08.02.1971
Neðri deild: 44. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 782 í B-deild Alþingistíðinda. (636)

23. mál, framleiðnisjóður landbúnaðarins

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Það er aðeins vegna þessarar fsp., sem hv. þm. varpaði til mín: Hvar á að fá féð 1971 til sláturhúsanna, sem framleiðnisjóður getur ekki látið af hendi, af því að það er ekki til hans veitt? Þá vil ég vitna til þess, sem ég sagði áðan, að ég mun eiga tal við sláturhúsanefndina, bæði um tillögur hennar og eins um þetta atriði, og fer ekki nánar út í það að sinni, og býst ég við, að hv. þm. fyrirgefi mér það.

Þá vitnaði hv. þm. í aths., sem eru með frv., þar sem tekið er fram, að mikilvægt sé, að framleiðnisjóðurinn geti haldið áfram að styðja þau verkefni, sem hann hefur byrjað á að styðja. Ég get tekið undir þetta, sem sagt er í grg., að ég sé ekki, að það stangist nokkurn hlut á, grg. og frv. Einmitt með því að flytja frv. og tryggja fé í sjóðinn er verið að stuðla að þessu. En það er alltaf matsatriði, hversu mikill stuðningurinn á að vera. Hann verður auðvitað því meiri sem upphæðin er hærri, sem lögð er árlega í sjóðinn.

Að athuguðu máli get ég vel gengið inn á það að athuga nánar 2. brtt. minni hl. og þar sem hún hefur verið tekin aftur til 3. umr., þá gefst góður tími til þess og má vel vera, að það sé réttmætt að samþykkja hana. Ef mér sýndist svo að athuguðu mál, þá mun ég mæla með því.