08.02.1971
Neðri deild: 44. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 779 í B-deild Alþingistíðinda. (634)

23. mál, framleiðnisjóður landbúnaðarins

Frsm. meiri hl. (Bjartmar Guðmundsson):

Herra forseti. Mér skilst á þeim umr., sem hér hafa farið fram, að þörf á fjármagni til uppbyggingar og breytinga á sláturhúsunum sé svo brýn, að það muni vera eðlilegt, að það sitji fyrir að því er snertir verkefni framleiðnisjóðs. Þess vegna finnst mér vera mjög óeðlilegt hér í brtt. frá minni hl., þar sem segir í 1. lið a: „Þó skulu tilraunir með innlenda fóðuröflun og heyverkun sitja fyrir öðrum verkefnum um fyrirgreiðslu.“ Þar með er ég ekki að segja, að slíkar tilraunir séu ekki nauðsynlegar og aðkallandi, en ég held, að sú fyrirgreiðsla eigi frekar að vera á vegum annarra stofnana heldur en þessa sjóðs.

Það hafa orðið hér nokkur orðaskipti í d., bæði nú og áður um seinagang á tilraunum varðandi það mikla böl og vandræði, sem yfir landið hefur gengið nú um það bil áratug, þar sem er kalið, að tilraunir og rannsóknir til þess að finna úrbætur gegn því hafi verið nokkuð seint á ferðinni. Ég held, að eins og nú er komið, sé þeim málum sinnt eftir því, sem maður getur frekast búizt við að gert verði nú á þessum árum. Hitt má náttúrlega segja, að það hafi verið heldur seint byrjað á þeim athugunum og rannsóknum og tilraunum, en við höfum nú sjálfsagt allir þá afsökun, að menn hafa ekki búizt við, að þessi mál mundu taka eins slæma stefnu og þau hafa tekið nú hin síðari ár. En af því að inn á þetta mál er komið, þá verð ég að láta í ljós mína skoðun á því, að fyrirgreiðsla við þá menn, sem verst hafa farið út úr kalinu svo til á hverju ári síðan 1961 á Norðausturlandi, hefur að mínu áliti ekki orðið nándar nærri nóg enn sem komið er. Harðærisnefnd sú, sem skipuð var fyrir nokkrum árum, þegar viðhorf í þessum málum fór að verða mjög alvarlegt, hefur unnið mjög mikið verk og hún skilaði eða framkvæmdastjóri hennar skilaði mjög merkri skýrslu í fyrra um ástand á landinu yfirleitt. Í sumar var henni falið það sérstaklega að finna ráð til úrbóta og fyrirgreiðslu við þá menn, sem verst urðu úti af völdum Heklugossins, og ég held, að hennar tillögur hafi verið þannig, að það hafi verið gert vel við þá menn, og ég fagna því mjög. Þetta var afmarkað verkefni og því auðveldara við að fást heldur en það, sem snertir kalið, sem er mikið víðtækara. En ég hika ekki við að fullyrða, að eftir 10 ára áföll í sumum landshlutum, eins og t. d. í Norður-Þingeyjarsýslu, í sumum hreppum Suður-Þingeyjarsýslu, í Norður-Múlasýslu nyrzt, í Strandasýslu, á Vestfjörðum og á nokkrum svæðum norðanlands hingað og þangað, þá er ástand orðið það alvarlegt í þessum efnum, að nærri stappar flótta frá búskap, ef ekki sér fram á einhver úrræði meiri og betri til fyrirgreiðslu heldur en enn hafa orðið. Ég hafði vænzt þess, að harðærisnefndin mundi gera einhverjar tillögur til úrbóta á þessum svæðum. Eitthvað í líkingu við þær tillögur, sem hún gerði varðandi Húnavatnssýslu og hluta af Árnessýslu út af Heklugosinu, en það hefur ekki komið fram. Hún gerði hins vegar tillögur um aukin lán úr Bjargráðasjóði og þau hafa hjálpað ákaflega mikið, en þetta er það alvarlegt mál frá mínu sjónarmiði séð, frá mínum bæjardyrum séð, að ég held, að þar þurfi betur á að taka, ef ekki á að skapast hreint vandræðaástand. Þeir menn, sem hafa fengið bjargráðasjóðslán núna hvað eftir annað á þessum svæðum og hefur verið bjargað yfir eitt og eitt ár með lánveitingum, eru fátækir menn og ég sé ekki líkur til, að sumir af þeim geti nokkurn tíma greitt þau lán og þá koma þau á sveitarfélögin og sveitarfélögin eru nú orðin þannig stödd á þessum svæðum, að þau geta ekki lagt á nema kannske annan hvern bónda í hreppunum. Ég veit a. m. k. um eitt eða tvö sveitarfélög, sem þannig standa að vígi. Af því að þessi mál hefur borið á góma hér við umr. í sambandi við þetta mál, sem ég tel þó vera utan við málefnið sjálft, þá gefur brtt. minni hl. n. tilefni til þess að ræða þetta lauslega, sem ég teÍ mig aðeins gera. Ég hef ekki tölur í höndum til þess að sýna þetta nógu glögglega, en þetta er mál, sem með einhverju móti þarf að taka betur fyrir, til úrlausnar og bjargar hreinlega nokkrum byggðarlögum, heldur en enn hefur verið gert.