08.02.1971
Neðri deild: 44. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 778 í B-deild Alþingistíðinda. (633)

23. mál, framleiðnisjóður landbúnaðarins

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Ég held, að hv. þm., sem var að tala hérna áðan, misminni, þegar hann talar um það, að frv., sem ég flytji hér í hv. d. eða hv. Alþ., sé breytt, vegna þess að ég komi þeim ekki fram og það sé einhver önnur hönd, sem hindri það, að ég komi frv. óbreyttum fram. Hv. þm. nefndi ekki, hvaða frv. þetta væru, en hann getur náttúrlega alltaf gert það. Hann hefur tækifæri til þess.

Ég þarf ekki að segja nema örfá orð. Hv. 5. þm. Austf. vildi láta í það skína, að með því að samþykkja frv. óbreytt, væri ekki staðið við þau vilyrði, sem gefin höfðu verið. Mér þykir það leitt, að hv. þm. skuli halda þessu fram, vegna þess að það er ekki rétt. Það hefur engu verið lofað, sem ekki er ætlunin að standa við, og þetta frv., þó að það verði samþ. óbreytt, þá hindrar það ekki, að það verði staðið við það, sem hefur verið lofað. Það er rétt, sem hv. þm. sagði, að þegar ég hefði rætt við forustumenn bænda, þá hefði ég gefið það í skyn, að það væri eðlilegt að veita þessu máli stuðning, áa þess að segja í hvaða formi eða að hve miklu leyti sá stuðningur ætti að vera. Þetta veit ég, að hv. 5. þm. Austf. man, þegar hann fer að athuga það.

Hv. 5. þm. Norðurl. e. talaði um það, að rn. hefði tilnefnt mann í 5 manna n. Það er rétt. Og vildi þm. gefa það í skyn, að úr því að rn. hafði tilnefnt mann í n., þá væri það skuldbundið að fara að öllu eftir nál. (Gripið fram í: Það er misskilningur ráðh.) Það er gott, að ég hef misskilið þetta, vegna þess að mér fannst þetta alveg fráleitt eins og ég skildi það, og það er ágætt. (SV: Það er í sambandi við yfirlýsingu ráðh.) Ef hv. þm. hefur ekki meint þetta svona, þá er ég ánægður með það. Nál. liggur í rn. og er til athugunar, og ég mun ræða þetta nál. við n. Ég mun ræða við n. Það má kannske ásaka mig fyrir það, að það hefur dregizt enn að gera þetta. Ég mun ræða við n. um það, sem mér finnst orka tvímælis í sambandi við tillögurnar og ég veit, að sumir nm. líta þannig á, að þarna sé sumt, sem orkar tvímælis. Þetta er vandamál. Það er vandamál, hvernig í að afla fjár til þess að byggja húsin upp. Og það er vitanlega matsatriði, að hve miklu leyti það á að vera með styrkjum, hagfelldum lánum eða á annan hátt. Það er atriði, sem þarf að finna heppilegustu lausn á. Og áætlun n. eins og hún liggur fyrir í álitinu, það náttúrlega þarf ekki að vera stór skaði skeður, þó að það væri að einhverju leyti vikið frá henni.

Ég sé svo ekki ástæðu til, herra forseti, að orðlengja meira um þetta. Við getum vitanlega verið sammála um það, að það væri æskilegt, að framlagið væri hærra í þessu frv. En ég held nú, að þó að svo sé, þá sé nú ekki ástæða til að gefa upp alla von um það, að það verði hægt að fara hina heppilegustu leið í sambandi við uppbyggingu sláturhúsanna og annað, sem þarf að styrkja og útvega lán til.