12.11.1970
Neðri deild: 17. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 130 í B-deild Alþingistíðinda. (65)

101. mál, atvinnuöryggi

Frsm. 1. minni hl. (Þórarinn Þórarinsson):

Herra forseti. Hv. frsm. meiri hl. ræddi hér eiginlega öllu meira um annað mál en það, sem hér liggur fyrir, og skal ég ekki blanda mér mikið út í þær umr., en mér finnst þó rétt að láta koma fram, að ég skildi ummæli verðlagsstjórans ekki að öllu leyti eins og hann. Það er að vísu rétt, sem komið er fram hér í nál. meiri hl. og hv. frsm. sagði, að verðlagsstjóri komst þannig að orði, að enn hefðu við athugun þessara mála ekki komið fram neinar óeðlilegar verðhækkanir á umræddu tímabili, en hann tók það jafnframt fram, að þessum rannsóknum væri enn ekki að öllu leyti lokið og ennfremur, sem kannske skiptir mestu máli, að eftirlit verðlagseftirlitsins nær ekki nema til þeirra vara, sem eru undir verðlagseftirliti, það nær ekki til þeirra vara, sem eru óháðar verðlagseftirliti, en mér skilst, að það sé oft nokkurn veginn álíka mikið vörumagn, ef tekið er tillit til þeirra vara, sem ganga inn í vísitöluna og þeirra vara, sem eru undir verðlagseftirliti, þannig að þrátt fyrir þessi ummæli verðlagsstjóra, þá llt ég þannig á, að þetta mál sé hvergi nærri nægilega upplýst enn. Skal ég svo ekki frekar ræða um það.

Mér finnst rétt í upphafi að rifja upp í örstuttu máli afstöðu Framsfl. til þessa máls, sem kemur fram í nál. okkar, sem erum í 1. minni hl. fjhn. Það er í fyrsta lagi, að Framsfl. styður verðstöðvunarákvæði frv., enda þótt hann álíti verðstöðvun hreint bráðabirgðaúrræði.

Í öðru lagi styður Framsfl. einnig auknar fjölskyldubætur og niðurgreiðslur á vöruverði. Í þriðja lagi er Framsfl. andvígur þeim ákvæðum verðstöðvunarfrv., sem fela í sér breytingar á kjarasamningum verkalýðsfélaga og atvinnurekenda og telur það svo mikilvægt, að þau ákvæði séu felld úr frv., að hann mun greiða atkv. gegn því í heild, ef niðurfelling þeirra fæst ekki fram. Ríkisstj. hefur líka heimild til verðstöðvunar í gildandi l. og hefur þegar notfært sér hana. Í fjórða lagi er Framsfl. einnig andvígur ákvæðum frv. um sérstakan launaskatt, er sé greiddur af atvinnurekendum, þar sem hann telur óeðlilegt, að lagðir séu á nýir skattar, meðan óvíst er um afgreiðslu fjárlaga. Leiði afgreiðsla fjárlaga hins vegar í ljós, að þörf sé nýrra tekna vegna hinna auknu fjölskyldubóta og niðurborgana, er flokkurinn reiðubúinn að eiga þátt í öflun þeirra.

Þetta er í stuttu máli sú afstaða til þessa frv., sem felst í nál. okkar og þeim till., sem við berum fram og ég mun víkja að nánar síðar. En mér finnst rétt, áður en ég geri það, að víkja örfáum orðum að tilefni þessa frv. Tilefnið er í stuttu máli það, að það er komið fullkomlega í ljós, að sú efnahagsstefna, viðreisnarstefnan svonefnda, sem verið hefur fylgt á undanförnum árum, er gjaldþrota, hún er komin í strand. Þetta er játað mjög greinilega í nál. meiri hl. fjhn., þar sem segir á þessa leið, með leyfi hæstv. forseta:

„Það er ljóst mál, að verði ekkert aðhafzt nú, blasir við hættuleg þróun víxlhækkana kaupgjalds og verðlags, sem á skömmum tíma mundi raska mjög samkeppnisaðstöðu atvinnuveganna og leiða til óhagstæðra viðskipta þjóðarinnar út á við og stöðva áframhaldandi hagvöxt.“

Í stuttu máli sagt er fullkomið strand efnahagsmálanna framundan, ef ekkert er að gert. Þessi skilningur kom líka fram hjá forystu Sjálfstfl. á s. l. sumri, þegar hún lagði til, að efnt væri til þingkosninga, vegna þess að efnahagsmálin væru komin í strand, og það mundi verða mjög erfitt að koma fram raunhæfum aðgerðum á seinasta þingi fyrir kosningar. Eins og kunnugt er þá strandaði það á hinum stjórnarflokknum, að efnt væri til þingkosninga, en það er hins vegar komið fram, sem Sjálfstfl. réttilega hélt fram á s. l. sumri, að á seinasta þingi fyrir kosningar geta stjórnarflokkarnir ekki komið sér saman um raunhæfar aðgerðir í efnahagsmálum. Þess vegna er gripið til þeirra hreinu bráðabirgðaráðstafana, sem felast í þessu frv. og eiga ekki að gilda nema fram á næsta sumar, vegna þess að öllum er ljóst, að þá verða þær ekki nothæfar lengur og grípa þarf til annarra meiri háttar ráðstafana heldur en þeirra, sem hér liggja fyrir, vegna þess að efnahagslífið er raunverulega strandað, þó reynt sé að fleyta því í nokkra mánuði með þeim bráðabirgðaúrræðum, sem felast í þessu frv. Þjóðin verður þess vegna að gera sér það fullkomlega ljóst, að þótt sé hægt með þessum bráðabirgðaráðum að fleyta atvinnulífinu um stundarsakir, þá eru efnahagsmálin raunverulega komin í strand, og það verður að gera stórfelldar, nýjar og aðrar efnahagsráðstafanir strax að kosningum loknum. Það, sem flokkarnir standa að sjálfsögðu frammi fyrir í næstu kosningum, er það að gera sér grein fyrir því, hverjar þessar ráðstafanir eiga að vera. Að vísu þarf ekki að spyrja neitt um það, hverjar ráðstafanirnar verða, ef núv. stjórnarflokkar halda velli og þeirra samstarf heldur áfram. Þá verður gripið til sömu aðgerðanna og eftir verðstöðvunina 1967. Þá verður það gengisfelling og aðrar slíkar ráðstafanir, sem af henni leiða. Fyrir því er örugg reynsla.

Þessi mál eru hins vegar þannig vaxin, að ég ætla ekki að eyða lengri tíma til þess að ræða um þau að sinni, en mér finnst rétt eigi að síður að vekja athygli á því, að þetta frv. er ný sönnun þess, að viðreisnarstefnan er strönduð, það er reynt að fleyta sér áfram með hreinum bráðabirgðaráðstöfunum um stutta stund, en innan tíðar verður óhjákvæmilegt að grípa til annarra víðtækari og raunhæfari ráðstafana en þeirra, sem felast í þessu frv., eins og líka Sjálfstfl. taldi réttilega á s. l. sumri, að það væri nauðsynlegt að láta kosningar fara fram, svo að það væri hægt að gera raunhæfar ráðstafanir á þessum vetri. Kosningarnar urðu ekki, og þess vegna er þessi bráðabirgðaleið valin fram yfir kosningar. Ég segi þetta m. a. vegna þess, að þegar búið er að ganga frá þessu máli hér á Alþ., þá má búast við, að það hefjist sami söngurinn hjá stjórnarflokkunum og fyrir seinustu kosningar, þegar verðstöðvunin var samþ. þá, að nú sé í raun og veru búið að leysa allan vanda, og kjósendur þurfi ekki annað að gera en að kjósa stjórnarflokkana til að tryggja áframhaldandi velmegun, eins og var slagorð Sjálfstfl. í þeim kosningum.

Ég ætla þá að víkja að afstöðu okkar minni hl. manna til þess frv., sem hér liggur fyrir, og þeirra brtt., sem við flytjum. 1. gr. frv. fjallar um verðstöðvun. Eins og ég hef þegar lýst, þá erum við þeirri gr. fylgjandi. Við teljum, að fyrst meiri hl. er ekki fyrir hendi á Alþ. til að gera raunhæfar dýrtíðar- eða efnahagsráðstafanir, þá sé þó betra að gera þessa tilraun en að það sé ekki neitt gert. Hins vegar er það skoðun okkar, að hér sé um hreint neyðarúrræði að ræða, sem margir gallar séu á og útilokað sé, að geti staðið til langframa.

Varðandi 2. gr. frv., sem fjallar um sérstakan launaskatt, sem atvinnurekendur eigi að greiða næstu mánuði, þá er afstaða okkar sú, eins og ég hef áður rakið, að ekki sé rétt á þessu stigi að samþykkja nýjan skatt, þar sem enn er ekki vitað, hver afgreiðsla fjárl.-frv. verður. Það kemur í ljós í grg. þess frv., sem hér er til umr., að áætla megi tekjubálk fjárl. verulega hærri en gert er í fjárl.-frv., og meðan þeir útreikningar liggja ekki fyrir, þá er að sjálfsögðu óeðlilegt, að gerðar séu ráðstafanir til þess að leggja á nýjan skatt. Hitt er svo annað mál, að ef fjárlagaafgreiðslan leiðir það í ljós, að þörf sé nýrra tekna vegna þessara ráðstafana, vegna aukinna fjölskyldubóta og aukinna niðurborgana, þá erum við að sjálfsögðu til viðræðu um það að eiga þátt í slíkri tekjuöflun. En fyrr en það liggur ljóslega fyrir, þá getum við ekki fallizt á, að lagðir séu á nýir skattar.

3. gr. frv., sem fjallar um auknar fjölskyldubætur, erum við fylgjandi, enda er hún í fullu samræmi við þær till., sem við fluttum um þetta efni á seinasta þingi.

Ég kem þá að 4. og 5. gr. frv., sem við leggjum til, að felldar séu niður. Ástæðan er sú, að þessar gr. hafa að okkar dómi ekki aðeins verulega kjaraskerðingu í för með sér fyrir launþega, — það má deila um það, hversu mikil hún sé, og ég skal ekkert fara út í þær deilur, — en frá okkar sjónarmiði er það jafnvel enn þá mikilvægara atriði, að í þessum gr. felst veruleg breyting á gildandi kjarasamningum milli verkalýðsfélaga og atvinnurekenda. Ég held, að þótt menn séu ósammála um það, hvað mikil kjaraskerðing fylgi þessum breytingum, þá hljóti þó allir að vera sammála um það, að þeir breyti að verulegu leyti grundvelli þeirra kjarasamninga, sem nú eru í gildi milli verkalýðsfélaga og launþega og gerðir voru á s. l. sumri. Þessar breytingar eru þrenns konar.

Í fyrsta lagi er breytt útreikningi kaupgjaldsvísitölunnar. Þær dýrtíðarbætur, sem launþegar áttu að fá l. des. n. k., ættu að miðast við framfærsluvísitölu, sem reiknuð er út 1. nóv. Ef hækka ætti fjölskyldubætur eða framkvæma niðurgreiðslur, sem eiga að hafa áhrif á kaupgjaldsvísitöluna 1. des. í ár, þá þyrftu þær að vera komnar til framkvæmda fyrir 1. nóv. til þess að geta haft áhrif á vísitöluna þá. En nú er þessu breytt þannig, að þessar niðurgreiðslur þurfa ekki að vera komnar til framkvæmda fyrr en einhvern tíma fyrir 1. des., þannig að með þessum hætti getur ríkisvaldið á hverjum tíma frestað í a. m. k. einn mánuð að framkvæma niðurgreiðsluna á þann hátt, að það hafi áhrif á kaupgreiðslur. Þetta þýðir t. d. það, að niðurgreiðslur, sem koma ekki til framkvæmda fyrr en síðari hluta þessa mánaðar, hefðu ekki haft áhrif á kaupgjaldsvísitöluna samkv. gildandi reglum. Þær hefðu þurft að vera hafnar fyrir 1. nóv. s. l., þegar framfærsluvísitalan var reiknuð út. Hér getur sem sagt munað einum mánuði á grundvelli kaupgjaldsvísitölunnar í sambandi við niðurborganir og aðrar breytingar á verðlagsgrundvellinum. Mér skilst, að með því að beita þessari aðferð þá muni ríkissjóður spara sér í niðurgreiðslum nokkra tugi milljóna í þessum mánuði.

Önnur breytingin, sem er gerð á grundvelli kaupgreiðsluvísitölunnar, er sú, að það á að fella niður verðhækkanir á útsöluverði áfengis og tóbaks og hækkun á iðgjöldum almannatrygginga, sem samkv. gildandi samningum og gildandi vísitölugrundvelli eiga að ganga inn í vísitöluna, en eiga nú samkv. frv. að hverfa alveg. Þetta er breyting, sem við núv. aðstæður samsvarar hvorki meira né minna en einu vísitölustigi.

Þá er í þriðja lagi, að greiðslu tveggja vísitölustiga skuli a. m. k. frestað í nokkra mánuði, en samkv. venju má nú alveg eins reikna með, að sú frestun verði endanleg.

Það má kannske segja, að þessar breytingar, eins og nú standa sakir, hafi ekki neina stórvægilega kjaraskerðingu í för með sér fyrir launþega, en frá mínu sjónarmiði er það ekki höfuðatriðið. Höfuðatriðið er það, að Alþ. blandar sér hér inn í samninga verkalýðsfélaga og atvinnurekenda og gerir verulega röskun á þeim. Og þegar einu sinni er búið að skapa slíkt fordæmi, þá má búast við, að áframhald verði á þessu, eða a. m. k. geta launþegar hæglega gert ráð fyrir því, og alveg eins gætu atvinnurekendur gert ráð fyrir því, að það væru gerðar breytingar á gildandi samningum þeim í óhag. Ég held, að það sé höfuðatriði, að ef kjarasamningar eiga að geta haft tiltrú þeirra aðila, sem að þeim standa, hvort heldur það eru launþegar eða atvinnurekendur, — þá verði þeir að geta treyst því, að þeim verði ekki breytt á Alþ. Og ég er alveg viss um það, að ef það verður framkvæmt, sem lagt er til í þessu frv., þá muni það verða fast ákvæði í öllum kjarasamningum eftirleiðis, að þeir skuli falla úr gildi, ef Alþ. raskar að einhverju leyti þeim grundvelli, sem kjarasamningarnir eru byggðir á. Hér er tvímælalaust farið út á mjög hættulega braut. Hvað sem kjaraskerðingunni líður, þá er hitt ljóst, og um það er ekki hægt að deila, að með þessum ákvæðum er verið að breyta grundvelli kjarasamninga og rjúfa þá tiltrú og traust, sem viðkomandi aðilar þurfa að bera til þeirra. Alþ. hefur líka viðurkennt þetta áður við setningu laga. Þegar gerð var röskun á gildandi samningum á milli sjómanna og útgerðarmanna fyrir nokkrum misserum hér á Alþ., þá man ég ekki betur en það væri sett í lög, að þessi breyting hefði þau áhrif, að gildandi samningar væru niður fallnir og sjómenn hefðu þess vegna rétt til þess að taka samninga upp að nýju. Ég lít þannig á, að það standi alveg eins á hér og í það skipti. Að vísu má segja, að kjaraskerðingin, sem þessi lög höfðu í för með sér fyrir sjómenn, var tiltölulega meiri en sú kjaraskerðing, sem þessi breyting felur í sér, en verknaðurinn var eigi að síður sá sami. Og þess vegna væri það eðlilegt, ef ríkisstj. vildi halda þessum ákvæðum til streitu, að hún beitti sér fyrir því, að það yrðu sett inn í frv. sams konar ákvæði og í lögin um sjómannakjörin um það, að með þeim væru samningar á milli launþega og atvinnurekenda úr gildi fallnir.

Ég vil benda á það í þessu sambandi, að við seinustu samningagerð náðist sá ávinningur, sem ég tel til hags fyrir báða aðila, að samið var til lengri tíma en venja hefur verið, eða til eins og hálfs árs, en áður hefur verið samið í mesta lagi til eins árs. Það var að sjálfsögðu gert í fullu trausti þess, að þessum samningum yrði ekki breytt. Ég er alveg viss um það, að ef þessi breyting á samningunum, sem frv. felur í sér, nær fram að ganga, þá verða í framtíðinni ekki gerðir samningar milli vinnuveitenda og launþega til lengri tíma. Það mætti segja mér, að slíkir samningar yrðu ekki gerðir nema til hálfs árs, í stað þess að þeir hafa venjulega verið gerðir til eins árs, og náðist þó fram við seinustu samninga, að þeir yrðu til eins og hálfs árs. Þetta m. a. veldur því, að ég held, að hæstv. ríkisstj. ætti að hugsa sig betur um, áður en hún gerir alvöru úr því að koma þeim ákvæðum fram, sem felast í 4. og 5. gr. frv.

Ég vil líta þannig á, að hæstv. ríkisstj. hafi alls ekki gert sér grein fyrir því, hvað hún var að gera, þegar hún setti þessi ákvæði inn í frv. Hún hafi alls ekki gert sér grein fyrir því, að með því að setja þessi ákvæði inn í frv. var verið að breyta þeim kjarasamningum, sem voru gerðir milli launþega og atvinnurekenda á s. l. sumri og stofna þannig til nýrra átaka um þessi mál. Jafnvel þó að verkalýðssamtökin slepptu því að líta á þá kjaraskerðingu, sem í þessum ákvæðum felast, þá eru þau samt þannig vaxin, að þau geta ekki sætt sig við þau nema með þeim hætti að beita einhverjum mótaðgerðum. Þau geta ekki fallizt á það „prinsip“, að Alþ. geti, hvenær sem er, skorizt í leikinn og breytt gildandi samningum, sem aðilar vinnumarkaðarins hafa gert. Það hljóta allir að sjá, að þegar þeir eru einu sinni komnir inn á þá braut, þá hafa kjarasamningar ekki lengur neitt gildi, þá vita atvinnurekendur og launþegar ekki lengur, hvað þeir eru að semja um, því að þessu getur verið breytt, hvenær sem er, kannske innan fárra vikna, á Alþ. Og ég álít, að hér sé um mál að ræða, sem alls ekki snertir launamenn eina, þótt það geri það í þessu tilfelli. Þetta getur alveg eins snert atvinnurekendur. Það getur alveg eins komið ríkisstj., sem breytir samningum þeim í óhag, eins og það er nú ríkisstj., sem breytir samningum launþegum í óhag. Ég held, að ríkisstj. við nánari athugun hljóti að sjá, að þetta er miklu alvarlegra mál en hún hefur gert sér grein fyrir í upphafi, og sennilega hefur hún ekkert hugsað málið frá þessu sjónarmiði í upphafi, því að hér er í raun og veru farið inn á þá braut að raska grundvelli undir öllum samningum í landinu. Ef Alþ. getur leyft sér það að breyta grundvelli kjarasamninga, þá getur það alveg eins leyft sér að breyta grundvelli annarra samninga. Hér er þess vegna ekki um þau 2 eða 3 vísitölustig að ræða, sem felast í þessum gr. Hér er um það að ræða, hversu menn meta samningsréttinn og samningahelgi í þjóðfélaginu. Ég vildi þess vegna vænta þess, að hæstv. ríkisstj. hugsaði þetta mál betur og gerði sér grein fyrir því, að inn á alvarlegar brautir er stefnt. Það getur haft mikla þýðingu fyrir alla samninga í landinu, ef Alþ. leyfir sér, þótt kannske ekki sé um mjög stórfellda breytingu að ræða, að breyta einu sinni grundvelli kjarasamninganna. Að sjálfsögðu væri þetta allt annað, ef í þessu frv. fælust sams konar ákvæði og í sjómannalögunum, sem ég minntist á hér áðan, að samningar væru frjálsir. En ég held, að út frá því sjónarmiði og út frá því fordæmi, sem sett var, einmitt í sambandi við þessi áðurnefndu sjómannalög, þá hljóti menn að líta þannig á, að ef þessar tvær gr., 4. gr. og 5. gr. frv., verði samþ., þá hafi verkalýðssamtökin rétt til þess að gera mótráðstafanir á þann hátt, sem hafa næga þýðingu til að koma í veg fyrir það, að út á þessa braut verði farið framvegis. Það er að sjálfsögðu rétt að virða lög, og með lögum skal land byggja. En það er líka til annar málsháttur, sem er alveg eins réttur: Nauðsyn brýtur lög. Það getur komið þannig fyrir, þegar löggjafinn beitir sérstökum rangindum, er að skapa mjög hættuleg fordæmi, að þá verði stundum að fara aðrar leiðir en þær, sem æskilegar væru. Og ég er þess vegna hræddur um, ef það verður samþ., sem felst í þessum gr., að þá eigum við eftir að standa frammi fyrir því með einhverjum hætti, að verkalýðshreyfingin telji sig tilneydda að brjóta þessi ákvæði niður. Ekki skyldi ég lá henni, þótt hún gerði það. Þótt það sé óhagstætt fyrir launþega að missa í kaupgreiðslu 2 eða 3 vísitölustig, þá er ég miklu hræddari við það fordæmi, sem felst í þessari lagasetningu, ef af henni verður. Ég tel, að það sé svo mikilvægt fyrir verkalýðshreyfinguna að tryggja það, að kjarasamningar séu virtir og haldnir, að það geti enginn láð henni, þótt hún grípi til harðra mótaðgerða, ef þessar gr. yrðu samþ.

Það er bezt fyrir okkur að gera okkur grein fyrir því, að siðmenntað þjóðfélag byggist á engu frekar en því, að samningar séu virtir og haldnir. Ef byrjað er á því að rjúfa samninga og breyta grundvelli þeirra, þótt í litlu sé, þá er ekki gott að gera sér grein fyrir því, hvert áframhaldið kann að verða. Það er áreiðanlegt, að þá verður haldið inn á mjög hættulega og varasama braut. Þess vegna tel ég þessi ákvæði frv. sérstaklega hættuleg. Ég álít hættuna, sem stafar af því, að menn virði ekki samninga, miklu alvarlegri en þá skerðingu, sem því kann að fylgja, að launþegar missi 2 eða 3 vísitölustig um nokkurn tíma. Það er af þessum ástæðum, sem við, sem stöndum að áliti 1. minni hl., leggjum það til, að þessar gr. séu felldar niður, og teljum svo mikilvægt, að það fáist gert, að við munum greiða atkv. gegn frv. í heild, ef það verður ekki. Það er líka rétt að benda á það í þessu sambandi, að verðstöðvun getur haldizt, þótt þetta frv. falli, vegna þess, að í gildandi lögum hefur ríkisstj. heimild til verðstöðvunar og hefur þegar hagnýtt sér þau ákvæði. Ef hins vegar þessar gr. verða felldar úr frv. og brtt. okkar teknar til greina, þá munum við að sjálfsögðu veita því fylgi, þótt við, eins og ég sagði áðan, teljum verðstöðvun hreint neyðarúrræði, en þó sé betra að fara inn á þá braut en að gera ekki neitt.

Ég vil svo enn að lokum beina þeim orðum til hæstv. ríkisstj., að hún endurskoði afstöðu sína til umræddra gr. í frv. Mér finnst mjög líklegt, eins og ég hef áður sagt, að ríkisstj. hafi alls ekki gert sér grein fyrir því, hve alvarleg árás felst í þeim gr. á samningsréttinn í landinu og hve hættuleg áhrif þær geta haft á vinnufriðinn í landinu. Ég mundi álíta ríkisstj. meiri, ef hún, eftir að hafa athugað þessi mál betur, féllist á það að taka þessi ákvæði út úr frv., enda í sannleika sagt skiptir það engu höfuðmáli fyrir efnahagslífið í landinu eða afkomu ríkissjóðs, hvar þessi 2–3 vísitölustig eru látin liggja. Það er ekki slík upphæð t. d. fyrir ríkissjóð að borga þau, þótt þá þyrfti að afla nýrra skatta, að það sé ekki þess virði, ef þar með verði tryggð áfram virðing fyrir samningsréttinum og haldið óbreyttum þeim kjarasamningi, sem nú gildir milli verkalýðsfélaganna og atvinnurekenda, og þannig tryggður vinnufriður a. m. k. fram á næsta haust.