08.02.1971
Neðri deild: 44. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 782 í B-deild Alþingistíðinda. (637)

23. mál, framleiðnisjóður landbúnaðarins

Stefán Valgeirsson:

Herra forseti. Ég skal nú ekki verða langorður, en í sambandi við það, sem hæstv. landbrh. sagði hér síðast, að hann sæi nú ekki, að það stangaðist neitt á, grg. og frv., þá ætla ég að lesa hérna, með leyfi forseta, frvgr. og halda síðan áfram, þar sem hv. 5. þm. Austf. hætti áðan. En frvgr. er þannig:

„Aftan við 4. gr. laganna komi ný mgr. svo hljóðandi:

Á árunum 1972–1976 skulu greiddar úr ríkissjóði til framleiðnisjóðs kr. 50 millj., kr. 10 millj. hvert ár.“

En þar sem hv. þm. hætti að lesa áðan, er framhaldið svona:

„Starfsemi sjóðsins gat haldið áfram á árinu 1970, þar sem sjóðurinn hafði nokkurt fjármagn enn til ráðstöfunar. Til þess að frekara framhald geti þar á orðið, verður aukning stofnfjárframlags hins vegar að koma til. Í þessu frv. er lagt til, að stofnfjárframlagið verði aukið um 50 millj. kr. eða um 10 millj. kr. á ári á næstu 5 árum.“

Þetta frv. er lagt fram á árinu 1970, þannig að ráðh. kemst engan veginn fram hjá því, að grg. stangast á við frvgr., og ég vil endurtaka það, sem ég sagði áðan, að það er auðséð, að frvgr. hefur verið breytt og hefur ekki verið svona í upphafi, enda hefði þá grg. ekki verið svona skrifuð.

Í sambandi við það, sem hv. 11. landsk. þm., Bjartmar Guðmundsson, sagði áðan, þá var það út af fyrir sig ákaflega eftirtektarvert. Það kom fram hjá honum óánægjan, það sauð hér upp úr óánægjan vegna þess, hvernig hefur verið staðið að þessum málum í sambandi við harðærið á undanförnum árum og ég er reyndar ekkert hissa. Ég hefði verið mikið frekar hissa, ef þetta hefði ekki komið fram hjá einhverjum hv. þm. stjórnarliðsins. Það má minna á það, að þegar óþurrkarnir og kalið kom hér á Suðurlandi, þá var hægt að breyta lánunum í 7 ár úr 5 árum, eins og þau höfðu verið áður, og afborgunarlaus fyrstu 2 árin. Þó að það væri kal á Norðausturlandi ár eftir ár, þá var ekki hægt að breyta þessu ákvæði laganna, og það er alveg rétt, sem þm. sagði í sambandi við þessi lán, það eru alveg takmörk fyrir því sett, hvað þýðir að láta sömu mennina taka lán ár eftir ár til þessara hluta. Það verður annað að koma til. Og ég gleðst mjög yfir því, að þessi rödd skyldi heyrast einmitt úr þessari áttinni og vil mjög taka undir þessi orð og vonast til þess, að það verði meir en orðin tóm, að þm. reyni að standa að því með okkur, að þetta verði endurskoðað, hvort það er ekki kominn tími til þess að láta strika út eitthvað af þessum lánum hjá þeim, sem verst eru settir, t. d. á Austur- og Norðausturlandi.