að það yrði framlag til sjóðsins á þessu ári. Það má náttúrlega lengi deila um það, hvort Rannsóknastofnun landbúnaðarins eða einhverjir aðrir aðilar eigi að gera athuganir og tilraunir bæði um heyverkunaraðferðir eða eitthvað annað. Það kannske skiptir ekki höfuðmáli, hver það er, ef það er gert. En hefur það verið gert og er það gert? Það er það, sem skiptir máli. Og það er þess vegna, sem við setjum þetta inn í frv., til þess að tryggja það, að það sé gert, vegna þess að við teljum þetta vera svo þýðingarmikið, eins og reynslan hefur verið nú síðustu ár.

Ég sé ekki ástæðu til þess að vera að tefja tímann nú til þess að ræða þetta frekar. Þetta verður sjálfsagt rætt fljótlega aftur, þessir þættir, hér í hv. d., en ég vil bara skora á hæstv. landbrh. að athuga nú þetta mál enn betur, og það er leitt til þess að vita, að það kemur greinilega fram, að þau frv. — þau eru nú ekki mörg — sem ráðh. hefur lagt fram hér á þinginu, skuli bera þess merki, þegar hann er búinn að semja frv., að þau komast ekki fram, heldur er það einhver önnur hönd, sem breytir þeim, áður en þau koma hér fram í d. og verða því á allt annan veg en ráðh. sjálfur mundi óska.