12.11.1970
Neðri deild: 17. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 127 í B-deild Alþingistíðinda. (64)

101. mál, atvinnuöryggi

Frsm. meiri hl. (Matthías Á. Mathiesen):

Herra forseti. Fjhn. þessarar hv. d. hefur haft til meðferðar frv. það, sem flutt er á þskj. 106 um ráðstafanir til stöðugs verðlags og atvinnuöryggis. Eins og fram kemur hefur nefndin ekki orðið sammála um afgreiðslu málsins. Meiri hl. hefur gefið út nál. á þskj. 134, en minni hl. tveir gefið út sitt nál. hvor. Fjhn. beggja þd. héldu sameiginlegan fund, og á þeim fundi mætti forstjóri Efnahagsstofnunarinnar, Bjarni Bragi Jónsson, og gerði þar grein fyrir sjónarmiðum, svaraði spurningum og gaf upplýsingar. Á fundinn bárust bréf frá Alþýðusambandi Íslands og Vinnuveitendasambandi Íslands varðandi mál þetta, og eru þau bréf birt sem fskj. með nál. meiri hl.

Þá var einnig tekið til umr. samtímis frv. til l. um verðstöðvun á þskj. 30, þar sem því máli hafði áður verið vísað til n. og afgreiðsla þess máls, sem hér er á dagskrá, hafði að sjálfsögðu áhrif á algreiðslu þess, þegar að því kæmi.

Það leikur ekki á tveimur tungum, að mjög hagstæð efnahagsþróun hefur verið í landi voru á s. l. ári og það, sem af er þessu ári. Við höfðum orðið fyrir miklum áföllum á árunum 1967 og 1968 og vorum þá í öldudal, en eins og öllum er kunnugt, þá hefur, sem betur fer, birt í lofti og öll þróun í efnahags- og atvinnumálum okkar verið mun hagstæðari núna síðustu mánuðina og síðasta hálft annað árið. Svo hagstæð efnahagsþróun leiddi m. a. til þess, að atvinnuvegirnir voru taldir geta bætt kjör launþega. Því voru gerðir nýir kjarasamningar, þar sem launþegar fengu að verulegu leyti bætt sín kjör s. l. vor. Við eigum hins vegar við tvo meginþætti að etja í sambandi við efnahagsþróun okkar, þ. e. annars vegar hin óvissu aflabrögð og verðlag á erlendum mörkuðum, svo og hitt, að við sjálfir sinnum og gerum þær ráðstafanir, sem gera þarf í efnahagsmálum til þess að tryggja, að sá bati, sem fengizt hefur, viðhaldist, svo framarlega sem utanaðkomandi aðstæður gera ekki þar truflun á. Það er hins vegar ljóst mál nú, að verði ekki brugðizt við, þá blasir við okkur hættuleg þróun víxlhækkunar kaupgjalds og verðlags, sem allir vita, að leiðir til aukinnar verðbólgu, og það er sá vandi, sem við hefur verið að glíma og verður sjálfsagt við að glíma um nokkurt skeið. Í sambandi við þá hluti verður ekki hægt að komast hjá því til þess að tryggja, að sú verðbólguþróun, sem gæti átt sér stað, ef ekkert yrði að gert, stöðvist, að við reynum að koma málum okkar þannig fyrir, að það raski ekki samkeppnisaðstöðu atvinnuveganna og að þær kjarabætur, sem launþegar hafa fengið, verði gerðar að engu með verðbólgu, sem ella mundi þá verða í vaxandi mæli. Í frv. því, sem ríkisstj. hefur lagt fyrir Alþ., felast till. til þess að sporna við því, að hér verði víxlhækkanir kaupgjalds og verðlags, sem við má búast, ef ekkert verður að gert. Þessum till. hefur hæstv. forsrh. lýst í sinni framsögu, svo að ég sé ekki ástæðu til þess að endurtaka það hér, en vil leggja sérstaka áherzlu á, að þeim byrðum, sem á þarf að leggja, er dreift á landsmenn alla. Hér fær hver aðili sinn skerf og þannig reynt að láta þær aðgerðir koma sem jafnast niður og það verði sem minnst, sem hver verður að láta af sinni köku.

Það er skoðun meiri hl. fjhn., að með þessum till. megi takast að tryggja það, að sú þróun, sem ella mundi eiga sér stað, verði ekki, og með verðstöðvun og þeim hliðarráðstöfunum, sem hér eru lagðar til, megi takast að fyrirbyggja þær víxlhækkanir, sem ella mundu verða nú á næstu mánuðum og engum mundu verða til góðs og sem berlega mundu, eins og ég gat um áðan, raska mjög samkeppnisaðstöðu atvinnuveganna og gera þær kjarabætur, sem launþegar hafa fengið á þessu ári, jafnvel að engu.

Í bréfi Alþýðusambands Íslands er vikið að því á einum stað, að verði frv.-ákvæðin lögfest, séu samningar úr gildi fallnir. Ég held, að hér sé um að ræða hluti, sem ekki fái staðizt. Ég veit að vísu, að því hefur verið haldið fram hér af hluta af stjórnarandstöðunni. Ég hef hins vegar ekki heyrt þá hv. framsóknarmenn halda því fram, að svo mundi verða. Sé það misskilningur hjá mér og þetta skoðun þeirra hér í hv. þd., þá mundi ég hafa sérstakan áhuga á því, að formaður flokks þeirra, sem í Ed. situr, yrði spurður, hvort það væri skoðun hans, að slík lögfesting, sem hér er gert ráð fyrir, þýddi það, að samningar frá 19. júní milli launþega og atvinnurekenda væru úr gildi fallnir.

Sjálfsagt verðum við ekki sammála, ég og hv. þm., í sambandi við þetta atriði, en ég vildi vekja athygli á þessu og benda á, að hér er um að ræða sjónarmið, sem ég held, að fái ekki staðizt.

Í sambandi við afgreiðslu máls þessa í n. og vegna þeirra umr., sem hér fóru fram við 1. umr., þótti mér rétt að boða á fundinn til fjhn. þá Þórhall Ásgeirsson ráðuneytisstjóra, formann verðlagsnefndar, og verðgæzlustjóra, Kristján Gíslason, og ræða við þá um verðlagsþróunina, en því var haldið hér fram, að hún hefði verið með þeim hætti dagana og vikurnar fyrir framlagningu þessa frv., að nauðsyn bæri til, að það væri rannsakað. Ekki nóg með það, í till. á þskj. 105 er reynt að gera hæstv. forsrh. tortryggilegan vegna ummæla hans í sjónvarpi og þar í þeirri till. stefnt að því að stefna ráðh. fyrir landsdóm og fá hann dæmdan samkv. l. um ráðherraábyrgð. Mig langar til þess að vekja athygli hv. þdm. á þessari málsmeðferð, sem hér hefur átt sér stað, því að mér sýnist hún með algerum einsdæmum og hvernig verið er með blekkingum og fullyrðingum að reyna að villa um fyrir landsmönnum í sambandi við það mál, sem hér er á döfinni. Það var að kvöldi 13. okt., sem umrætt sjónvarpsviðtal var haft við forsrh. Hálfum öðrum sólarhring seinna þá sjáum við þm., að hér í þingsölum er útbýtt frv. til l. um verðstöðvun. Flm. eru Lúðvík Jósefsson, ásamt þeim þm. Alþb. Til þess að hér sé hægt að útbýta frv. á miðjum degi 15. okt. þarf að hafa nokkuð snör handtök, en augljóslega hafa þeir þm., sem þetta frv. fluttu, verið snöggir aðfaranótt 14. og gripið úr bókaskáp sínum Alþt., hripað upp úr þeim verðstöðvunarfrv., sem lagt var fyrir Alþ. 1966, gripið þar tvær til þrjár gr. og lagt svo frv. inn á skrifstofu Alþ. og því útbýtt hér þann 15. okt., eða hálfum öðrum sólarhring eftir að þessar umr. áttu sér stað. Skyldi nú nokkur maður, sem áttar sig á þessum vinnubrögðum, láta sér detta í hug, að hér væru málefni látin ráða? Nei. Auðsjáanlega er verið að gera hérna einn ákveðinn hlut, og hann er sá, að það á að hagnýta sér umr., sem forsrh. átti í sjónvarpi, setja það á svið, enda stóð ekki á seinni hluta sviðsetningarinnar, því að sama dag og frv. ríkisstj. er lagt hér fram á Alþ., þá er borin fram till. í hv. Nd., þar sem lagt er til að kjósa þingn., sem rannsaki allan aðdraganda verðlagsfrv. og verðlagsþróunina og hvort rök séu til þess, að forsrh. verði kærður fyrir brot á lögum um ráðherraábyrgð. Það er að vísu ekki sami 1. flm., heldur hitt höfuðið notað, þ. e. hv. 6. þm. Reykv., Magnús Kjartansson, en þeir tveir, hann og hv. 4. þm. Austf., hafa verið þau tvö höfuð, sem Alþb. hefur hér í þessari hv. þd. Það er hinn 15. okt., sem frv. þeirra er flutt, að sjálfsögðu til þess að reyna að koma af stað skriðu verðhækkana í landinu, til þess svo síðan að hægt væri að kenna hæstv. forsrh. um það, sem þá hefði gerzt.

Mér fannst útilokað annað en að vekja athygli á þessari málsmeðferð og gera mönnum grein fyrir því, hvernig staðið er að málunum af hálfu þessara flm. Ég er sannfærður um það, að þeir hv. framsóknarmenn, sem tóku til máls hér við 1. umr., hafa ekki gert sér grein fyrir því, hvaða skollaleikur hefur hér verið settur á svið. Ég trúi því ekki, að málflutningur þeirra hefði verið með þessum hætti, ef þeir hefðu áttað sig á því, hvað hér var um að vera.

Það var þess vegna ekki óeðlilegt, að við í fjhn. fengjum tækifæri til þess að ræða við verðlagsstjórann um þessi mál og sjá, hvort þessum hv. flm. frv. á þskj. 30 hefði með þeim áróðri, sem þeir viðhöfðu í þessu máli hér á þingi og í sínu málgagni, tekizt að fá þá skriðu af stað, sem þeir í upphafi höfðu ætlað sér. Sem betur fer hafði það ekki tekizt, því að á fundi fjhn. var verðlagsstjórinn sérstaklega spurður um þessa hluti, og hann sagði, að við athuganir verðlagsskrifstofunnar síðustu daga hefði ekki orðið vart neinna dæma um óeðlilega verðlagsþróun á þessum tíma. Þetta er prentað í nál. okkar meiri hl. Þar sem aðdragandi þessa frv. hefur m. a. spunnizt inn í þessar umr., þá töldum við eðlilegt og rétt, að þetta kæmi hérna fram, um leið og við vildum vekja athygli á þeim aðferðum, sem hv. flm. Alþb. viðhafa í sambandi við þessi mál. Vel má vera, að við deilum um efnisatriði, verðum ekki sammála um þau, en eitt erum við þó sammála um, að við óskum eftir því, að sú þróun verði í landi voru, að hún verði til hagsældar öllum landsmönnum. En ég segi, að fyrir þeim aðilum, sem standa að slíkum málflutningi, vakir eitthvað allt annað. Það er skoðun mín, eftir að ég hef athugað þetta mál, að ekkert það hafi komið fram, sem valdið geti, því, að hæstv. forsrh. verði stefnt fyrir landsdóm, en þeir flm., sem standa að þessu máli, verða að ganga fyrir þjóðardóm, áður en langt um líður, og ég efast ekkert um, hvernig þau málalok verða.

Ég tel ekki ástæðu, herra forseti, til þess að fjölyrða meir um frv. Meiri hl., eins og fram kemur á nál. 134, mælir með því, að frv. verði samþ. óbreytt.