03.03.1971
Efri deild: 56. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 787 í B-deild Alþingistíðinda. (654)

23. mál, framleiðnisjóður landbúnaðarins

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Ég get vitanlega tekið undir það, sem hv. 1. þm. Vesturl. sagði hér áðan, að það væri æskilegt, að það væri meira, sem lagt væri í framleiðnisjóð heldur en gert er ráð fyrir í þessu frv. En það hefur nú orðið samkomulag um það að lögfesta frv. eins og það er lagt fram, ef hv. Alþ. vill á það fallast, og ég tel það út af fyrir sig mikils virði, að sjóðnum er gert fært að starfa. Það er vitanlega hægt alltaf að benda á, að það sé þörf á hærri fjárhæðum, m. a. til þess að byggja upp sláturhúsin. Nú er það svo, að það hefur miðað vel áfram uppbyggingu og lagfæringu sláturhúsanna undanfarin ár, þótt enn séu mörg sláturhús þannig, að það þurfi nauðsynlega að endurbyggja þau, til þess að þau uppfylli þær kröfur, sem gerðar eru til sláturhúsa. Og n., sem hv. þm. minntist á hér áðan, hefur skilað áliti. Þetta var, að mig minnir, 5 manna n. og rn. tilnefndi einn mann í hana. Því var haldið fram, m. a. í Nd., að með því að tilnefna mann í n. hefði rn. eða sá ráðh., sem það gerði, tekið á sig skuldbindingu um það að samþykkja allt, sem n. lagði til með fjáröflun og fyrirkomulag á húsunum. En það er vitanlega reginmisskilningur, að það felist nokkur skuldbinding í því. Hitt er rétt, sem hv. þm. sagði hér áðan, að ég hef tekið því vinsamlega, þegar við mig hefur verið rætt um þetta, vegna þess að ég skil nauðsynina á því að lagfæra og endurbyggja sláturhúsin. En hvort það verður gert akkúrat með þeim hætti, sem n. leggur til, það er óráðið enn. Og 14 sláturhús, sem n. leggur til að verði byggð, er vitanlega allt of lítið fyrir landið allt, þannig að þetta nál. verður endurskoðað.

Um framkvæmdirnar nú í ár, hvað um þær verður, þá vil ég upplýsa það, að það er stutt síðan ég ræddi við framkvæmdastjóra Framleiðsluráðs og það er enn styttra síðan ég ræddi við formann Stéttarsambands bænda. Þeir minntust á það, að vegna þess að ekki væri fé í framleiðnisjóði á þessu ári, gæti það valdið nokkrum vandræðum í ár í sambandi við þær framkvæmdir, sem standa fyrir dyrum. Þeir nefndu sláturhúsið á Húsavík, þeir nefndu sláturhúsið á Blönduósi. Niðurstaðan af samtali mínu við formann Stéttarsambands bænda, Gunnar Guðbjartsson, varð sú, að hann skyldi skrifa til mín bréf og lýsa því, hvað aðkallandi væri á þessu ári. Munum við síðan ræða um það, hvernig með þetta skuli fara, því að það er alls ekki meiningin að stöðva framkvæmdir, það er alls ekki meiningin. Hitt er svo annað mál, og það veit ég, að hv. 1. þm. Vesturl. skilur, að bændum er vitanlega frjálst að leggja gjald á kjötið, 40 aura á dilkakjöt og láta það renna til sláturhúsanna. En það er ekki víst, að það verði jafnauðvelt að leggja gjald á útsöluverð kjötsins í þessu skyni. Ég segi það, að það er ekki víst, að það sé jafnauðvelt. Ég er ekki þar með að segja, að það sé óframkvæmanlegt. En það þarf að tala nokkur orð áður en það verður samþykkt. Það er út af fyrir sig heldur ekki ómögulegt, að ríkissjóður leggi fram fé á móti því, sem bændur leggja til, en einnig það þarf undirbúning, og víst er það, að ekkert er á fjárlögum þessa árs í þessu skyni. Einnig það kostar nokkrar orðræður áður en það tekst, og fé samkv. þessari fjáröflunarleið er ekki fyrir hendi á þessu ári, en eigi að síður þarf að hafa ráð til þess að vinna það, sem nauðsynlegt er að vinna á þessu ári. Nú er það svo og ég veit, að hv. 1. þm. Vesturl. veit það, að það eru ekki ýkja mörg sláturhús, sem verður unnt að vinna að í sumar, vegna þess að undirbúningi er ekki lokið að því. Ég efast um, að það sé nema Blönduós og Húsavík. Að vísu eiga bæði Borgarnes og Búðardalur eftir að fá framlög samkv. reglum, sem menn vilja fara eftir. En um sérstakt frv. á þessu þingi vegna sláturhúsanna er ekki að ræða. Það er nú orðið tiltölulega skammt til þingloka og verður ekki tími til þess að flytja sérstakt frv. í því skyni. En eins og ég sagði, hefur þetta mál verið rætt við tvo framámenn í þessum málum, og meiningin er að finna leið til þess að halda eðlilegum framkvæmdum áfram á þessu ári í uppbyggingu sláturhúsanna.